Laxness og leiklistin

Íslandsklukkan

Þjóðleikhús 1950: Vatnslitamynd af sviðinu í brunaatriðinu í Eldi í Kaupinhafn. Höf.: Lárus Ingólfsson. Lárus Ingólfsson var helsti leikmyndahöfundur þjóðarinnar á síðustu öld. Hann nam leikmyndagerð í Kaupmannahöfn, gerðist leiktjaldamálari - eins og starfið nefndist oftast á þeim tíma - hjá L.R. eftir heimkomuna og starfaði með félaginu til 1950, þegar hann réðist til Þjóðleikhússins. Þar var hann aðalleiktjaldamálarinn næsta áratug. Lárus var eðlilega mótaður af námi sínu í Kaupmannahöfn. List hans var raunsæisleg í grundvallaratriðum, en bar engu að síður ákveðin bernsk einkenni, e.t.v. að hluta sprottin úr lundarfari listamannsins, að hluta úr kynnum hans af erlendum straumum í leikmyndlist. Þó að Lárus starfaði við leikmyndagerð í um fjörutíu ár, þá er því miður lítið til frá hans hendi af sviðsteikningum og leiksviðslíkönum. Myndin hér að ofan verður því að teljast meðal dýrgripa íslenskrar leikminjasögu.

Þjóðleikhús 1950: Svipa Snæfríðar. Svipuna notaði Herdís Þorvaldsdóttir í frumuppfærslunni 1950 og hátíðaruppfærslunni 1956. Hún var gjöf til leikkonunnar frá Haraldi Björnssyni, leikara og leikstjóra, af þessu tilefni. Einkaeign: Snædís Gunnlaugsdóttir.

Þjóðleikhús 1950, 1956, 1968 og 1985: Kjóll frú Arnæusar. Búningurinn var hannaður af Lárusi Ingólfssyni og saumaður af Nönnu Åberg, sem lengi var forstöðukona á búningaverkstæði Þjóðleikhússins.Þjóðleikhús 1968: Búningur Snæfríðar. Kjóllinn er hannaður af Gunnari R. Bjarnasyni. Rauða svuntan, sem fylgir honum, er þó að áliti Herdísar Þorvaldsdóttur ættuð af gamla búningnum.

Akureyri 1993: Höggstokkur, drykkjarkanna og exi. Exin er hönnuð og smíðuð af Þráni Karlssyni leikara og fjöllistarmanni

Akureyri 1993: Búningateikningar eftir Sigurjón Jóhannsson.