Lárus Ingólfsson

Píputau, pjötlugangur og diggadaríum

Lárus Ingólfsson

Lárus Ingólfsson 1905 22. 6. 2005

Lárus Ingólfsson fæddist í Reykjavík 22. júní 1905. Hann var óvenju fjölhæfur listamaður: einn vinsælasti revíuleikari og gamanvísnasöngvari þjóðarinnar um árabil og helsti leikmynda- og búningateiknari sinnar tíðar. Lárus er í raun og veru fyrsti Íslendingurinn sem á sér fullan starfsferil við leikmynda- og búningagerð. Hann lést í Reykjavík 22. september 1981.

Fjölskylda og einkahagir

Foreldrar Lárusar voru Ingólfur Lárusson (1874-1963), skipstjóri, og kona hans, Vigdís Árnadóttir (1880-1976). Þau hjón eignuðust fimm börn og var Lárus næstelstur. Hin voru Árni, skipstjóri, Örn, fulltrúi og systurnar Rósa og Gyða, húsmæður í Reykjavík. Fjölskyldan bjó lengst af á Bergstaðastræti 68 og þar bjó Lárus til dauðadags, í lítilli íbúð í kjallaranum, ókvæntur og barnlaus. Í íbúð sinni skapaði hann ævintýraheim sem gleymist ekki þeim sem þangað komu. Lárus hafði afar næmt listrænt auga, dró á ferðum sínum erlendis að sér marga sérkennilega og fagra gripi, og innganginn niður í kjallarann skreytti hann sérstæðu flúri sem enn ber vitni um litagleði húsráðandans.

Fjölskylda Lárusar Ingólfssonar

Lárus og systkini ásamt móður sinni, um 1975. Neðri röð frá vinstri: Gyða
Ingólfsdóttir, Vigdís Árnadóttir, Rósa Ingólfsdóttir. Efri röð frá vinstri: Lárus,
Árni og Örn Ingólfssynir

Klausturdvöl og helgimyndagerð

Fyrstu tilsögn í myndlist hlaut Lárus Ingólfsson hjá þeim Guðmundi Thorsteinssyni, Muggi, og Ríkharði Jónssyni á árunum 1923-25. Hann snerist ungur til kaþólskrar trúar og fór tvítugur að aldri ásamt Martin Meulenberg, biskupi kaþólskra á Íslandi, í eins konar pílagrímsför til Rómar. Mun hann á þeim tíma hafa haft mestan áhuga á trúarlegri myndlist og kirkjuskreytingum. Lárus kom heim haustið 1925, en fór um veturinn aftur utan og var í klaustrinu St. Maurice de Clermont í Luxemborg í nokkra mánuði, sama klaustri og Halldór Laxness hafði dvalist í nokkrum árum fyrr, og íhugaði að gerast munkur. Þar fékkst Lárus við helgimyndagerð undir handleiðslu munka í Benedikts-reglunni. Í viðtali við Lárus sem birtist í tímaritinu Leikhúsmálum árið 1963 kemur fram að í klaustrinu kynntist hann rússneskum manni, Novikov að nafni, sem hafði verið listdansari í Moskvu. Lárus segir Novikov hafa vakið áhuga sinn á leikhúsi með því að hann hafi sagt að það væri mikið "teater" í þeim myndum sem Lárus var að fást við í klaustrinu.

Þó að leikhúsið yrði aðalstarfsvettvangur hans hafði hann ávallt miklar taugar til helgimyndalistar og eru til frá hans hendi nokkur sérstæð verk þeirrar tegundar. Voru það ekki síst íkonar grísk-kaþólsku kirkjunnar sem heilluðu hann og kom hann sér með tímanum upp afar vönduðu safni íkona, næsta einstæðu hér á landi.

Námsár í Kaupmannahöfn

Lárus bjó að mestu í Kaupmannahöfn frá 1927 til 1933 við nám í leiktjaldamálun, búningateiknun, leiklist og dansi og lagði þar grunn að þeirri fjölhæfni og fagmennsku sem síðar einkenndi öll störf hans fyrir íslenskt leikhús.

Lárus "hellti sér í allt heila píputauið" (eins og hann segir sjálfur í viðtalinu í Leikhúsmálum) haustið 1927 og hóf nám í leiktjaldamálun, búningateiknun og stílfræði hjá Folmer Bonin í "Bonins Akademi". Þaðan útskrifuðust á þeim tíma allir helstu leiktjalda- og búningateiknarar Dana og ýmissa annarra þjóða. Einnig útvegaði þessi stofnun störf við leikhúsin. Jafnframt gerði hann tískuteikningar fyrir vöruhús. Hann var ráðinn fastur starfsmaður við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1929 og starfaði þar til 1932. Þar vann hann að leiksviðs- og búningateikningum og útbjó leikmuni fyrir uppfærslur á Tannhauser, Johnny Spielt Auf, Den trekantede hat og fleiri sýningar. Árið 1932 birtust í fyrsta sinn á leiksýningu bæði leiktjöld og búningar eftir Lárus. Var það í uppfærslu Konunglega leikhússins á Galdra-Lofti (Önsket) eftir Jóhann Sigurjónssonar árið 1932. Lárus hlaut mikið lof fyrir og var Anna Borg þar í hlutverki Steinunnar. Einnig vann Lárus að sýningu á Fjalla-Eyvindi á 50 ára afmæli Dagmar-leikhússins. Aðalhlutverkin, Kára og Höllu, léku Poul Reumert og Bodil Ibsen og Lárus "möndlaði" búningana og hjálpaði til við "dekorationirnar" (samkvæmt skilgreiningum hans sjálfs í viðtali í Morgunblaðinu 1965), en við gerð leiktjaldanna var stuðst við málverk eftir Kjarval sem var í eigu Reumert-hjónanna. Lárus vann einnig við ýmis leikhús í Danmörku.

Breytingar á leiktjaldastíl urðu miklar þegar Lárus var við nám og störf í Kaupmannahöfn. Þá tóku Þjóðverjinn Erwin Piscator og Bretinn Edward Gordon Craig að "skafa raunsæismótið af leiktjöldunum", eins og Lárus kallaði það í viðtali í Tímanum. Margra augu beindust til Berlínar þar sem tilraunaleikhús fengust við kúbisma og jafnvel súrrealisma. Efniviður og litaval breyttust og leikhúsið fór að feta þá braut sem málaralistin hafði þegar rutt. Þetta fannst Lárusi og samnemendum hans mikil bylting. Lárus var kallaður heim sumarið 1930 til að aðstoða við Alþingishátíðarsýninguna á Þingvöllum, en Haraldur Björnsson setti hana upp. Lárus var þó ekki alkominn til landsins fyrr en 1933 er hann hóf störf við leiktjaldagerð hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en þá hafði kreppa skollið á í Danmörku sem annars staðar í álfunni og yngri starfskröftum leikhúsanna, þar á meðal Lárusi, var sagt upp.

Heim í raunsæið og þjóðræknina

Allt frá upphafi leikhúss hér á landi voru kröfur um raunsæjar leikmyndir í anda þess sem skáldin kváðu á um í sjónleikjum sínum. Carl Lund, sem rak leiktjaldaþjónustu í Kaupmannahöfn, var í raun meginviðmið íslenskrar leikmyndagerðar á fyrri helmingi aldarinnar, en LR skipti við hann frá 1905 og mun áhrifa hans hafa gætt hér fram í seinna stríð. Rithöfundurinn Jón Trausti hafði lítillega lagt fyrir sig leiktjaldagerð í Kaupmannahöfn rétt fyrir aldamótin 1900 og var almennt hrifinn af verkum Carls Lund. Hann gagnrýndi þó útfærslu hans á íslenskri náttúru í Bóndanum hjá LR, sem hann taldi ekki nógu íslensk og ekki "rétt" út frá raunsæissjónarmiði þess tíma. (Leikmyndlist á Íslandi). Einar Jónsson frá Fossi í Mýrdal hóf að mála tjöld fyrir LR 1911 og lagði sig í líma við að hafa tjöldin "rétt" og fór í því skyni á sögustaði til að skissa leiktjöldin upp. Freymóður Jóhannsson, sem var fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari LR, var einnig á þeirri skoðun að tjöldin ættu að vera raunsæ og deildi oft hart á þá sem fóru aðrar leiðir í sinni túlkun. Bjarni Björnsson hafði lært leiktjaldagerð í Bandaríkjunum og vann stundum að leiktjaldagerðinni með Lárusi, en var önnum kafinn við að koma fram sem eftirherma og er aðeins skrifaður fyrir þremur leikmyndum, einni ásamt Lárusi veturinn 1939-40 og tveimur ásamt Lárusi og Freymóði veturinn 1933-4. Og viðmiðin í leiktjaldagerðinni höfðu verið í anda raunsæis frá því elstu menn mundu.

Það var inn í þetta einangraða og þjóðrækna umhverfi sem Lárus Ingólfsson kom árið 1933, með dýrmæta reynslu af leiktjalda- og búningagerð frá Konunglega leikhúsinu í Danmörku í farteskinu og hneigður fyrir stílfærslur af ýmsu tagi. Lárus gerðist þegar við heimkomuna aðalleikmynda- og búningateiknari Leikfélags Reykjavíkur. Þá voru mikil umbrot í íslensku leikhúslífi. Leikfélag Reykjavíkur hafði þá starfað í hálfan fjórða áratug og kynslóðaskipti í leikhúsinu. Einnig var það nýlunda á þessum árum að komið var leiklistarmenntað fólk sem vildi gera leiklistina að sínu aðalstarfi, sem þótti bíræfni á þeim tíma. Lárus er í raun og veru sá sem fyrstur færir íslenska leikmyndlist inn í nútímalegt og alþjóðlegt umhverfi og er jafnframt fyrstur hérlendra leikmyndateiknara til að starfa við fagið alla sína starfsævi. Freymóður Jóhannsson hafði, líkt og Lárus, aflað sér sérmenntunar í faginu, en hætti leiktjaldagerð fyrir Leikfélagið um það leyti er Lárus kom heim og vann lítið við fagið síðan.

Fyrsta leikmyndin sem Lárus teiknaði fyrir Leikfélag Reykjavíkur var við Stundum kvaka kanarífuglar eftir Lonsdale í leikstjórn Indriða Waage, haustið 1933. Tjöldin þóttu nýstárleg. Þau voru stílfærð, en ekki teiknuð sem hrein eftirlíking raunverulegs umhverfis eins og áður hafði verið gert. Uppfrá þessu teiknaði Lárus leiktjöld og búninga fyrir flestar sýningar Leikfélagsins, m.a. við Pétur Gaut árið 1943 í leikstjórn Gerd Grieg. "Þá voru enn raunsæisáhrifin; Gerd Grieg vildi sýna norskt landslag. Ég gróf þá upp bók eftir Kittelsen Moe, og þar var mynd af grænklæddu konunni í sefi og tjörn í þjóðsagnastíl. Þetta sýndi ég Gerd Grieg, og hún varð fjarska ánægð og samþykkti, að svona mætti mála það atriði. Sumt tókst skínandi vel; t.d. var atriðið í Dofrahöllinni afbragðsgott og eftirminnilegt, svo og grænklædda konan, Alda Möller, er hún birtist í sefinu mínu, Gerda Grieg stílíseraði aftur á móti í nútímastíl. Hefði mér þó fundist, að sviðið hefði mátt vera meira norskt. Sumt af því, sem hún vildi gera, reyndist ekki vera unnt vegna þrengsla á sviðinu. Þar var lögð áhersla á einfaldleikann og umfram allt að láta allt ganga nógu fljótt. Það er alltaf mjög áríðandi", segir Lárus í viðtali í Leikhúsmálum 1963.

Auk þessa sá Lárus um ýmsa sýslan fyrir Leikfélagið. Hann keypti inn, hafði umsjón með búningasaumi, farðaði leikendur á kvöldin og lék stundum sjálfur. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur starfaði Lárus til 1950, er hann réðist til Þjóðleikhússins.

Leiklistariðkun

En Lárusi var fleira til lista lagt, eins og drepið er á að framan. Um jólin 1933 lék hann sitt fyrsta hlutverk hjá LR, Grím meðhjálpara í Manni og konu, einnig í leikstjórn Indriða Waage og skömmu síðar Bech í Við sem vinnum eldhússtörfin. Svo fylgdu fjöldamörg hlutverk í kjölfarið og þótti Lárus fjölhæfur leikari ekki síður en gamanvísnasöngvari og dansari. Þannig varð hann fljótt sannkallaður þúsundþjalasmiður í leikhúsinu. Í Kaupmannahöfn hafði Lárus notið einkatilsagnar Önnu Borg og síðar Holgers Gabrielsen, eins fremsta leikara Dana á millistríðsárunum (sem var seinna kennari Lárusar Pálssonar), auk þess sem hann fékk mikinn áhuga á dansi, ekki síst ballett. Mun Lárus hafa komið talsvert fram á sviði á Danmerkurárum sínum og má sem dæmi nefna að hann starfaði (samkvæmt því sem kemur fram hjá vini hans, Bjarna Guðmundssyni, í Vikunni árið 1947) við dans- eða kabarettflokk landflótta Rússa í Höfn og ferðaðist með flokknum víða um land. Lárus getur þess einnig í viðtali í Morgunblaðinu árið 1965 að hann hafi dansað hlutverk fiðrildis í ónefndri óperettu ásamt Gittu Alpar.

Það var því engin furða að Lárus ætti eftir að slá eftirminnilega í gegn í revíunum sem urðu fastur liður í íslensku leikhúslífi á fimmta og sjötta áratugnum. Þar kom sér vel hversu snjall gamanvísnasöngvari hann var, og er sumt af því besta raunar varðveitt í upptökum, t.d. makalaus túlkun hans á raunum Danans á Íslandi eða saumavísunum. Hann lék einnig þó nokkuð í almennum leiksýningum, bæði hjá LR og Þjóðleikhúsinu, oftast gamansöm hlutverk, þó að alvarlegri hlutverkum brygði fyrir inn á milli. Lárus lék sín stærstu hlutverk í revíunum og óperettunum, því þær voru settar upp á vorin og þá var minna að gera við leikhúsið í leiktjaldagerðinni. Í viðtali Í Tímanum árið 1967 kveðst hann einnig hafa verið látinn leika "fígúrur" í "alvöruleikritum", ef leikstjóranum þótti "fígúran" í leikritinu hafa sömu "fígúrueinkenni."

Söngleikir

Árið 1934 var Lárus fenginn til þess, ásamt Bjarna Björnssyni, að mála leiktjöld fyrir uppfærslu hins nýstofnaða Tónlistarfélags á Meyjarskemmunni, fyrstu óperettusýningu á Íslandi, í leikstjórn Ragnars Kvaran og hljómsveitarstjórn dr. Frans Mixa. En þarna rákust á hagsmunir og leikfélagið vildi hvorki lána þá Lárus og Bjarna eða aðstöðuna til leiktjaldagerðar í kjallaranum í Iðnó, samkvæmt því sem kemur fram í Leikhúsmálum 1963. Var þá, samkvæmt Morgunblaðinu 1965, snarlega innréttuð aðstaða í kjallara Þjóðleikhússins, sem þá var hálfkarað í byggingu. Þangað læddust þeir Lárus og Bjarni með tjöld og pensla og máluðu tjöldin fyrir Meyjarskemmuna í kulda og trekki.

Ekkert vatn var þá í Þjóðleikhússbyggingunni, svo þeir þurftu að hlaupa með fötur yfir í næstu götu þar sem gosdrykkjaverksmiðjan Sanitas hafði starfsemi og var striginn svo þurrkaður við olíuofn. Þannig urðu til leiktjöldin fyrir fyrstu óperettusýningu á Íslandi og þarna var upp frá því til margra ára aðstaða Leikfélags Reykjavíkur til leiktjaldagerðar, nema hvað í stríðinu hugkvæmdist Bretum að taka kjallarann undir geymslu á meðan Lárus var úti í Oxford og London í boði British Council að sjá þarlent leikhús. Vinnuaðstaðan til leiktjaldagerðar var þá færð í "fiskiskúr" vestur í bæ, eins og Lárus nefndi húsið þar sem nú er veitingastaðurinn Naust í viðtalinu í Leikhúsmálum 1965. Þetta var að sögn Lárusar "alveg ofboðslegur saltkjallari." Lárus segir þar að stríðsárin hafi verið verstu ár ævi sinnar, því ekki hafi fengist borgað kaup og ekkert hafi heldur fengist í verslunum. "Fólk var að gefa manni gömul föt af sér, brúðarkjóla, diggadarium og dims til að nota í búninga. Leikhúsið lá að mestu niðri. Það réðust á mann skattheimtumenn og spurðu hvernig maður færi að því að lifa á engum launum", segir Lárus í Morgunblaðinu 1965.

Tónlistarfélagið setti líka upp fyrstu óperuna hér á landi á þessum árum, Systurnar frá Prag eftir Wensel Mueller í leikstjórn Bjarna Guðmundssonar og hljómsveitarstjórn Frans Mixa. Nú hafði samkomulag LR og Tónlistarfélagsins batnað og Lárus fékk leyfi til að leika og jafnvel syngja fyrir Tónlistarfélagið. Kveðst Lárus hafa fengið þann vitnisburð hjá dr. Mixa að hann kæmi alltaf inn á réttum tón. Fékk Lárus það hlutverk að syngja mansöng til Sigrúnar Magnúsdóttur, og kvaðst hann í viðtali í Leikhúsmálum 1965 hafa verið "ægilega blóðheitur, og spilaði undir á lírukassa." Í kjölfarið fylgdu svo fleiri óperettur, Brosandi land og Bláa kápan og vann Lárus við þær uppfærslur; teiknaði, málaði, lék og söng. Var ferðast um norðurland við góðar undirtektir. Árið 1941 settu svo félögin tvö, LR og Tónlistarfélagið, sameiginlega upp sýningu á Nitouche eftir Hervé í leikstjórn Haraldar Björnssonar. Þar var Lárus í hlutverki Coirot liðþjálfa. Tónlistarfélagið var einnig fyrst til þess að setja upp íslenska óperettu. Það var Í álögum eftir Sigurð Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson. Var hún sett upp á skömmum tíma, svo Lárus hafði nóg að gera við að mála, teikna og leika. Þar söng hann einnig að eigin sögn: "Við Nína áttum þar afskaplega skemmtilegan dúett" (Leikhúsmál 1963). Þannig varð Lárus einn tryggasti liðsmaður söngleikja á Íslandi frá upphafi.

Revíur

En það var víðar sungið en hjá Tónlistarfélaginu. Á fjórða og fimmta áratug 20. aldar var gullöld revíunnar á Íslandi. Stjörnur á borð við Harald Á. Sigurðsson og Alfreð Andrésson voru hetjur þjóðlífsins í þá daga. Og ekki var Lárus lengi að slást í þann hóp. Gömlu revíurnar Spánskar nætur og Haustrigningar höfðu áður gefið tóninn. Fyrsta revían sem Lárus tók þátt í var Fornar dyggðir eftir þá Bjarna Guðmundsson, Harald Á. Sigurðsson og Morten Ottesen (1938), en þar var hann í hlutverki Chaplins. Í endurnýjaðri uppfærslu á Fornum dyggðum, sem nefnd var Halló, Ameríka, lék Lárus alls átta hlutverk og þótti vel af sér vikið. "Fólk var fjarska þakklátt yfir þessu brölti okkar. Ég man, hvað einn var hneykslaður, er hann frétti, að það ætti að kosta 5 krónur á eina sýningu. Ja, það eru breyttir tímarnir. En fólkið borgaði fúslega sínar 5 krónur" (Leikhúsmál 1963).

Af revíuhlutverkum Lárusar má nefna að hann lék Gamalíel, gamla Reykvíkinginn í Hver maður sinn skammt, sveitamanninn í Allt í lagi lagsi og manninn hennar Jónínu hans Jóns í Nú er það svart. Fyrstu revíuuppfærslurnar sem Lárus tók þátt í voru í Iðnó, en flestar voru færðar upp í Bláu stjörnunni við Austurvöll og voru svo á leikferðalagi yfir sumartímann við miklar vinsældir. Helstu samstarfsmenn Lárusar í revíu- og gamanvísnasýningunum voru Haraldur Á. Sigurðsson, Alfreð Andrésson og Brynjólfur Jóhannesson. Tveir hópar sáu aðallega um revíuuppfærslurnar. Annarsvegar Fjalakötturinn með fulltingi Emils Thoroddsen, Indriða Waage o.fl. sem sýndi m.a. Forðum í Flosaporti og hinsvegar félagarnir Bjarni Guðmundsson, Morten Ottesen og Haraldur Á.Sigurðsson.

Lárus segir um upphaf revíuleiks síns í viðtalinu í Morgunblaðinu árið 1965 að hann hafi borið upp á sama tíma og hernámið: "Við vorum að byrja á fyrstu revíunni þegar herinn kom. Frumsýningin á Forðum í Flosaporti hafði verið kvöldið áður og við vorum að skemmta okkur í Hótel Heklu alla nóttina. Þjóðverjar af Bahia Blanca bjuggu á hótelinu og urðum við því vör við hermennina þegar þeir komu að taka þá. Það rann mikill vígamóður á fólkið þegar þetta dátaglamur byrjaði. Við skelltum bráðlega hernámsvísum inn í revíuna."

Lárus varð smám saman vinsæll skemmtikraftur í bænum, að syngja gamanvísur, flytja gamanmál og smáþætti eða lesa upp. Bjarni Guðmundsson orti margar gamanvísur fyrir hann sem urðu vinsælar. Eitt sinn héldu þeir Lárus, Brynjólfur Jóhannesson og Alfreð Andrésson skemmtanir í Gamla bíói og nágrenni Reykjavíkur 1942 sem kölluðust Þrír syngjandi sjómenn. Í annað sinn lögðu "Lárusarnir" Ingólfsson og Pálsson, land undir fót og fóru austur fyrir fjall og til Vestmannaeyja og héldu skemmtanir. Var þeim alls staðar vel tekið, nema hvað á einum stað segir Lárus að fullur kall hafi hrópað á sig "að halda kjafti þegar hann var að úthella hjarta sínu yfir públíkum" (Leikhúsmál 1963). Lárus hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist, en kveðst jafnframt hafa farið að leita að glugga þar sem þeir gætu fleygt sér út. En allt í einu var sá fulli mættur upp á svið og hrópaði til áhorfenda: "Ég banna ykkur að hlæja að þessum bölvuðu fíflum." En Lalli (Lárus Pálsson) var sæll og rólegur og ýtti við fulla kallinum svolítið , sem datt þá flatur út í glugga á sviðinu og sofnaði, en þeir héldu áfram að leika og fólkið var yfir sig ánægt, eins og Lárus Ingólfsson segir í fyrrnefndu viðtali í Leikhúsmálum. Þess á milli lék Lárus ávallt hjá Leikfélaginu ýmis hlutverk, bæði gamansöm og alvarlegs eðlis, allt frá Frosch í Leðurblökunni til Arngríms holdsveika í Fjalla-Eyvindi. Auk þess var Lárus meðlimur í fyrsta hérlenda ferðaleikflokknum, Sex í bíl, ásamt þeim Hildi Kalman, Guðbjörgu Þorbjarnardóttur, Gunnari Eyjólfssyni, Jóni Sigurbjörnssyni og Þorgrími Einarssyni. Ferðuðust þau árin 1949, 1950 og 1951 um landið og sýndu m.a. Candítu eftir Shaw: "Fólk var mjög þakklátt að fá einu sinni að sjá alvarlegri og vandaðri sýningu úti á landsbyggðinni, en það gamansull, sem annars var stundum boðið upp á." Lárus kveðst einnig oft hafa farið með sjálfstæðismönnum á héraðsmót og hafi sveitafólkið þá oftast haft hunda sína með og hafi þeir tekið undir og gólað. Lárus segir í viðtalinu að þetta hafi verið "alveg sama "hylið" og stelpurnar reka upp nú á dögum þegar þær heyra í bítlunum" (Morgunblaðið 1965).

Þjóðleikhúsið

Við stofnun Þjóðleikhússin varð Lárus leiktjalda- og búningameistari þess og gegndi því starfi í aldarfjórðung. Hann segir um fyrstu verkefnin þar: "Mér þótti mjög gaman að Íslandsklukkunni. Allt í einu voru svo mikil tækifæri; það var hægt að vinna svo frjálst, svo stórt. Íslandsklukkan var mikið sjarmerandi." Þar lék Lárus m.a. Jón með vindgapann, þann sem nafni hans Hreggviðsson sagði við: "Þú verður áreiðanlega brenndur, Jón minn." Það munaði raunar ekki miklu að Lárus yrði brenndur. Það kviknaði í málarasal leikhússins. Missti hann þar mikið af bókum og aðallega teikningum ýmiss konar og uppköstum að sviðsbúnaði. Þá var talað um Þjóðleikhússdrauginn. Þóttust ýmsir hafa séð hann. "Hann lét mig þó alveg í friði. Ég sá hann aldrei, greyið. Ég hef ekki talent fyrir svoleiðis" (Leikhúsmál 1963).

Lárus gerði bæði leikmynd og búninga í stórum uppfærslum á íslenskum leikverkum á fyrstu árum Þjóðleikhússins og má þar nefna auk Íslandsklukkunnar Nýársnóttina (1949), sem var jafnframt vígslusýning hússins, Jón biskup Arason (1950) og Gullna hliðið (1951). Lárus hafði þremur árum fyrr gert leikmynd og búninga við Gullna hliðið fyrir LR og auk þess leikið þar hlutverk drykkjumanns. Sú sýning fór í leikför til Finnlands og var verkið sýnt sjö sinnum á Svenska teatern.: "Ég varð þá að sminka leikarana, mála leiktjöldin, leika og útvega kerlingar til að sauma búningana. Þá var nú meiri pjötlugangurinn á manni" (Morgunblaðið 1965).

Lárus segir að sig furði ekki þótt mörgum hafi fundist Gullna hliðið betra í Iðnó en í Þjóðleikhúsinu. Stíll þessa verks sé einfaldur og barnslegur og hann komi miklu betur fram í litla leikhúsinu. Sjálfur taki hann litlu, gömlu leikhúsin fram yfir þau stóru, því hann sé svo ""svag fyrir" fellingatjöldum og útflúri í kringum sviðsgáttina" (Tíminn 1967). Merk erlend verk voru ekki síður áskorun fyrir leikmynda- og búningateiknarann Lárus á hinu stóra sviði Þjóðleikhússins. "Það var afskaplega gaman að vinna að Krítarhringnum (1954). Þar voru stórbrotnir búningar. Ég málaði sitt Kínamunstrið á hvern búning. Það var mikið verk. Í Kína hafði hver stétt sinn lit. Svona þarf maður nú að vita. Það er ósköp að sjá allan ruglinginn á tískum og tímum í kvikmyndunum nú til dags. Maður skyldi þó ætla, að menn þar gerðu nú ekki svona ótuktarskap… Svo var mjög gaman að Leðurblökunni (1951). Það var glæsileg sýning" (Leikhúsmál 1963). Auk þessa var Lárus mikilvirkur í flestum sýningum Þjóðleikhússins fyrstu árin, ýmist sem leikari eða teiknari sviðs eða búninga.

Starfsbróðir Lárusar og nemandi, Gunnar R. Bjarnason, sem starfaði við hlið hans í um tvo áratugi í Þjóðleikhúsinu, lýsti því svo í viðtali að hann hefði verið "afar vel að sér í stílsögu og hafsjór af þekkingu um allt sem varðaði eldri byggingarstíl, innréttingar, húsgögn og fatahönnun" (Leikmyndlist á Íslandi).

Starfsskilyrði og söguleg staða

Því fór fjarri að starfsskilyrði fyrsta fullgilda búninga- og leiktjaldamálarans á Íslandi væru eins og best yrði á kosið. Þegar Lárus kom heim hafði LR aðstöðu til leiktjaldamálunar í kjallara Iðnó og síðan í vatnslausum og köldum kjallara Þjóðleikhússins sem var þá í byggingu. Eftir að í Þjóðleikhúsið kom urðu aðstæðurnar að sumu leyti þægilegri, en Lárus hlaut þó að finna fyrir því að húsið var í reynd ekki byggt með þarfir nútímaleikmyndagerðar í huga. Þar var - og er enn í dag - mjög erfitt að vinna með stærri einingar, eins og sjálfsagt þykir í nútíma leikhúsi, en innri tilhögun hússins fremur miðuð við þann tíma þegar leikmyndir voru aðallega samsettar úr sléttum flekum og tjöldum, hliðar- og baktjöldum, sem báru síðan "illúsjóníska" sviðsmyndina uppi. Þetta átti ugglaust sinn þátt í því að Lárus hélt sig fremur innan marka hefðarinnar í leikmyndagerðinni, þó að hann þekkti vel módernískar hugmyndir frá námi og ferðum erlendis. Vinnuálag á hann var einnig gríðarlegt, ekki síst fyrstu árin í Þjóðleikhúsinu; t.d. gerði hann leikmyndir fyrir 25 sýningar á fyrstu þremur árum þess og búninga fyrir 20 sýningar. Í viðtali, sem eitt sinn birtist við hann, gaf hann í skyn að hann hefði saknað þeirrar nándar og þess hlýleika sem þrátt fyrir allt ríkti í gamla Iðnó.

Það verður því miður að segjast að tíminn hefur farið nokkuð hörðum höndum um verk Lárusar Ingólfssonar. Þannig mun sviðslíkönum hans flestum hafa verið fargað á sínum tíma, sjálfsagt fremur vegna plássleysis en sinnuleysis, þó að kannski hafi menn ekki fyllilega skilið þá hversu merkar leikminjar þau myndu talin síðar. Enn er þó mikið til í safni Þjóðleikhússins af fallegum búningum og búningshlutum frá hans hendi. En minning hans hefur sjálfsagt goldið þess að hann tengist viðhorfum og smekk sem hafa ekki verið í sérstökum hávegum höfð síðustu áratugi.

Þrátt fyrir þetta er Lárus merkur maður í íslenskri leiksögu og sem leikmynda- og búningahöfundur helsti fulltrúi þess samhengis sem má finna í þróun leikmyndlistar á fyrri hluta síðustu aldar. Leikminjasafn Íslands hefur því frá upphafi lagt sérstaka rækt við að ná saman heimildum um list hans og á orðið býsna gott safn ýmissa teikninga hans, ekki síst búningateikninga.

Lárus Ingólfsson um sjálfan sig, lífið og listina í blaðaviðtölum: "Ég hafði löngun til að gerast munkur, en af því varð þó ekki. Heldurðu að það hefði verið huggulegt, ef ég hefði sungið gamanvísur fyrir hina munkana allt mitt líf? Ég hef alltaf haft sterka tilhneigingu til að gefa eitthvað af sjálfum mér, en það er ekki aðeins hægt með munkalífi, heldur einnig í listinni, leikhúsinu. Kirkjuna hef ég þó aldrei yfirgefið." (Morgunblaðið 13.7. 1965)

"Ég var afskaplega veimiltítulegur og "pen" með mig á þessum árum /námsárunum í Kaupmannahöfn/. Holger Gabrielsen, sem kenndi okkur við Konunglega, var vanur að segja, þegar ég kom inn í tíma: "Kommer vikingen" (Morgunblaðið 13.7. 1965). "Mér var sagt að ég yrði hungurmorða á Íslandi … og ég tala nú ekki um, þegar ég í fyrstunni ætlaði einungis að læra leiklist. En svo var mér ráðlagt að læra einnig leiktjaldateiknun og búningagerð, og þá urðu menn bjartsýnni á framtíð mína í mannheimi." (Tíminn - sunnudagsblað 4.6. 1967).

"Að leika í revíu er svo frjálst og skemmtilegt. Þar má gera allar hundakúnstir og leyfa sér hluti, sem ekki eru taldir sæma á öðrum sýningum. Það var mér blátt áfram lífsfylling að fá landa mína til þess að hlæja hjartanlega á vorin … "(Tíminn - sunnudagsblað 4.6. 1967).

"Umhverfis Þjóðleikhúsið var stóreflis gaddavírsflækja og varðturnar á stöku stað /á stríðsárunum/. Inn fékk ég ekki að fara nema ég sýndi soldátum vegabréf og óræka sönnun þess, að ég væri bara hann "Lassi", óbreyttur leiktjaldateiknari og engu stórveldi skeinuhættur. Þetta var í sjálfu sér gott og blessað. En hitt var þó öllu verra, að á vinnustofunni stóð yfir okkur vörður með alvæpni og fylgdist með sérhverri hreyfingu eins og við værum vísir til skæruhernaðar, og vildum sprengja Þjóðleikhúsið, það er birgðaskemmuna, í loft upp. Ég hélt á fund herstjórnarinnar og spurði, hvort þeim þætti líklegt að tauganæmir leikhúsmenn gætu málað falleg leiktjöld með köld byssuhlaupin horfandi í hnakkann á sér. Jú, þeir viðurkenndu að margt gæfi betri "inspírasjón" en byssuhlaup, og loks fengum við að vera einir á vinnustofunni." (Tíminn - sunnudagsblað 4.6. 1967).

Lárus ásamt Guðlaugi Rósinkrans, þjóðleikhússtjóra við opnun sýningar á leiksviðsteikningum í Kristalssal Þjóðleikhússins árið 1965

"Yfirleitt hef ég unað mér vel við öll viðfangsefni, sem ég hef fengið, en verð þó að viðurkenna, að ég er síst hrifinn af þessum íslensku sveitamótifum, torfbæjum, "fagurri" fjallasýn og öðru slíku. Þau eiga ekki beinlínis við mig … Ég man til dæmis eftir einu verki þar sem leikumgerðin verður nær alltaf hin sama, þótt hún eigi ekki að vera það. … Fjögur atriði þessa leiks fara fram á hlaðinu sitt á hvorum bænum. Nú, hlöð á þessum tíma voru ætíð nokkurn veginn eins í stórum dráttum svona. Hvernig á að skapa fjölbreytni í leiktjöldum í slíku verki?" (Tíminn - sunnudagsblað 4.6. 1967).

"Leikumgerð á að vera einföld, en falleg. Til dæmis er hreinasti óþarfi að dengja inn á sviðið urmul af súlum, bogagöngum og alls kyns hallarpírpumpári, og hafa svo kannski fjarvíddarlandslag í bakgrunni. Slík leiktjöld eru einungis glepjandi. Þau draga athygli áhorfenda frá sjálfum leiknum, en eru síst til þess að auka skilning á sjálfu leikverkinu." (Tíminn - sunnudagsblað 4.6. 1967).

"Ég var svo mikið í öllum þessum galskap, ungarnir mínir. Það var svo sem oft nóg að gera og mikil fyrirhöfn. En við gerðum það með gleði og áhuga. Mér finnst vanta fólk nú, sem fæst til að stunda allt. Ég á við að hafa áhuga á því að vera að bauka í öllu, hvort sem það hefur geysimikla hæfileika eða ekki. Sameiginlegt átak verður oft stórt átak. Það vantar gleðina." (Leikhúsmál 1965).

"Já, mikill er nú munurinn frá því sem áður var. Mér finnst núna hafa náðst mun betri stíll en þegar ég var úti í Kaupinhöfn. Nú er hugsað meira um að láta umhverfið falla að stíl sjálfs leikritsins, án mikilla bróderinga og stúss. Sumir virðast misskilja þetta og vilja hafa gauragang og læti í kringum allt. Leiktjöld eiga ekki að beina athyglinni að sjálfum sér, heldur því, sem helst er að gerast í leikritinu. Það er meira í anda leiklistar, - minna í anda skreytingalistar. Það er oft billegar sloppið með því að hlaða upp öllum ósköpum allt í kring og bluffa með því. Það er bara minna leikhús. Ég man t.d. í gamla daga í Alþýðuhúsinu í Kaupmannahöfn, þegar sýndur var Kaupmaðurinn í Feneyjum. Þá létu þeir sig ekki muna um það að byggja allar Feneyjar inn á sviðið, nákvæma eftirmynd. Fólk hefði ekki við að rýna á Feneyjar, þekkja hitt og þetta hús og hugsa eða segja: sko, þarna hef ég nú verið. Nei, ég er ánægður með leikhússtílinn núna. Mér finnst hann réttur. Nú eru einnig til góðir menn, ef þeir eru undir góðri leikstjórn. Og nú eru líka leiktjöldin meira impressíón sjálfs leiktjaldamálarans. Mig hefur alltaf langað til þess að impróvísera." (Leikhúsmál 1963).

Lárus ásamt félögum sínum, leikmyndahöfundunum Gunnari R. Bjarnasyni, Steinþóri Sigurðssyni og Magnúsi Pálssyni við opnun sýningar á leiksviðsteikningum í Kristalssal Þjóðleikhússins árið 1965

Heimildir

"Ég heyri ekki lengur almennilegar vísur", Tíminn - sunnudagsblað, 4. júni 1967, 492-502. "Í sextugsafmæli Lárusar Ingólfssonar". Vikan 22. júlí 1965, 24-25.
Jón Viðar Jónsson og Ólafur Engilbertsson: "Á aldarafmæli Lárusar Ingólfssonar". Morgunblaðið, 22. júní 2005, 23.
"Lárus Ingólfsson - fjölhæfur listamaður". Vikan 27. mars 1947, 1, 3 7.
"Lárus, listin og lífið", Leikhúsmál 4-5, 1963.
Ólafur J. Engilbertsson, Leikmyndlist á Íslandi 1950-2000. BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2001.
"Úr klaustri í Þjóðleikhúsið með viðkomu á Konunglega og í Iðnó - Samtal við Lárus Ingólfsson sextugan", Morgunblaðið 13. júlí 1965,8.

Ólafur J. Engilbertsson

Um sýninguna

Lárus Ingólfsson - Píputau, pjötlugangur og diggadaríum

Sögusýning

Lárus Ingólfsson - Sögusýning í Þjóðmenningarhúsi

Hlutverk

Lárus Ingólfsson - Hlutverk

Leikmyndir

Lárus Ingólfsson - Leikmyndir

Búningar

Lárus Ingólfsson - Búningar