Leiklist á Akureyri


Akureyri um 1890

Sýningar Leikminjasafns Íslands á Akureyri 2008:
Leiklist á Akureyri í Amtsbókasafninu - opnuð 2. febrúar
Sýning um leiklist norðanlands í Laxdalshúsi - opnuð 28. júní

Árið 1859, hinn 26. desember, ritaði Sveinn Skúlason, þá ritstjóri Norðra á Akureyri, í blað sitt:

...en í kaupstöðum þar sem margt fólk er að staðaldri ættu smátt og smátt að komast á sýnishorn af sjónleikjum þeim er tíðkast hjá öðrum siðuðum þjóðum. Það er nú reyndar töluverð viðbára gegn því, að þetta komist á, að þess konar sjónleikir þurfa miklu meiri undirbúning en aðrir leikir, töluverðan tilkostnað, og nokkuð mikill tími gengur til fyrir þeim sem eiga að leika. Auk þess þarf hentugt húsrúm og sjónleikatjöld, sem töluvert kosta. Þó má nú byrja allt þess konar með litlu, og ef inngöngueyrir er tekinn, verður sú raunin optast á, að nógir verða til að sjá, svo leikirnir borga þannig sjálfir tilkostnaðinn.

Í greininni kvartar Sveinn síðan yfir því, að Ísafjörður hafi fylgt fordæmi Reykjavíkur í þessu tilliti og meira að segja hafi frést af leiksýningu í því krummaskuði, Grafarósi, en "höfuðstaður Norðurlands" sé þar eftirbátur.

Þessi frýjunarorð báru þegar ávöxt. Tæpu ári síðar, hinn 18. nóvember 1860, fór fram fyrsta leiksýning á Akureyri. Að henni stóð fyrst og fremst danskur kaupmaður, Bernard Steincke, og leikurinn var eftir Hostrup, Intrigerne. Leikið var á dönsku, og þegar Reykvíkingar léku sama leik 1866, var það einnig á dönsku. Hinn 28. desember er svo þetta ævintýri endurtekið, miðar seldir og til ágóða fyrir fátæka í Eyjafjarðarbæ, og nú er bætt við öðrum dönskum leik, Audiensen, eftir Henrik Hertz. Danirnir munu hafa haft þessi leiksmælki með sér að heiman, en meðal leikenda, auk Steinckes sjálfs, voru tvær dætur Möllers faktors, læknisfrúin og apótekarinn. Brátt barst þessum hópi liðsauki í dönskum verslunarþjóni, Jacobi Chr. Jensen sem var sagður hafa lagt fyrir sig leiknám í Höfn en orðið að snúa sér að öðru vegna meiðsla. Og undir 1870 koma bakarahjónin Schiøth til Akureyrar og Anna Schiøth verður fyrsta eiginlega leikkona bæjarins.

En um svipað leyti gerist það, að sveitungar hér í Eyjafirði hefja einnig leika - og á íslensku, hafa sennilega hlýtt kallinu frá Sigurði Guðmundssyni málara. Þar er í forystu sonur timburmeistarans á Grund, Kristján Briem, sem lætur leika þau fáu íslensku leikrit sem þá voru til og bætir nokkrum við frá eigin hendi. Því miður naut hans skammt við, hann lést 26 ára gamall 1870, en aðrir tóku við merkinu í nærliggjandi sveitum.

Íslenskt og danskt

Í raun má skipta leiklistarsögunni hér á Akureyri í þrjú megintímabil. Í fyrsta lagi er það tímabili sem hófst eins og hér að framan var lýst. Akureyri var mjög dönskuskotinn bær á þessum árum og því verða það aðfluttir Danir, sem þekktu til leikja við Sundið sem sýndu hið lofsverða framtak til að efla bæjarbraginn. Reyndar stóð ekki á svari af Íslendinga hálfu (og meðal þeirra sem störfuðu með Dönunum voru að sjálfsögðu ýmsir Íslendingar). En veturinn 1862 er efnt til fyrstu sýningarinnar á íslensku og fyrir valinu verður ádeiluleikur Sigurðar Péturssonar, Narfi, þar sem hann skopast að þeim landsmönnum sínum sem apa sína hætti eftir Dönum, þar á meðal málfarið. Með þessum leik var svo gamansamur smáleikur, Comedie i det grønne eftir H.C. Andersen.

Næstu ár fylgdu nokkrar sýningar og er að sjá sem dönsku leikirnir og þeir innlendu keppist svolítið um yfirhöndina. Dönsku leikirnir voru reyndar flestir það sem blöðin kölluðu seinna "söngvasmámuni". En íslensku leikirnir voru Hrólfur Sigurðar Péturssonar, Narfi aftur, Oddur snikkari eftir Tómas Jónasson, Bónorðsförin eftir Magnús Grímsson og þáttur sem Sveinbjörn Hallgrímsson hafði snúið úr sögu Jóns Thoroddsens, Pilti og stúlku, og kallaði Búrfellsbiðillinn, hin fyrsta af mörgum leikgerðum úr sögum Jóns.

Á næstu áratugum er svo, ýmist fyrir frumkvæði Akureyringa sjálfra, sveitunga úr Eyjafirði, ellegar nemenda á Möðruvöllum eftir að sá skóli kom til, leikinn mikill fjöldi leikja, innlendra og erlendra og verður smám saman æ minna um að leikið sé á dönsku. Akureyri fékk kaupstaðaréttindi 1862 og eðlilega örvaði það sjálfsvitund bæjarbúa. Á bak við leiksýningarnar standa menningar- eða leikfélög og þau koma og fara, eins og raun er á annars staðar. En meðal merkisatburða má nefna að Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar voru leiknir af Gleðileikjafélaginu með miklum tilburðum þrjú ár í röð, 1876-78. Þá héldu Eyfirðingar héraðshátíð 1890 í tilefni þúsund ára byggðar í Eyjafirði og var af því tilefni frumfluttur sögulegur leikur séra Matthíasar, Helgi magri. Síðar samdi leikskáld Akureyringa, Páll J. Árdal þjóðsagnaleik, Skjaldvöru tröllkonu, en áður hafði annar þjóðsagnaleikur, Sigríður Eyjafjarðarsól, eftir Ara Jónsson, notið mikilla vinsælda víða nyrðra. Jafnframt breyttist verkefnavalið hvað erlendu verkin snerti, dönsku söngvaleikirnir viku m.a. fyrir leikjum Molières og Holbergs og kann það að hafa verið fyrir áhrif úr Lærða skólanum í Reykjavík. Aðstaða til leiksýninga var reyndar með ýmsu móti, fyrst aðallega leikið í skemmum kaupmanna, en einnig í veitingasölum. Hús til leiksýninga varð þó til 1896, en rættist ekki vel úr fyrr en 1906, þegar Samkomuhúsið var reist, það er enn stendur.


Skugga-Sveinn 1916-1917

Leikfélag Akureyrar. Stöðugur leikhúsrekstur

Næsta tímaskeið í sögu leiklistarflutnings á Akureyri má með nokkrum rétti teljast hefjast um aldamótin 1900. Að vísu lætur Einar Hjörleifsson (Kvaran) sem þá dvaldist þar nokkur ár sem ritstjóri þess getið í bréfi til Stefaníu Guðmundsdóttur að leikforystu vanti nyrðra. Hins vegar var á þessum árum að myndast nokkuð öflugur leikhópur, sem réðst í að stofna Leikfélag Akureyrar hið fyrra 1907, í kjölfar þess að húsnæðismálin höfðu batnað svo til muna. Þessi hópur lét þegar að sér kveða upp úr aldamótum og allt fram undir 1917, þegar núverandi Leikfélag Akureyrar var stofnað en hið gamla hafði þá lognast út af. Á því voru augljósar skýringar. Í hópnum voru hæfileikafólk eins og Vilhelm Knudsen, Margrét Valdimarsdóttir, Svava Jónsdóttir og Halldór Gunnlaugsson, auk feðganna Guðlaugs Guðmundssonar og Guðmundar Guðlaugssonar. Guðlaugur, sem verið hafði forystumaður leikja í Gleðileikjafélaginu í Glasgow á námsárum sínum og síðan gerst sýslumaður í Vík í Mýrdal, var nú orðinn bæjarfógeti á Akureyri. Hann gaf sér þó tíma til að segja hinu unga hæfileikafólki til og þegar sonur hans óx úr grasi, varð augljóst að þar var efni í góðan leiðbeinanda. En Guðmundar naut skammt við, lést úr berklum á Vífilsstöðum, 26 ára gamall. Árið áður hafði faðir hans látist. Sjaldan er ein báran sök: ári síðar lést hin fjölhæfa unga prímadonna Akureyringa, Margrét Valdimarsdóttir úr afleiðingum barnsburðar. Illu heilli fluttust öll hin þrjú úr forystusveitinni burt úr bænum á þessum árum; Svava bjó nærfellt áratug á Sauðárkróki, Halldór Gunnlaugsson, sem var læknir, fluttist til Vestmannaeyja. þar sem hann drukknaði löngu síðar, og Vilhelm Knuden fór til Reykjavíkur án þess að verulega samsamast leikhópnum þar. En þegar þessi leikhópur var og hét (í honum voru auðvitað margir fleiri), gaf hann lítið eftir leikhópi Leikfélags Reykjavíkur á þessum árum og gerði Akureyringum fært að ráðast í krefjandi verkefni, líkt og í Reykjavík. Meðal þeirra voru Heimkoman eftir Sudermann, Milli bardaganna eftir Björnsson, Lavender eftir Pinero, Lénharður fógeti og Syndir annarra, allt verk sem gerðu miklar leikrænar kröfur til flytjenda.

En sem kunnugt er kemur ævinlega maður í manns stað, þrátt fyrir allt. Heimsókn Stefaníu Guðmundsdóttur, sem lék sem gestur ýmsa smáleiki 1915 og í Kinnarhvolsystrum 1916, hleypti mönnum kapp í kinn og nokkrum árum síðar heillaði hin aðalleikkona Reykvíkinga, Guðrún Indriðadóttir, bæjarbúa í hlutverki Höllu. En í milllitíðinni hafði það gerst að Leikfélag Akureyrar var komið á laggirnar, meðal annars fyrir atfylgi Hallgríms Valdimarssonar, og hafði sýnt metnað í verkefnavali. Félaginu barst líka snemma liðsauki, þar sem Haraldur Björnsson var, og hann varð hvað atkvæðamestur sem leikari og leiðbeinandi næstu árin, áður en hann hleypti heimdraganum 1925 og hóf formlegt leiknám við skóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Og um 1920 fluttist Svava Jónsdóttir aftur til Akureyrar og saman léku þau Haraldur t.d. í Vér morðingjar eftir Guðmund Kamban. Haraldur lék einnig Lénharð fógeta og leikstýrði Nýársnóttinni og saman léku þau Svava í nokkrum leikjum í viðbót. Svava varð nú aðalleikkona Akureyringa til marga áratuga, fjölhæf, dáð og virt og viðurkennd á landsvísu. Hún túlkaði Steinunni í Galdra-Lofti jafnt sem Gvend smala í Skugga-Sveini eða Abigail í Anbrosíus á móti hinum danska gesti leikfélagsins, Adam Poulsen.


Lénharður fógeti 1923

Það var mikið happ Leikfélagi Akureyrar að 1927 fluttist einn af stólpaleikurum Leikfélags Reykjavikur, Ágúst Kvaran, norður, og hófst þegar handa. Hann lék fyrst sum sín frægustu hlutverk að sunnan en leikstýrði einnig og varð næstu áratugi forystumaður leikstarfseminnar. Verkefnavalið á þessum árum fram undir 1940 var reyndar all reykvískuskotið og undantekning ef flutt voru á sviðinu í Samkomuhúsinu verk sem ekki höfðu verið áður flutt syðra. Dæmi þess voru þó til: Dómar Andrésar Þormar, Hin hvíta skelfing eftir Árna Jónsson (1940), Dúnunginn (Selma Lagerlöf), Skrúðsbóndinn eftir Björgvin Guðmundsson, Hamarinn eftir séra Jakob Jónsson (1948), Kappar og vopn (Shaw), Ævisagan (Behrman), Vakið og syngið (Clifford Odets), Úlfhildur (Páll H. Jónsson), Miklabæjar-Sólveig eftir Böðvar frá Hnífsdal, Swedenhielms-fjölskyldan eftir Hjalmar Bergman og nokkrir erlendir gamanleikir. Er þá komið fram undir þriðja tímabilið í sögu hins akureyska leikhúss.

En á þessum þremur aldarfjórðungum sem hér um ræðir, gerðist mikil saga. Verkefnin voru oft viðamikil, af metnaði valin og iðulega tókst vel til og má auk þess sem þegar hefur verið tíundað minna á Fjalla-Eyvind (Ágúst og síðar Jón Norðfjörð og Ingibjörgu Steinsdóttur í hlutverkum Eyvindar og Höllu), Dansinn í hruna, Á útleið, Nýársnóttina, Gullna hliðið, Brúðuheimilið (í leikstjórn Gerd Grieg og með Öldu Möller sem gest í hlutverki Nóru; leikför til Reykjavíkur), Skálholt Kambans, Uppstigningu Nordals, Mýs og menn eftir Steinbeck, Íslandsklukkuna, Bæinn okkar (Thornton Wilder), að ógleymdum óperettusýningunum á Meyjaskemmunni, Bláu kápunni og Nitouche. Félagið hélt upp á 50 ára afmæli sitt með Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare í leikstjórn Ragnhildar Steingrímsdóttur, en hafi áður leikið Þrettándakvöld (1963) í leikstjórn Ágústs Kvarans. Annars kvað æ meira á þeim árum sem hér segir frá að Jóni Norðfjörð, bæði sem leikara og leikstjóra og árum saman hvíldi á herðum hans meiri listræn ábyrgð en annarra, bæði sem leikstjóra og leiðandi leikara. Hans naut við fram til 1957, þá féll hann snöggt frá á besta aldri. Ástæða er einnig til að nefna hlut Ragnhildar Steingrímsdóttur sem leikara og leikstjóra; hann var eigi lítill. Sömuleiðis var Jónas Jónasson mjög virkur sem leikstjóri um nokkur ár.


Gullna hliðið 1944

Eðlilega kom stór hópur að öllum þessum sýningum. Sumir ílentust og urðu burðarleikarar. Hér verður aðeins hægt að nefna örfáa: Sigurjónu Jakobsdóttur, Halldóru Vigfúsdóttur, Gísla R. Einarsson, Pál Vatnsdal, Pál J. Árdal úr elstu kynslóðinni, síðan Björgu Baldvinsdóttur, Þórhöllu Þorsteinsdóttur, Guðmund Gunnarsson, Jóhann Ögmundsson, Jón Kristinsson, Þóreyju Aðalsteinsdóttur, Guðlaugu Hermannsdóttur, Kristjönu Jónsdóttur... Listinn yfir verðuga yrði langur og þessi upptalning er því hvorki tæmandi né réttlát. Auk þess hafa flestir reykvískir stórleikarar verið gestir Leikfélagsins í einstökum sýningum og félagið tekið á móti heilum sýningum frá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu.

Atvinnuleikhús

Árið 1973 steig Leikfélag Akureyrar skrefið og gerðist atvinnuleikhús. Það gerist ekki yfir nótt, og hefði verið ógerlegt ef ekki hefði verið búið að plægja vel jarðveginn. En það hafði verið gert og félagið var listrænt séð vel mannað. Líkt og gerst hafði í Reykjavík, þegar Leikfélag Reykjavíkur tók endanlega skrefið yfir í atvinnumennskurekstur, var ráðinn kjarni leikara á föstum launum, en síðan var leikhópurinn auðvitað miklu stærri og í þeim hópi ýmsir sem leikið höfðu um árabil með félaginu, án þess t.d. að hafa formlega undirbúningsmenntun; sama gilti reyndar um nokkra hinna fastráðnu.

Þetta reyndist heillaskref. Og þó að leikhúsrekstur sé ævinlega áhættuspil og oft þröngt í búi, hefur Leikfélaginu tekist að sigla fyrir öll sker og oft skila sér með glæsibrag í höfn. Rekstrargrundvöllurinn í dag er þríhyrndur, ríki og Akureyrarbær hafa gert þríhliða samning við félagið um reksturinn, en félaginu sjálfu er ætlað að afla um það bil þriðjungs rekstrarkostnaðarins með sölu aðgöngumiða. Verkefnin eru sem nánast fimm á hverju ári, og oftlega er þá eitt af þeim miðað við áhuga barna. Verkefnin hafa verið af margvíslegum toga og ekki ólík blanda og í stóru leikhúsunum í Reykjavík, Þjóðleikhúsinu og hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Stökkið var tekið í formannstíð Jóns Kristinssonar hjá félaginu og var búið í haginn með því að ráða ungan leikhúsmann, Sigmund Örn Arngrímsson, framkvæmdastjóra félagins árin 1969-71. Í hans tíð var sýnd ákveðin dirfska í verkefnavali; þarna komu Lýsistrata Aristófanesar, Draugasónata Strindbergs, Sandkassinn og fleiri framsækin verk að ógleymdri umdeildri sýningu á Gullna hliði Davíðs Stefánssonar. Ennfremur Það er kominn gestur eftir Örkény, Túskildingsóperan, nýstárlegur Strompleikur í leikstjórn Maríu Kristjánsdóttur, Fjalla-Eyvindur og frumflutningur á Klukkustrengjum Jökuls Jakobssonar. Haustið 1972 var ráðinn hinn fyrsti leikhússtjóri sem það starfsheiti bar, Magnús Jónsson, leikstjóri og leikskáld, og árið eftir varð svo draumurinn að veruleika. Árið 1974 tók Eyvindur Erlendsson við af Magnúsi og síðan hver af öðrum í mislangan tíma, einna lengst Signý Pálsdóttir sem gegndi starfinu í tvígang. Aðrir leikhússtjórar hafa verið Oddur Björnsson, Brynja Benediktsdóttir, Pétur Einarsson, Sigurður Hróarsson, Trausti Ólafsson og Þorsteinn Bachmann. Allir höfðu þessir leikhústjórar til síns ágætis nokkuð og gátu hrósað mörgum sigri, þó að oft gæfi á bátinn. Enginn þeirra hefur þó getað státað af annarri eins aðsókn í leikhúsið og núverandi leikhússtjóri, Magnús Geir Þórðarson.


Stjórn Leikfélags Akureyrar 1973

Fjölmargar minnisverðar sýningar frá þessu 35 ára tímabili væri vert að nefna, en hér verður aðeins fárra getið. Má þá nefna Glerdýrin í leikstjórn Gísla Halldórssonar, Kristnihald undir Jökli, leikgerð Sveins Einarssonar þar sem Gísli lék gestaleik sem séra Jón Prímus, Þess vegna skiljum við, Stalín er ekki hér, Sjálfstætt fólk, Punttila og Matti, Beðið eftir Godot, Jómfrú Ragnheiði (leikgerð Bríetar Héðinsdóttur), Þrjár systur, Atómstöðina, Eftirlitsmanninn, Bréfberann frá Arles, My fair lady, Ég er gull og gersemi (Sveinn Einarsson/Davíð Stefánsson), Edith Piaf, Fiðlarann á þakinu, Hver er hræddur við Virginiu Woolf, Hús Bernörðu Alba, Skjaldbakan kemst þangað líka eftir Árna Ibsen, Fátækt fólk ( úr sögum Tryggva Emilssonar), Kysstu mig Kata, Íslandsklukkuna ... Í allnokkrum tilvikum var um að ræða frumflutning á nýju íslensku leikriti.

Aðsókn var eðlilega misjöfn, en fyrir kom að sýningar náðu 40-50 sýningum, einkum ef farið var í leikför um landið (Kristnihaldið, Þið munið hann Jörund, Edith Piaf og nokkur barnaleikrit. Annars eru aðsóknarmestu sýningar hjá Leikfélagi Akureyrar, eftir því sem næst verður komist Fullkomið brúðkaup, Litla hryllingsbúðin, Bar par, My Fair Lady, Söngvaseiður, Ættarmótið og barnaleikritin Halló Einar Áskell og Ferðin til Panama. Þá kom og fyrir að boðið var til Færeyja og sýnt þar (Ég er gull og gersemi). Sýningu Odds Björnssonar á Beðið eftir Godot, sem fengið hafði dræma aðsókn nyrðra, var boðið suður á Listahátíð og loks verðlaunuð. Og á síðustu áratugum hefur það einnig færst í vöxt, að sýningar L.A. veki athygli á landsvísu, verið tilnefndar til leiklistarverðlauna DV eða Grímunnar (Afturgöngur, Pétur Gautur) eða beinlínis hreppt verðlaunin eins og þegar L.A. réðst í að sýna Hamlet Shakespeares haustið 2002 í leikstjórn Sveins Einarssonar.

Engir fastráðnir leikstjórar eða leikmyndahönnuðir hafa starfað við leikhúsið á þessu atvinnumennskutímabili, heldur hafa þeir verið ráðnir í einstök verkefni. Sama máli gegnir um þorra leikenda, en þó hefur alltaf verið ákveðinn kjarni sem gerði það að verkum að hægt var að miða verkefnavalið við þá leikendur. Meðal þeirra sem mest hefur að kveðið undanfarna fjóra áratugi eru Þráinn Karlsson, Sigurveig Jónsdóttir, Marínó Þorsteinsson, Theodór Júlíusson, Gestur E. Jónasson, Aðalsteinn Bergdal, Saga Jónsdóttir, Sunna Borg og nú á allra síðustu árum Guðjón Davíð Karlsson. Meðal gestaleikara í einstökum verkefnum hafa verið Akureyringurinn Arnar Jónsson og Hríseyingurinn Árni Tryggvason. Og flestir helstu leikmyndahönnuðir landins hafa starfað með Leikfélagi Akureyrar að einu eða fleiri verkefnum, sumir mörgum, eins og Jón Þórisson.

Önnur leikstarfsemi á Akureyri

Ýmsir höfðu óttast að tilkoma atvinnuleikhúss á Akureyri myndi kæfa allan annan leiklistargróður þar. Sú varð ekki raunin. Í stað þess efldist í raun starf áhugamanna, ekki bara á Akureyri, heldur og í nærliggjandi sveitum.

Það er kunnugt að þegar Möðruvallaskóli var stofnsettur um 1880 var þegar hafist handa um leikstarf í skólanum að fyrirmynd Lærða skólans í Reykjavík. Vitað er að bæði kennararar og nemendur frumsömdu leikrit sem þar voru flutt; auk þess lét skólastjórinn, Jón Hjaltalín, sem dvalist hafði langdvölum í Bretlandi, sviðsetja bresk réttarhöld, sem óneitanlega höfðu yfir sér leikrænt yfirbragð.

Eftir að skólinn fluttist til Akureyrar og varð menntaskóli kom upp sú hefð (1936-37) að halda sem næst árlega skólasýningar á ýmiss konar verkefnum, líkt og í Reykjavík. Helstu kraftar Leikfélags Akureyrar aðstoðuðu oft nemendur við sviðsetningar á þeim sýningum.

Eftir að að L.A. varð atvinnuleikhús færðist þetta í aukana fremur en hitt. Menntaskólinn hélt sínu striki og Verkmenntaskólinn fylgdi í fótsporin (frá 1988). Þá var og er starfandi áhugafélag ungmenna, leikklúbburinn Saga, sem tekið hefur þátt í samstarfi norrænna ungmenna á þessu sviði með góðum árangri. Fyrr á árum hafði UMFA staðið fyrir leiksýningum á Akureyri (1912-24) og sömuleiðis hefur Starfsmannafélag SÍS staðið fyrir sýningum öðru hverju (frá 1941).

Og leikfélögin í Eyjafirði hafa einnig notið góðs af fagkunnáttu Leikfélagsfólks. Þannig hefur til dæmis leikstarfsemin í Öngulstaðahreppi blómgast og sýningar þaðan oftar en einu sinni verið valdar áhugasýningar ársins, eftir að sá siður komst á að velja eina slíka árlega og bjóða til að sýna í Þjóðleikhúsinu.

Utan Leikfélagsins hefur auk þess um margra áratuga skeið verið talsvert um leikstarfsemi, bæði hafa ýmis félög verið þar að verki og eins karlakórarnir, stundum í samvinnu við L.A. Þá hafa og orðið til vinsælar revíur og kabarettar, þar sem ekki er aðeins tekið á landsmálunum heldur og bæjarmálum og bæjarbrag á Akureyri.

Aðeins einu sinni hefur það þó gerst, að risið hefur upp atvinnuleikhópur utan Leikfélagsins. Það var Alþýðuleikhúsið, norðandeild, sem lét myndarlega að sér kveða í tvö ár, áður en öll starfsemi Alþýðuleikhússins fluttist suður til Reykjavíkur. Þar voru í forystu Arnar Jónsson og Þórhildur Þorleifsdóttir og sterkur hópur með þeim.

Þegar Sveinn Skúlason skar upp herör í Norðra 1859 hafði hann erindi sem erfiði. Akureyri hefur alla tíð verið mikill leikhúsbær. Og blómlegt leikhúslíf segir mikið til um menningarástand eins bæjar almennt.Um nokkra leikara og framámenn í norðlenskri leiklist

Bernhard August Steincke verslunarstjóri (1825-1891) var mikill áhugamaður um leiklist og kenndi meðal annars dans. Hann var fyrsti forgöngumaður um leiksýningar á Akureyri. Hans naut þó ekki við hér til langframa því að árið 1874 fluttist hann aftur til Danmerkur. Jacob Chr. Jensen ( 1838-1878) verslunarmaður kom til Akureyrar haustið 1861 og lagði leiklistinni strax lið, enda hafði hann að sögn lært til þess í Danmörku og sagði öðrum leikendum til. Hann var ein aðaldriffjöðrin í leikstarfseminni á meðan enn var leikið á dönsku í höfuðstað Norðurlands.

Anna Schiøth (1846-1921) verður að teljast fyrsta leikkona Akureyringa, en hún var dönsk, eiginkona Henriks Schiøth bakara, og sjálf síðar lærður ljósmyndari. Meðal hlutverka sem hún lék var Nilla í Jeppa á Fjalli á móti Jacobi Chr. Jensen í titilhlutverkinu.

Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (1835-1920) bjó á Akureyri frá 1886 til dauðadags. Hann var einng afkastamikið leikskáld og vinsælasta leikrit hans, Útilegumennirnir sem síðar var kallað Skugga-Sveinn (1862), hefur margoft verið sýnt á Akureyri við stöðugar vinsældir. Hann samdi eitt leikrit sérstaklega Akureyri og Eyfirðingum til heiðurs, en það var söguleikurinn Helgi magri, sem flutttur var á Akureyri 1890 til að minnast 1000 ára byggðar við fjörðinn. Norðlendingar eignuðust nokkur leikskáld á síðari hluta nítjándu aldar. Þeirra á meðal voru bændurnir Ari Jónsson (1833-1907), höfundur Odds snikkara (1862) og einkum Sigríðar Eyjafjarðarsólar ( pr. 1879) og Tómas Jónasson (1835-1883), höfundur t.d. Vinanna eða Úthýsingarinnar (1876) og Yfirdómarans (sérprent án árt.)) Þá ber að geta Kristjáns Briem á Grund (1844-1870) sem samdi mörg leikrit og stóð fyrir leiksýningum á Grund í Eyjafirði upp úr 1860, sem og Kristjáns Fjallaskálds (1842-1869), sem samdi leikrit (Misskilningurinn) þegar hann var í Lærða skólanum og Gunnlaugs Einars Gunnlaugssonar (1849-1904) sem samdi leiki eftir að hann kom úr skóla, þeirra á meðal Maurapúkann sem talsvert var leikinn um allt land. Leikrit voru einnig samin í Möðruvallaskóla og hafði m.a. Norðlendingurinn Stefán Stefánsson, sem varð annar skólastjóri þar, á skólaárum sínum í Lærða skólanum samið ásamt Valtý Guðmundssyni leikrit, Prófastsdótturina, sem þótti bera raunsæiskeim. En fyrsta eiginlega leikskáld Akureyringa var Páll J. Árdal (1857-1930), höfundur leikja eins og Happsins og Skjaldvarar tröllkonu og á annan tug vinsælla annarra verka. Hann lék einnig á sviði m.a. Helga magra í samnefndu leikriti séra Matthíasar.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964) var eitt virtasta og vinsælasta skáld Íslendinga um sína daga. En hann var einnig höfundar nokkurra leikrita og þeirra þekktast auðvitað Gullna hliðið (1941), það leikrit sem með árunum hefur keppt við Skugga-Svein sem þjóðarleikrit Íslendinga. Fyrsti sjónleikur Davíðs nefndist Munkarnir á Möðruvöllum (pr. 1925, frumsýnt 1926) og gerðist á því fræga höfuðbóli hér í Hörgárdalnum. Önnur leikrit Davíðs eru Vopn guðanna (frumsýnt 1943) og Landið gleymda (frumsýnt 1953). Hallgrímur Valdimarsson (1875-1961) var einn helsti forystumaður í leikstarfsemi nyrðra um margra ára skeið. Hann lék ekki sjálfur en var til dæmis í fyrstu stjórn Leikfélags Akureyrar (1917), sat í stjórn þess öðrum lengur, oft sem formaður og var gerður að heiðursfélaga. Hann var bróðir Margrétar Valdimarsdóttur.

Margrét Valdimarsdóttir (1880-1915) var skærasta vonarstjarna norðlenskrar leiklistar upp úr aldamótunum og þótti hafa flest til að bera sem prýða má góða leikkonu. Hún kom fram fyrst 10 ára gömul í Helga magra. Eftir fárra ára dvöl á Ísafirði kom hún aftur til Akureyrar aldamótaárið og næstu 15 árin bar hún uppi hvert stórhlutverkið á fætur öðru. Síðasta hlutverk hennar var Guðný í Lénharði fógeta og til stóð næst að leika Höllu í Fjalla-Eyvindi. En þá lést hún óvænt eftir barnsburð og varð íslenskri leiklist mikill harmdauði. Svava Jónsdóttir (1884-1969) steig fyrst á svið 16 ára gömul og yfirgaf það ekki fyrr en á sjötta áratugnum. Hún vakti þegar athygli upp úr aldamótunum, en fluttist til Sauðárkróks 1914 og var þar í forystuliði um leikstarfsemi í nokkur ár. Hún fluttist aftur til Akureyrar 1921 og varð nú fremsta leikkona Akureyringa næstu áratugina og landsfræg listakona. Fjölhæfni hennar var viðbrugðið, sem og listrænni einlægni, en hlutverkin munu hafa orðið um 80. Hún var heiðruð sérstaklega bæði á 25 og 50 ára leikafmæli sínu, var heiðursfélagi Leikfélags Akureyrar og veitt Fálkaorðan í viðurkenningarskyni fyrir list sína. Ágúst Kvaran (1894-1983) var orðinn kunnur listamaður í Reykjavík og einn helsti leikari Leikfélags Reykjavíkur, þegar hann fluttist hingað norður til Akureyrar haustið 1927 og setti hér á stofn heildverslun. En jafnframt gerðist hann forystumaður í leikhúslífi bæjarins, bæði sem leikari og leikstjóri. Hann stýrði um 20 leiksýningum í Samkomuhúsinu, jafnt harmleikjum, skopleikjum sem óperettum og lék mikinn fjölda hlutverka af öllum toga, en einkum rómaður fyrir skapgerðarhlutverk.

Jón Norðfjörð (1904-1957) var einn atkvæðamesti leikhúsmaður Akureyringa á tuttugustu öldinni. Hann kom fyrst fram á sviði 13 ára gamall og þegar hann lést var hann að reka smiðshöggið á æfingar á Gullna hliðinu. Sviðsetningar hans munu hafa orðið rúmlega fimmtíu og leikhlutverk hans rúmlega áttatíu, stór og smá, gamansöm eða alvarleg, enda þótti hann geta brugðið sér í allra kvikinda líki. Hann stóð einnig fyrir tilsögn í leik, enda fór hann utan 1936-37 til að nema og læra. Ofan á allt þetta bættust störf sem bæjargjaldkeri Akureyrar.

Samkomuhúsið

Samkomuhúsið á Akureyri reis af grunni árið 1906. Það voru góðtemplarar sem stóðu að byggingu þess, en yfirsmiðir voru þeir Björn Björnsson, Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson. Þetta er tveggja hæða timburhús með lágu risi á háum steinkjallara. Byggingarstíllinn er nýklassískur og er húsið ríkulega skreytt með timburskurði, auk þess sem lítill turn á miðri forhliðinni setur svip á það. Húsið stendur hátt utan í Brekkunni svonefndu og blasir við langt að, eitt virðulegasta leikhússtæði á Íslandi.

Húsið var líkt og Iðnó byggt sem fjölnota samkomhús. Það kostaði fullsmíðað með húsgögnum 28.500 kr. og áttu stúkurnar þá 11.000 kr. upp í það. Bæjarstjórn Akureyrar ábyrgðist lán upp á 7000 kr. og tók jafnframt á leigu neðstu hæðina fyrir bæjarstjórnarfundi, lestrarsal og bóksafn. Árið 1916 keypti bæjarstjórn svo húsið og hefur það verið í eigu bæjarins síðan. Stór og rúmgóður áhorfendasalur er í húsinu. Sviðið er að mestu innan ramma, svo sem algengast var á þessum tíma, t.d. í Iðnó og Góðtemplarahúsunum, en það er þó ekki hreint "kassasvið" því að fremsti hluti þess gengur fram í salinn út fyrir rammann til beggja hliða og myndar þannig lítið forsvið. Er þessi tilhögun augljóslega betur fallin til að skapa nánd á milli sviðs og salar en ef allt sviðið er innan rammans. Þá voru lengi í salnum áhorfendasvalir á þrjá vegu og munu hafa verið frá upphafi.

Fyrsta frumsýning í húsinu var á Ævintýri á gönguför og fór hún fram 20. janúar 1907. Skömmu síðar var Leikfélag Akureyrar (eldra) stofnað, en það lognaðist út af eftir fáein ár. Það Leikfélag Akureyrar, sem enn starfar og hefur starfað í húsinu allt til þessa dags, var stofnað árið 1917.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsinu í tímans rás. Um 1920 var byggð viðbót á einni hæð norðan við það, anddyri og stigi og árið 1945 var skúrbygging reist vestan við það fyrir búningsherbergi og fleira. Um 1950 tóku templarar húsið á leigu og ráku þar um tíma kvikmyndahús. Þá var sett hallandi gólf í salinn, hliðarsvalirnar rifnar og skrautlegt tréverk ýmist fjarlægt eða hulið sléttum plötum. Á árunum 1996- 97 voru aftur gerðar breytingar, sviðið m.a. lækkað og skipt um stóla í salnum. Við það fækkaði sætum úr 240 í 190, fjármálastjórn L.A. til lítillar gleði. Þá voru settar upp eftirlíkingar af gömlu hliðarsvölunum, nema hvað þar er nú ekkert rými fyrir áhorfendasæti. Á meðan á þessu stóð var húsinu lokað og sýndi L.A. þann tíma aðallega á Renniverkstæðinu svonefnda á Oddeyri. Þar var leikið á sléttu gólfi frammi fyrir upphækkuðum áhorfendasætum. Á árunum 2003-04 voru enn gerðar breytingar á húsinu. Sviðið var aftur hækkað og steinsteypt viðbygging á tveimur hæðum reist vestan við húsið upp að Brekkunni. Hún leysti af hólmi skúrinn frá 1945 sem þá var orðin býsna hrörlegur. Í nýju viðbyggingunni eru búningsklefar leikenda og snyrtiaðstaða. Jafnframt voru gerðir steinsteyptir stallar upp í Brekkuna til að taka af sig, sem hafði skapað veruleg vandamál. Í salnum eru nú sæti fyrir 210 manns, 154 í sal og 56 á svölum.


Fyrstu fastráðnu leikarar LA. Ljósmynd: Páll A Pálsson

Frumsýningar íslenskra verka hjá LA (sem atvinnuleikhús)

Lífið-notkunarreglur eftir Þorvald Þorsteinsson. Frumsýnt í mars 2007
Draumalandið eftir Ingibjörgu Hjartardóttur. Frumsýnt 2004
Sniglaveislan. Höfundur: Ólafur Jóhann Ólafsson Leikár: 2000/01
Ball í Gúttó. Höfundur: Maja Árdal Leikár: 2000/01
Baneitrað samband á Njálsgötunni. Höfundur: Auður Haralds Leikár: 1999/00
Blessuð jólin. Höfundur: Arnmundur Backman Leikár: 1999/00
Systur í syndinni. Höfundur: Iðunn og Kristín Steinsdætur Leikár: 1998/99
Vefarinn mikli frá Kasmír. Leikgerð: Halldór E. Laxness; Trausti Ólafsson Leikár: 1996/97
Nanna systir. Höfundur: Einar Kárason; Kjartan Ragnarsson Leikár: 1995/96
Á svörtum fjöðrum. Höfundur: Davið Stefánsson/Leikgerð:Erlingur Sigurðarson Leikár: 1994/95
Góðverkin kalla. Höfundur: Ármann Guðmundsson; Sævar Sigurgeirsson; Þorgeir Tryggvason Leikár: 1993/94
Benni, Gúddi og Manni. Höfundur: Jóhann Ævar Jakobsson Leikár: 1990/91
Tjútt & Tregi. Höfundur: Valgeir Skagfjörð Leikár: 1991/92
Ættarmótið. Höfundur: Böðvar Guðmundsson Leikár: 1990/91
Heill sé þér þorskur. Höfundur: Ýmsir /Leikgerð: Guðrún Ásmundsdóttir Leikár: 1989/90
Fátækt fólk. Höfundur: Tryggvi Emilsson/Böðvar Guðmundsson Leikár: 1989/90
Afmælisveisla handa Eyrarrós. Höfundur: Óttar Einarsson; Eyvindur Erlendsson Leikár: 1987/88
Ég er gull og gersemi. Höfundur: Davíð Stefánsson/Sveinn Einarsson Leikár: 1984/85
Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson Leikár: 1984/85
Fyrsta Öngstræti til hægri. Höfundur: Örn Bjarnason Leikár: 1979/80
Matthías Jochumsson, líf og saga. Höfundur: Matthías Jochumsson/Tekið saman af Böðvari Guðmundssyni Leikár: 1974/75
Gullskipið. Höfundur: Hilmar Jóhannesson Leikár: 1974/75
Jónas í hvalnum. Höfundur: Vésteinn Lúðvíksson Leikár: 1973/74
Klukkustrengir. Höfundur: Jökull Jakobsson Leikár: 1972/73
Brönugrasið rauða. Höfundur: Jón Dan Leikár: 1969/7

Um sýninguna

Leiklist á Akureyri og norðanlands

Sýningarspjöld

Leiklist á Akureyri - Sýningarspjöld (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)

Sýningarskrá

Leiklist á Akureyri - Sýningarskrá (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)

Veggspjald

Leiklist á Akureyri - Veggspjald (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)