Leiklist í Hafnarfirði

Friðsöm bylting Templaranna

Leiksaga Hafnarfjarðar er um margt merkileg, eins og þeir sem leggja leið sína í Gúttó við Suðurgötu þar í bæ komast að raun um. Þar stendur nú yfir sýning þar sem stiklað er á stóru í þessari sögu. Húsið sjálft skipar þar stóran sess, eins og Jón Viðar Jónsson, forstöðumaður Leikminjasafns Íslands, fræddi blaðamann DV um í vikunni.

Frá sýningunni Leiklist í Hafnarfirði í Gúttó

Frá sýningunni Leiklist í Hafnarfirði í Gúttó. Jón Viðar Jónsson er annar frá vinstri

„Sýningin gefur hugmynd um hvernig leikstarf þróast í litlu bæjarfélagi úti á landi. Það eru ákveðnar hliðstæður á milli slíkra staða, þótt leiklistarlífið á hverjum stað sé misjafnt eftir áhuga, aðstæðum, persónum og ýmsu öðru,“ segir Jón Viðar Jónsson, forstöðumaður Leikminjasafns Íslands. Um síðustu helgi opnaði safnið sýningu í Góðtemplarahúsinu, eða Gúttó, í Hafnarfirði þar sem leiksaga bæjarins er umfjöllunarefnið. Saga leikstarfsemi í Hafnarfirði spannar nákvæmlega 130 ár. Það er þó tilviljun að sögn Jóns Viðars að það hittist þannig á með tímasetningu sýningarinnar. Bygging Gúttós, sem stendur á Suðurgötu 7, var risastórt skref í þessum hluta sögu bæjarins en húsið var vígt árið 1886.

„Þetta voru reyndar tímamót í allri menningarstarfsemi í Hafnarfirði yfirleitt,“ segir Jón Viðar. „Þetta er fyrsta fjölnota samkomuhúsið í bænum. Hér fór svo margt fram, bæjarstjórnin hélt hér fundi og öll möguleg félög fengu hér inni. Það var þannig með þessi hús Góðtemplarareglunnar alls staðar þar sem þau spruttu upp,“ segir Jón Viðar en Templarar reistu samkomuhús yfir starfsemi sína á helstu þéttbýlisstöðum, svo sem Akureyri, Ísafirði, Hafnarfirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Vestmannaeyjum og víðar.

Mikilvægi Reglunnar

Góðtemplarareglan var vagga íslenskrar leikstarfsemi. Þetta var öflug, alþjóðleg félagsmálahreyfing sem nam land á Íslandi á miðjum níunda áratug nítjándu aldar. „Eitt meginmarkmið hennar var að vinna gegn áfengis- og tóbaksnautn, og einnig að stuðla að félagsanda og samstöðu,“ segir Jón. „Besta ráðið til þess var að finna fólki heilbrigðari og þroskavænlegri áhugamál og tómstundastörf en almennt voru í boði á þeim tíma. Leiksýningar urðu því eðlilega mjög snemma vinsæl fjáröflunarleið og drjúg tekjulind fyrir starfsemi og byggingu.“

Jón bætir við að reglan hafi verið mjög lýðræðisleg; þarna hafi komið saman fólk af öllum stéttum og báðum kynjum. „Hún er því á vissan hátt byltingarhreyfing og reglan umbylti íslenskum félagsmálum á fáum áratugum. Upp úr þessu spretta leikfélögin og verkalýðsfélögin eru líka einn angi hennar. Þarna lærir fólk að vinna saman félagslega sem það kunni náttúrlega ekkert á þessum tíma því það var ekkert skólakerfi eða neitt sem byggði slíkt upp. Skólakerfið var auðvitað í höndum valdastéttarinnar og það má segja að Góðtemplarareglan hafi verið friðsamleg byltingarhreyfing. Hún hafði því gífurlega þýðingu fyrir þjóðina.“ Gúttó er dæmi um íslenskt landsbyggðarleikhús eins og það gerist best, segir Jón. Af þeim sökum hafi Leikminjasafnið alltaf haft sérstakt dálæti á húsinu.

Eldhugar og upphafsmenn

„Á þessari sýningu er farið yfir þessa sögu, en auðvitað stiklað á mjög stóru. Það er líka reynt að benda á þá sem hafa verið frumkvöðlar og eldhugar. Það er alltaf þannig að menn rífa upp með sér aðra; það þarf einhvern kraft,“ segir Jón. Prímusmótorinn á þeim árum sem leikstarfsemi var að hefjast í Gúttó á ofanverðri nítjándu öld var Þorsteinn Egilsson. Hann var sonur Sveinbjörns Egilssonar, skálds og rektors, og því bróðir Benedikts Gröndal en Þorsteinn gerðist kaupmaður og útgerðarmaður í Hafnarfirði.

Frá sýningunni Leiklist í Hafnarfirði í Gúttó

„Það er svolítið gaman að því að hann er einn af þessum ungu mönnum sem hrífast af Sigurði Guðmundssyni málara þegar hann kemur til Reykjavíkur 1858,“ lýsir Jón. „Sigurður var mikill áhugamaður um leiklist og varð mikill aflvaki í leiklistarmálum þjóðarinnar, dreif upp sýningar, hvatti skáldin til að skrifa leikrit og útbjó sjálfur leiktjöld. Hann var eldsál sem markaði afskaplega djúp spor í sögu þessa tíma og Þorsteinn er einn úr hópnum í kringum hann. Sigurður kveikir í honum neista.“

Þegar Þorsteinn kom til Hafnarfjarðar og settist þar að var vandinn sá að það vantaði leikrit. Á þessum tíma var svo afskaplega lítið til af þeim. Af íslenskum leikritum voru einungis til Útilegumennirnir, eða Skugga-Sveinn, Nýársnóttin og leikrit Sigurðar Péturssonar.

„Þorsteinn skrifar því tvö leikrit og gefur út, Útsvarið og Prestskosninguna,“ segir Jón. „Í þeim er svolítið tekið á félagsmálum samtímans. Í Prestskosningunni eru til dæmis teknar til meðferðar spurningar um þá meinbugi sem geta verið á framkvæmd lýðræðisins, hætturnar við að einstakir menn noti það sér til framdráttar í krafti auðs og valda.“ Góðtemplararnir fóru snemma með gestaleiki til Reykjavíkur, til dæmis settu þeir Skugga-Svein upp í Iðnó um aldamótin 1900. Jón Trausti rithöfundur skrifaði um þá uppfærslu mjög harðan leikdóm. „Þar spurði hann hvað þessir „viðvaningar“ væru að leika Skugga-Svein, það væri ekki nokkur mynd á þessu hjá þeim, og velti hann fyrir sér hvað þeir væru að koma með þetta í höfuðstaðinn,“ segir Jón Viðar og hlær.

Síðbúið leikfélag

Leikfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1936. Þrátt fyrir að fimmtíu ár hafi liðið frá því Gúttó var vígt og þar til leikfélagið var stofnað var eflaust meira og minna óslitin leikstarfsemi í húsinu, telur Jón, þótt það hafi verið misjafnt eftir árum.

„Málið var að leiksýningar voru ákveðin tekjulind fyrir stúkurnar, ungmennafélögin, kvenfélögin og jafnvel verkalýðsfélög og fleiri félög. Menn voru því ekkert alltaf hrifnir af því að einhverjir væru að stofna sérstök leikfélög. Svo var líka talsvert um það að leiksýningar væru haldnar til styrktar fátækum eða sjúkum. Þess vegna var ákveðin andstaða sums staðar, en ég veit ekki alveg hvernig það var hér í Hafnarfirði. Ég hef alla vega engar sérstakar spurnir af því. En ég get nefnt sem dæmi að Eyþór Stefánsson, sem var aðalburðarás leikstarfs á Sauðárkróki og stofnaði þar leikfélag, sagði mér að hann hefði mætt talsverðri andstöðu við það innan stúkunnar þar í bæ.“

Frá sýningunni Leiklist í Hafnarfirði í Gúttó

Almannarómur eftir Stein Sigurðsson var fyrsta sýning Leikfélags Hafnarfjarðar eftir stofnunina upp úr miðjum fjórða áratugnum. Leikfélagið lék í nokkur ár, dofnaði fljótlega en svo lifnaði aftur yfir því 1943 og starfaði það með miklum krafti langt fram á sjöunda áratuginn. Árið 1945 flutti LH starfsemi sína úr Gúttó í hið nýja bíóhús bæjarins og starfaði þar á meðan það var við lýði. Þó að sviðið í Bæjarbíói væri ekki stórt þóttu aðstæður til leiksýninga þar skárri en í gamla Gúttó. Frá sjónarhóli húsaverndar var brottflutningur LH úr Gúttó mikið happ því um leið minnkaði ágangur á húsinu og sviðinu, þó að enn færi þar fram ýmis starfsemi, þar á meðal danskennsla.

Jón Viðar segir áhersluna í verkefnavali leikhússins í gegnum tíðina hafa verið á gamanleiki. „Verkefnavalið sór sig þannig í ætt við það sem löngum tíðkaðist hjá leikfélögum landsbyggðarinnar. Gamanleikir, flestir af erlendum uppruna, voru algengir og voru sumir afar vinsælir. Þótt verkefnin hafi fyrst og fremst verið afþreyingarkyns þá er greinilegt að það var metnaður í þessu félagi. Langalgengast var til dæmis að þau fengju leikstjóra frá Reykjavík til að setja upp,“ segir Jón og nefnir þar menn eins og Ævar Kvaran, Klemens Jónsson, Einar Pálsson, Rúrik Haraldsson og fleiri. Stjörnur úr borginni komu líka stundum til þess að leika, eins og Haraldur Á. Sigurðsson, sem var vinsælasti gamanleikarinn á þessum tíma ásamt Alfreð Alfreðssyni, og Emilía Jónsdóttir.

Á meðal hafnfirsku áhugaleikaranna og -leikkvennanna sem léku að staðaldri hjá LH má nefna Eyjólf Illugason járnsmið, sem var einnig meðal framámanna Góðtemplara og lék hlutverk Skugga-Sveins hvenær sem leikurinn var settur upp á um þrjátíu ára tímabili, og Huldu Runólfsdóttur.

„Hún var kennari hér og var mjög hæfileikarík. Hún var enda mikil stjarna á þessum tíma,“ segir Jón en þess má geta að Hulda er móðir Hjálmars Sveinssonar útvarpsmanns og nú varaborgarfulltrúa Samfylkingar. Jón nefnir einnig Guðfinnu Breiðfjörð, Herdísi Þorvaldsdóttur auk þess sem Kristbjörg Kjeld tók sín fyrstu spor á sviði í Hafnarfirði árið 1950. Marga fleiri mætti svo nefna.

Endurreisn leikfélags

Starfsemi LH lognaðist út af um miðjan sjöunda áratuginn. Jón segir að verið geti að samkeppnin við leikhúsin í Reykjavík hafi spilað þar eitthvað inn í. Þetta var líka rétt áður en sjónvarpið kom þannig að þetta voru erfiðir tímar. Leikfélagið var hins vegar endurvakið 1983 og hefur síðan þá haldið uppi mjög kröftugu starfi.

Frá sýningunni Leiklist í Hafnarfirði í Gúttó

„Það er svolítið gaman að því að endurreisnin byrjar í Flensborgarskólanum sem sýnir þetta samspil á milli skólanna og leiklistarlífsins. Árni Ibsen heitinn fer að starfa sem kennari í Flensborg árið 1976 og hann setur af stað mikla leiklistarhreyfingu þar. Þau setja þar upp stóra söngleiki og mjög metnaðarfull verkefni, til dæmis Ó, þetta er indælt stríð, sem var frægur söngleikur, Indíána eftir Arthur Kopit, Eftirlitsmann Gogols og fleira. Þarna varð til svolítið sterkur kjarni sem raunverulega endurreisir svo leikfélagið. Atvinnuleikhús varð svo til hér með stofnun Hafnarfjarðarleikhússins, Hermóðs og Hávarar, árið 1995. Það er auðvitað einn kaflinn í þessari sögu líka, að hér verður til metnaðarfullt atvinnuleikhús sem nær að stimpla sig á kortið.“

Starfsemin í Gúttó er ekki mikil eins og stendur. Byggðasafn Hafnarfjarðar annast rekstur hússins. Hugmyndin er hins vegar að húsið verði sýningarhús, að sögn Jóns. Vilji manna standi til þess að þar verði sýningarhald í bland við samkomuhald einhvers konar.

Jón bætir við að lokum að virkilega ánægjulegt sé fyrir Leikminjasafn að standa fyrir svona sýningu, en fyrir fjórum árum stóð safnið fyrir sýningu í líkingu við þessa á Akureyri. „Það er líka gaman að því að hafa fengið tækifæri til að gera þetta vegna þess að Leikminjasafnið er þjóðarsafn. Við erum því ekkert síður að safna gögnum um áhugamannastarfið í íslenskri leiklistarsögu en starfsemi atvinnuleikhúsfólks. Ef menn til dæmis á litlum stöðum úti á landi eru með einhverja hluti sem þeim finnst ástæða til að varðveita þá þiggjum við þá með þökkum.“