Laxness og leiklistin

Um sýninguna

Sýningin Laxness og leiklistin var opnuð í Iðnó 13. apríl 2002

Textagerð og sýningarskrá: Jón Viðar Jónsson, Björn G. Björnsson
Hönnun sýningarspjalda: Ólafur J. Engilbertsson
Hönnun sýningar: Jón Þórisson

Dagbók 13.4 - 1.5 2002

Á sýningunni Laxness og leiklistin í Iðnó voru leikminjar og leiklistarsögulegt efni í tilefni aldarafmælis Halldórs Laxness. Rifjuð voru upp kynni Halldórs af íslensku leikhúsi allt frá því að hann sá leiksýningu í Iðnó í fyrsta sinn sem barn og þar til hann var sjálfur orðinn virkur þátttakandi í leikhúsinu sem skeleggur gagnrýnandi, þjóðleikhúsráðsmaður og framsækið leikskáld.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, opnar sýninguna

Á sýningunni voru m.a. handrit, teikningar, leikmyndalíkön, leikmunir, búningar,ljósmyndir, myndband með frásögnum leikhúsfólks af samstarfinu við Laxness o.fl. forvitnilegt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, opnaði sýninguna þann 13. apríl en hún stóð til 1. maí 2002.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og fyrrverandi leikhússtjóri í Iðnó, ásamt leikhúsfólki við opnun sýningarinnar

Dagskrá í tengslum við sýninguna Laxness og leiklistin

Miðvikudagur 13. apríl
Opnunarathöfn. Athöfnin hófst á því að Ólafur J. Engilbertsson, formaður Samtaka um leikminjasafn, ávarpaði samkomuna. Sigrún Hjálmtýsdóttir söng þrjú lög við ljóð eftir Halldór Laxness við undirleik Jónasar Þóris Þórissonar. Dr. Jón Viðar Jónsson rifjaði upp feril Halldórs Laxness sem leiklistargagnrýnanda og Stefán Jónsson leikari las nokkra kafla úr dómum hans. Þá opnaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sýninguna á 2. hæð formlega með ávarpi. Að því loknu skoðuðu gestir sýninguna, þá var gengið til kaffidrykkju og hnallþóruveislu. Síðasta atriði dagskrárinnar var sýning á myndbandi þar sem ýmsir leikhúsmenn rifjuðu upp kynni sín af Halldóri Laxness og samskiptum hans við þá innan veggja leikhússins. Jón Viðar Jónsson, sem hafði annast gerð myndbandsins, kynnti það og ræddi jafnframt áform um stofnun leikminjasafns. Athöfnin var mjög fjölsótt, svo sem sjá má á myndum, og munu talsvert á annað hundrað manns hafa verið þarna.

Miðvikudagur 17. apríl
Innansveitarkronika. Leiklestur í umsjón Guðrúnar Ásmundsdóttur og Jóns Viðars Jónssonar. Lesari með þeim Jón Júlíusson leikari.

Laugardagur 20. apríl
Söng- og upplestrardagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur í samvinnu við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Sönghópur undir stjórn Jónasar Þóris Þórissonar, einsöngvarar Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Anna Sigríður Helgadóttir, karlakórinn Stefnir undir stjórn Atla Guðlaugssonar. Stuttir kaflar úr Sölku Völku, Sjálfstæðu fólki, Heimsljósi og Innansveitarkroniku fluttir af Guðrúnu Þ. Stephensen, Arnari Jónssyni, Hjalta Rögnvaldssyni og Jóni Viðari Jónssyni. Umsjón með athöfninni og kynning: Jón Viðar Jónsson.

Leiklestur á Dúfnaveislunni

Þriðjudagur 23. apríl
Aldarafmæli Halldórs Laxness. Maraþonleiklestur á öllum frumsömdum leikritum skáldsins, Straumrofi, Silfurtúnglinu, Strompleiknum, Prjónastofunni Sólinni og Dúfnaveislunni. Um sextíu leikarar tóku þátt í þessum viðburði sem tókst afar vel og var mjög vel sóttur. Lesturinn hófst kl. 12.00 á hádegi og var þá þegar nánast fullt hús. Síðan voru leikritin lesin hvert af öðru með stuttum hléum og lauk lestrinum ekki fyrr en komið var vel fram yfir miðnætti. Helstu flytjendur voru Tinna Gunnlaugsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson (Straumrof), Þórunn Clausen, Gísli Rúnar Jónsson (Silfurtúnglið), Guðrún Þ. Stephensen, Sigrún Sól Ólafsdóttir, Karl Guðmundsson, Björn Hlynur Haraldsson (Strompleikurinn), Kristbjörg Kjeld, Þorsteinn Gunnarsson, Guðmundur Ólafsson, Hjalti Rögnvaldsson, Jón Hjartarson (Prjónastofan Sólin), Árni Tryggvason, Herdís Þorvaldsdóttir og Arnar Jónsson (Dúfnaveislan). Rúnar Guðbrandsson hafði umsjón með leiklestrinum.

Sunnudagur 28. apríl
Söngdagskrá á vegum Kammerkórs Kópavogs undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar.

Miðvikudagur 1. maí
1. maí. Lokaathöfn. Einsöngur: Ingibjörg Guðjónsdóttir við undirleik Valgerðar Andrésdóttur. Leiklestur: Tinna Gunnlaugsdóttir (frumsaminn einleikur byggður á Atómstöðinni o.fl. verkum Laxness), Þorsteinn Gunnarsson, Valgerður Dan og Jón Júlíusson (Dúfnaveislan). Ávarp: Ólafur J. Engilbertsson formaður Samtaka um Leikminjasafn. Björn Bjarnason alþingismaður opnar nýja síðu á vef samtakanna, helgaða aldarafmæli Laxness. Umsjón með athöfninni: Jón Viðar Jónsson.

Iðnó veitingahús bauð uppá Hnallþóruhlaðborð og "Dúfnaveislu" (ljúffengar franskar skógardúfur) í tilefni sýningarinnar.

Styrktaraðilar sýningarinnar voru: Menntamálaráðuneyti, Menningarborgarsjóður, Reykjavíkurborg, Edda - miðlun og útgáfa, Seðlabanki Íslands, Grandi, Orkuveita Reykjavíkur og Ístak. Samstarfsaðilar í Iðnó voru Leikfélag Íslands og Iðnó veitingahús.

Sögusýning

Laxness og leiklistin - Sögusýning

Leikverk

Laxness og leiklistin - Leikverk

Leikminjar

Um leikminjar úr nokkrum sýningum á verkum Halldórs Laxness