Wolfgang Amadeus Mozart

Mozart-óperan á Íslandi

Þann 27. janúar 2006 var þess minnst að 250 ár voru liðin frá fæðingu tónskáldsins Wolfgangs Amadeusar Mozarts. Leikminjasafn Íslands og Þjóðmenningarhúsiðum tóku höndum saman og héldu upp á þessi tímamót með sýningu í bókasal Þjóðmenningarhússins þar sem brugðið var upp mynd af sögu Mozart-óperunnar á íslensku leiksviði. Bæði Þjóðleikhúsið og Íslenska óperan hafa flutt helstu óperur Mozarts og voru búningar, myndir og annað efni frá þeim uppfærslum á sýningunni.

Fyrsta Mozart-ópera sem sýnd var á Íslandi, var gestaleikur Konunglegu sænsku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós. Hann kom hingað í júní 1950 í tilefni af opnun Þjóðleikhússins. Sýningin vakti mikla hrifningu og átti sinn þátt í því að vekja almennan áhuga á óperulistinni sem Þjóðleikhúsið leitaðist við að sinna næstu ár á eftir.

Fyrsta Mozart-ópera Þjóðleikhússins var Töfraflautan árið 1956. Árið áður hafði Leikhús Heimdallar, sem var leikhópur undir stjórn Einars Pálssonar, þó sýnt eina af minni óperum tónskáldsins, æskuverkið Bastien und Bastienne, sem nefndist Töframaðurinn í íslenskri þýðingu. Það var fyrsta söngverk Mozarts fyrir leiksvið sem hér var flutt með íslenskum kröftum í öllum hlutverkum. Árið 1969 sýndi Þjóðleikhúsið svo Brúðkaup Fígarós í sýningu sem vakti hörð viðbrögð, einkum vegna þess að eiginkona þjóðleikhússtjóra var valin í hlutverk greifafrúarinnar, en ýmsum þótti hún naumast hafa listræna burði til þess.

Íslenska Óperan hefur verið iðin við að sýna helstu óperur Mozarts. Fyrst þeirra var Töfraflautan árið 1982 og hefur hún verið sýnd tvívegis síðan (1991 og 2001). Brúðkaup Fígarós hefur verið sýnd tvisvar (1989 og 2004). Þá var Don Giovanni sýnd árið 1988 og Cosi fan tutte árið 1997. Óperustúdió Austurlands, sem Keith Reed rak og stjórnaði á árunum 1998 til 2003, flutti fjórar af óperum Mozarts og var ein þeirra, Don Giovanni, sýnd sem gestaleikur í Borgarleikhúsinu.

Munirnir á sýningunni voru eign Leikminjasafns Íslands, Íslensku Óperunnar, Þjóðleikhússins og ýmissa þekktra einstaklinga í íslensku tónlistarlífi.

Una Collins. Búningateikningar

Una Collins. Búningateikningar

Lothar Grund. Leikmynd úr Töfraflautunni 1956

Lothar Grund. Leikmynd úr Töfraflautunni 1956

Lothar Grund. Leikmyndir úr Töfraflautunni 1956

Lothar Grund. Leikmyndir úr Töfraflautunni 1956

Lothar Grund. Leikmyndir úr Töfraflautunni 1956

Lothar Grund. Leikmyndir úr Töfraflautunni 1956

Um sýninguna

Mozart-óperan á Íslandi

Óperusýningar

Óperusýningar í Þjóðleikhúsi

Mozart in Iceland

The Mozart Opera in Iceland