Konunglegar mublur

Sýning í Þjóðminjasafni 2004


Poul Reumert í búningsherbergi sínu í Konunglega leikhúsinu. Á myndinni
sjást húsgögnin sem nú eru orðin eign Leikminjasafnsins

Minningargjöf um hjónin Poul Reumert og Önnu Borg

Föstudaginn 5. nóvember 2003 var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands sýning í samvinnu Leikminjasafns Íslands og Þjóðminjasafnsins. Meginuppistaða sýningarinnar eru glæsihúsgögn, sófi og sex stólar, sem lengi stóðu í búningsherbergi Pouls Reumert í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Húsgögnin eru sögð persónuleg gjöf til leikarans frá vini hans Friðriki IX Danakonungi. Hér er því um einstaka muni að ræða.

Reumert, sem var einn mesti leikari Dana á síðustu öld, var kvæntur íslenskri konu, Önnu Borg. Hún var einnig leikkona við Konunglega leikhúsið í áratugi. Anna var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur, fremstu leikkonu Íslendinga á fyrri hluta síðustu aldar. Anna fórst í flugslysi við Fornebu-flugvöll í Osló árið 1963 og átti þá að baki merkan listferil í dönsku leikhúsi.

Reumerts-hjónin höfðu jafnan mikið samband við Ísland, komu hingað oft og léku gestaleiki sem vöktu mikla athygli. Auk þess voru þau jafnan boðin og búin að greiða götu íslenskra listamanna í Kaupmannahöfn. Húsgögnin eru því minjar um einn af merkustu þáttum íslenskrar leiklistarsögu og mikill ávinningur fyrir Leikminjasafnið að hafa eignast þau.

Það var Geir Borg, bróðir Önnu Borg, sem keypti húsgögnin eftir lát Reumerts 1968. Geir lést í vetur og eru þau gefin Leikminjasafninu af börnum hans. Gjöfinni fylgir mikið safn margvíslegra gagna um listferil hjónanna og Stefaníu Guðmundsdóttur.


Kjartan Borg afhendir Jóni Viðari Jónssyni minningargjöfina

Ávarp Jóns Viðars Jónssonar forstöðumanns
Leikminjasafns Íslands við opnun sýningarinnar

Það er mér mikill heiður og mikil gleði að fá að veita viðtöku þessari höfðinglegu gjöf til Leikminjasafns Íslands.

Nöfn Pouls Reumert og Önnu Borg segja nútíma Íslendingum af yngri kynslóð víst ekki mjög mikið. Þó eru ekki nema nokkrir áratugir síðan hvert mannsbarn í landinu vissi einhver deili á þessu fólki, fjölmargir sem höfðu sjálfir kynnst list þess annað hvort á sviði eða í útvarpi. En tímarnir breytast og list leikarans er sem kunnugt er bundin líðandi stund. Það þarf því alltaf talsvert átak til að viðhalda minningunni um verk liðinna kynslóða á sviðinu, ekki síst þegar tíðarandinn er jafn sjálfhverfur og hann er nú. Þess vegna er okkur nauðsyn að eiga einhverja hluti sem tengja okkur við liðið afreksfólk, ekki aðeins almenn söguleg gögn s.s. skjöl, myndir eða frásagnir, muni sem voru partur af daglegu lífi þess. Ef um óvenjulegt afreksfólk er að ræða, spillir ekki að þeir séu einnig óvenjulegir. Og það á sannarlega við um þá gripi sem við erum að þiggja hér í dag.

Um stærð Pouls Reumert sem sviðslistamanns þarf vart að fjölyrða hér og nú, og verður þó að sjálfsögðu ekki komist hjá því. Það er alltaf erfitt að alhæfa um slíkt, en ferill Reumerts var a.m.k. í norrænu samhengi algerlega einstæður. Hann stendur á leiksviði í sextíu og fimm ár; hann þótti framan af ekki líklegur til stórra hluta, en sótti í sig veðrið jafnt og þétt, nýtti tækifærin í þaula og opinberaði smám saman snilligáfu sem hann hélt áfram að þróa og þroska fram til efstu ára. Það segir nokkuð um manninn að í hinni bráðskemmtilegu endurminningabók hans, Masker og mennesker, er sérstakur kafli um nokkur helstu "fiaskó" hans á sviðinu; og eru ekki margir leikhúsmenn sem hafa talið sig eiga ráð á slíku. En það gerði Reumert, og fannst kannski líka nauðsynlegt, til mótvægis við allt meðlætið á lífsleiðinni, allar opinberu heiðursviðurkenningarnar, orðurnar og titlana, en einnig þá ást og aðdáun sem þakklátir njótendur listar hans auðsýndu honum. "Nú er stærsta eikin í skógi leikhússins fallin" skrifuðu blöðin við lát hans árið 1968, nánast eins og þar væri kvaddur maður í blóma lífsins.

Sem leikari var Poul Reumert skólaður í þeirri raunsæishefð sem sett hefur mikinn svip á danska leiklist allt til þessa dags. Hann hafði frábæra tilfinningu fyrir ólíkum manngerðum, og því hvernig skapgerð og lífsafstaða mannsins kemur fram í allri framgöngu hans, svipbrigðum, líkamsburðum, rödd. Þó að myndugleiki fylgdi persónu hans, fannst sumum hann ná hæst í lýsingu á brotnum mönnum, gjarnan úr borgarastéttinni; mönnum sem földu hjartasárin og ósigrana undir sléttu og felldu yfirborði. En það voru ekki aðeins prestar og læknar, forstjórar og fjármálamenn sem Reumert túlkaði af sannfæringu, list hans spannaði miklu stærra svið. Hann var einnig mikill meistari hins kómíska ýkjuleiks, Volpone og lautinant von Buddinge í Andbýlingum Hostrups voru meðal meistaraverka hans á því sviði, að ekki sé minnst á Alceste og Tartuffe Molieres sem hann lék eitt sinn í sjálfu franska þjóðleikhúsinu, á frönsku að sjálfsögðu. Reumert kunni flestum betur þá list, sem er og verður einn mesti leyndardómur góðrar leiklistar, að afhjúpa persónur sínar vægðarlaust, en gera þær um leið mannlegar og skiljanlegar. List hans var alltaf vitsmunaleg, jafnvel úthugsuð, gat á stundum orðið ívið köld eða yfirborðskennd, næði hann ekki sambandi við persónurnar, en þegar best lét svo áhrifamikil, sönn og djúp, að engum gleymdist. Í nýlegu viðtali, sem ég rakst á við danska leikstjórann Klaus Hoffmeyer rifjar hann upp gamla leikhúsminningu sem hér má fljóta með; hann kveðst þar sem kornungur maður hafa séð Reumert leika lækni í fremur ómerkilegu leikriti. "Læknirinn var hjartveikur", segir Hoffmeyer, "og maður bjóst alltaf við því að hann færi að fá kast. Í einu atriðinu gengur Reumert niður stigann í átt til áhorfenda; hann heldur í handriðið hægra megin, en á einu stað skiptir hann snöggt yfir til vinstri, líkt og hann sé að detta. Ég sá sýninguna mörgum sinnum og hann gerði þessa hreyfingu alltaf eins, og í hvert einasta skipti fór hrollur um mig. Aðrir leikarar hefðu getað gert þetta alveg eins án þess að það snerti mann á nokkurn hátt - en Reumert, hann var jú séní."


Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Þorgerður Katrín Gunarsdóttir menntamálaráðherra við opnun sýningarinnar

Það er auðvitað eitt af ævintýrum íslenskrar menningarsögu á síðustu öld að við skyldum tengjast þessum afburðamanni í gegnum Önnu Borg. Sjálf var hún glæsilegur og heilsteyptur listamaður sem heillaði Dani ung. Það var yfir henni eitthvert hreinlegt og þokkafullt yfirbragð sem fáar leikkonur af hennar kynslóð bjuggu yfir, einhver einfaldur og innilegur hátíðleiki, sem kom henni ekki síst til góða í ýmsum klassískum verkum, gjarnan af rómantísku tagi, svo sem leikjum danska þjóðskáldsins Oehlenschlägers, sem hún lék oft í. Að því leyti var hún sem listamaður mikil andstæða manns síns, sem alltaf þótti betri í nútíðarleikjum en klassíkinni. Anna Borg þurfti að sigrast á ýmsum erfiðleikum, bæði ung kona og roskin, ekki aðeins að ná valdi á erlendu máli sem hún gerði svo vel að hún var eitt verðlaunuð fyrir frábært vald á dönskunni. Hún tókst á við þetta mótlæti allt af einurð og elju, og má vera að henni hafi þá stundum orðið hugsað til móður sinnar, Stefaníu Guðmundsdóttur, og alls þess sem hún hafði á sig lagt í þágu íslensks leikhúss.

Það kom að vísu í hlut annarra en Önnu Borg að halda því verki áfram, en frami hennar meðal Dana var íslenskum leikurum engu að síður ómetanleg hvatning í baráttu þeirra fyrir tilverurétti listar sinnar. Þetta vissu Reumerts-hjónin bæði og þau sýndu einstaka ræktarsemi sína og tryggð með því að koma hingað hvað eftir annað og leika gestaleiki. Fer ekki á milli mála að þær heimsóknir juku íslensku leikhúsfólki sjálfstraust og þor, um leið og þær settu því listræna viðmiðun; vöndu menn af allri útkjálkasjálfumgleði, kenndu þeim að í listinni má aldrei sætta sig við minna en hið allra besta.

Óvenjulegir gripir tengdir óvenjulegu fólki, sagði ég hér áðan, en Geir Borg, bróðir Önnu, var einnig óvenjulegur maður. Honum eigum við að þakka þá eign sem Leikminjasafnið hefur nú tekið við. Þó að viðskipti og rekstur væru daglegur starfi hans um langa ævi, var hann alltaf í innsta eðli sínu sami fagurkerinn, sami kröfuharði smekkmaðurinn, og verið hafði móðir hans og svo margir aðrir í fjölskyldunni. Geir kom ungur á heimili Reumerts-hjónanna í Kaupmannahöfn; hann hafði þá lokið stúdentsprófi hér heima og var kominn utan til viðskiptanáms. Á þessum árum batst hann nánum tilfinningaböndum við þetta fólk, mág sinn og systur, og mér er ekki grunlaust um að hann hafi alltaf talið sig eiga því skuld að gjalda. Það var nóg að stíga inn fyrir dyr á heimili hans á Smáragötunni til að sjá hversu kær þau voru honum; hversu annt honum var um að minning þeirra gleymdist ekki fremur en móður þeirra systkina. Þar voru ekki aðeins falleg málverk af þeim öllum á veggjunum, heldur fjöldi mynda af öllu tagi sem tengdust list þeirra, nánast eins og vísir að litlu leikminjasafni. Mig langar sérstaklega til að benda ykkur hér á litla olíumálverkið sem hangir hér til hliðar; það er málað af Reumert sjálfum, en hann var vel liðtækur tómstundamálari og hafði fyrir sið að gera af sér portrett í helstu hlutverkum sínum. Þessi mynd er af honum í einu snjallasta Strindberg-hlutverki hans, Lindquist í Páskum, sem hann lék fyrst árið 1918 og síðast í danska sjónvarpinu 1963. Hvað varðar þá sögn að húsgögnin, sem eru hryggjarstykkið í sýningunni, hafi verið gjöf til hans frá Friðriki IX Danakonungi, er hún á engan hátt ótrúleg, því að góður kunningsskapur var jafnan með Reumerts-hjónunum og dönsku konungshjónunum. Þetta voru tveir kóngar og vissu báðir hvað þeim var samboðið.

Það er að sjálfsögðu talsvert til af upptökum með þeim Reumerts-hjónum, einkum hvoru í sínu lagi, og er þó næsta víst að þær gefa fremur ófullkomna mynd af list þeirra þegar hún náði hæst. Hér á sýningunni verður leikin upptaka af einþáttungi Finnlandssvíans Runars Schildt, Galgemanden, sem þau léku fyrst saman í Konunglega leikhúsinu árið 1929. Mig langar hins vegar til að enda þessa stuttu athöfn með því að leyfa ykkur að heyra raddir þeirra tveggja í upptökum úr íslenska Ríkisútvarpinu. Áður vil ég þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari sýningu og gert hana mögulega, ekki síst Alþingi, sem veitti Leikminjasafninu fjárstyrk til að koma henni upp, en einnig þjóðminjaverði og öðrum starfsmönnum Þjóðminjasafns fyrir gott samstarf og þá velvild að bjóða húsnæðislausu safni að koma hingað inn. Efst í huga mér er mér þó þakklæti til þeirra systkina, Kjartans, Stefaníu, Sunnu, Áslaugar og Ottó Geirs fyrir þann höfðingskap og það traust á Leikminjasafninu sem þau hafa sýnt með þessari gjöf. Þó að húsgögnin og þeir gripir, sem hér eru, verðir að þessu sinni aðeins stutta stund til sýnis, líður vonandi ekki á alltof löngu þar til Leikminjasafnið getur sýnt þá allan ársins hring, helst auðvitað í sérstöku minningarherbergi, helguðu þessari fjölskyldu allri.

Fyrst er það sem sagt lítil upptaka úr Ríkisútvarpinu með Önnu Borg. Ég veit ekki frá hvaða ári hún er, nema hvað hún er frá því einhvern tímann eftir stríð, kannski úr heimsókn þeirra hjóna árið 1948. Það þarf vart að taka fram að hún er hér ekki leikin til að gefa mynd af list leikkonunnar, heldur rétt til að leyfa okkur að heyra raddblæinn, hinn sérstæða persónulega tón sem naut sín ekki síst í meistaralegum ljóðaflutningi hennar. Halldór Laxness sagði t.d. eitt sinn að hann hefði sjaldan heyrt ljóð flutt jafn vel og þegar hún flutti fyrir sænskum áheyrendum ljóð Jóhanns Sigurjónssonar, Han kom en sommeraften den farende Svend.


Gefendurnir, fjölskylda Önnu Borg, og hinar konunglegu mublur

Árið 1967 var íslenski útvarpsmaðurinn Jónas Jónasson staddur í Kaupmannahöfn. Hann náði þá stuttu viðtali við Poul Reumert á heimili hans, en Reumert hafði þá verið ekkjumaður í fjögur ár, frá flugslysinu hörmulega við Fornebu-flugvöll á páskadag árið 1963. Þetta er örugglega eitt af allra síðustu viðtölum sem tekin voru við Reumert, hugsanlega það síðasta. Hann hafði oft tjáð Íslandi og Íslendingum þakklæti sitt, bæði í orði og verki, en tæpast nokkru sinni á jafn fallegan og einlægan hátt og hann gerði hér, ári áður en járntjaldið féll endanlega fyrir sviðið.

Um sýninguna

Konunglegar mublur Sýning í Þjóðminjasafni 2004

Viðtal við Poul Reumert

Viðtal við Poul Reumert tekið úr útvarpi

Anna Borg, ljóða og leiklestur

Sýningar / Konunglegar mublur / Anna Borg, ljóða og leiklestur