Leiklistin og hafið

Sýning í Víkinni - Sjóminjasafni Reykjavíkur 2010

Járnhausinn eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni

Járnhausinn eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni í Þjóðleikhúsinu 1964-65

Sýningin Leiklistin og hafið fjallaði um tengsl leiklistarinnar við hafið og var í samstarfi við Sjóminjasafnið Víkina. Auk sýningarinnar voru fluttar dagskrár með leik og söng úr íslenskum leikritum. Gunnar Eyjólfsson flutti mónólog úr Hart í bak. Leiklesinn var leikþátturinn Brandur eða Bjarglaunin saminn um 1790 af Geir biskup Vídalín, í leikstjórn Sveins Einarssonar. Leikarar voru Árni Kristjánsson, Bendikt Gröndal, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Þór Tulinius og Þórunn Magnea Magnúsdóttir Einnig var frumflutt leikin og sungin dagskrá með sjómannalögum undir heitinu Hæ hopp sasa undir stjórn Ágústu Skúladóttur og Ingibjargar Björnsdóttur. Leikarar voru Margrét Sverrisdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson, Valgeir Skagfjörð, Oddur Júlíusson og Viktor Leifsson.

Hafið og við

Hvert er það skáld sem ekki hefur ort um hafið? Hver hefur ekki staðið á ströndinn, hlustað á báruna gjálpa eða brimið gnýja, horft út á hafið, dreymt sig á sjónarrönd, eða jafnvel ýtt kænu úr nausti.

Íslendingar hafa alltaf verið siglingaþjóð. Við þurftum að sigla hingað út til að verða sérstök þjóð í sérstöku landi. Við þurftum að sigla um höfin til að týnast ekki sjálf í ballarhafi, til að vera hluti af menningarsamneyti þjóðanna. Og við þurftum að smíða okkur skip til að draga í bú lífsbjörgina. Lífið er þorskur, segjum við. Det kommer an på silla, segja Norðmenn frændur okkar, eftir því hvað þeirri duttlungarskepnu, síldinni, dettur í hug.

Leikhúsinu er ætlað að endurspegla lífsreynslu okkar, lýsa því hvernig við hugsum og störfum. Það þarf því engan að undra þó að hafið blasi við einnig á leiksviðinu - í sínum margvíslegustu myndum. Við nokkra könnun kemur beinlínis í ljós, hversu mjög hafið kemur við alla okkar sögu - einnig þá sögu sem við endursegjum og endursköpum með okkar listrænu miðlum á leiksviðinu.

Eitt fyrsta leikrit sem Íslendingur samdi hét Brandur eða Bjarglaunin og þar bjargast menn úr sjávarháska. Höfundurinn er þó ekki sjómaður, heldur stúdent, nýsloppinn fra prófborði í Kaumannahöfn - og síðar biskup. Geir Vídalín - Geir biskup góði eins og menn kölluðu hann. Þetta hefur verið upp úr 1790, við vitum ekki ártalið, en nokkur fullvissa er fyrir því að Skálholtspiltar eða Hólvallapiltar fluttu leikinn. Fróðir menn hafi bent á að efnið og jafnvel leikfléttan kunni að vera undir áhrifum frá einu þekktasta leikriti Dana á 18. öld, Fiskimönnunum eftir Johannes Ewald. Það má trúlega til sanns vegar færa, en hins vegar rýrir það í sjálfu sér ekki gildi þessarar frumsmíðar sem er rammíslensk í efnistökum sínum og umhverfislýsingu - það er afsprengi þjóðar sem á allt sitt undir sjónum.

Hér er hvorki staður né stund til að telja upp allan þann fjölda sjónleikja sem síðar sækir efni sitt í sambúðina við hafið, glímuna við hafið, bjarglaunin úr hafinu sjálfu. Hvernig má annað vera, þegar svo mörg leikskáld hafa sjálfi verið til sjós - Jökull Jakobsson, Jónas Árnason, Loftur Guðmundsson, svo nefnd séu örfá nöfn. Og auðvitað hafa leikararnir einnig verið til sjós; Róbert Arnfinnsson, Árni Tryggvason, Þröstur Leó Gunnarsson....

Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason í Iðnó 1970

Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason í Iðnó 1970

Mörg þessara leikrita hafa verið í hópi vinsælustu verka á leiksviði okkar. Meira að segja var fyrsta íslenska leikritið sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi á sínum 113 ára ferli lýsing á sambýlinu við hafið. Það hét Skipið sekkur og var eftir leiklistarfrumkvöðulinn Indriða Einarsson, Ibsenskt drama. Þetta var 1903 og stefndi í aðsóknarmet eins og oft þegar fólki þykir sem leikhúsið sé að fjalla um það sjálft; en því miður varð sviplegt sjóslys hér uti á flóa - og við hæfi þótti að hætta sýningum - þó ekki nema nafnsins vegna.

Fjórum áratugum síðar vakti frumsmíð ungs Vestmannaeyings, Lofts Guðmundssonar athygli á sömu fjölum -í Iðnó. Það hét Brimhljóð og lýsti lífi sjómanna í Eyjum. Svo góðar voru viðtökur að einkennilegt má heita, að það skuli ekki hafa verið tekið aftur til skoðunar af atvinnumönnum. Hins vegar var þráðurinn tekinn upp síðar af Sjónvarpinu með geysivinsælum framhaldsþáttum frá Eyjum - Sigla himinfley eftir Þráin Bertelsson.

Hart í bak Jökuls sækir sér þema í fyrstu siglingar stórskipa okkar milli landa á meðan óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélagið , var ungt og hét - og í Sjóleiðinni til Bagdad verður hafið tákn langana okkar og drauma. Í söngleiknum Járnhausnum eftir þá Múlabræður er það safarík seltan í lífi alþýðunnar sem á meðlíðan höfundanna - og áhorfenda. Og allir muna hann Jörund. Í Hafinu eftir Ólaf Hauk Símonarson sjáum við útgerðaraðalinn í sorg og gleði - og síðan endurgerðan í napurri kvikmynd Baltasars Kormáks. En hvern skyldi hafa órað fyrir því, að svo mjög kenndi þetta leikrit til uppruna síns, að lítið leikfélag á Dalvík náði að sýna það 22 sinnum í einni lotu!

Og hvernig hefði mátt vera, að síldarævintýrin fram eftir öldinni, brytust ekki fram á leiksviðinu með eftirminnilegum hætti eins og í sjónleik þeirra Steinsdætra, Kristínar og Iðunnar Síldin er komin. Svo barnaleikritum sé ekki gleymt má minna á Krukkuborg Odds Björnssonar - það hve sjómennskan kemur mikið við sögu í revíunum.

Saga af sjónum eftir Hrafn Gunnlaugsson. Sjónvarpið 1973

Róbert Arnfinnsson og Sigurður Skúlason í leikriti Hrafns Gunnlaugssonar,Sögu af sjónum, sem sýnt var í sjónvarpinu 1973

Hér hefur verið staldrað við örfá verk af miklum fjölda af leiksviði, úr sjónvarpi, í kvikmyndum. Þau eru öll íslensk. Sýningin okkar hér í Sjóminjasafninu gefur auðvitað fyllri mynd af þeim iðandi fjölbreytileika. En ekki verður runan styttri, ef farið er að vísa til erlendra verka, þar sem hafið er kvikan: Þrettándakvöld Shakespeares, Hafið bláa hafið eftir Georges Schéhadé, Skipið eftir færeyskan frænda okkar, Steinbjörn Jacobsen...

Lisin er ekkert eyland, því að enginn er eyland. Hún er ekki skreytilist til tyllidaga, heldur samgróin öllu því sem við köllum þróun í samfélagsmálum - bæði atvinnumálum og pólitískum hræringum. Menningin er einfaldlega oftar en ekki aflvaki, og klekur út hugsuninni á bak við allar þjóðfélagsbreytingar. Sýning sem lýsir því hvernig listin og það sem oftast var miklivægasta lífsbjörgin eru samtvinnuð á því erindi til að minna á þessi sannindi.

Sveinn Einarsson

Um sýninguna

Leiklistin og hafið

Sýningarspjöld

Leiklistin og hafið - Sýningarspjöld (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)

Sýningarskrá

Leiklistin og hafið - Sýningarskrá (pdf skjal - opnast í nýjum glugga)

Veggspjald

Leiklistin og hafið - Veggspjald