Jón E. Guðmundsson

Leikbrúðu- og leiktjaldasýningUpphaf leikbrúðugerðar á Íslandi

Jón E. Guðmundsson hefur sagt frá því að danskur maður hafi sýnt brúðuleik um Jeppa á Fjalli eftir Holberg á Eyrarbakka árið 1914. Hinsvegar fer engum öðrum sögum af þeirri sýningu og engin vakning mun þá hafa átt sér stað í að finna brúðuleikhúsi vettvang hér á landi. Kurt Zier hlýtur því að teljast frumkvöðull í því að kynna leikbrúðugerð fyrir Íslendingum. Hann kom hingað til lands á stríðsárunum, safnaði að sér áhugafólki um brúðuleikhús og stofnaði Marionettuleikfélagið. Afrakstur þess félags varð vönduð sýning á Fást eftir Goethe með tónlist eftir Hallgrím Helgason. Sýnt var í hátíðasal Háskóla Íslands. Nemendur við Handíða- og myndlistarskólann gerðu leikbrúðurnar og leiktjöldin undir leiðsögn og í samstarfi við Zier. Brúðurnar voru strengjabrúður pg skronar í tré, púkarnir voru með skinnbelg fyrir maga sem hægt var að pumpa upp. Þetta voru stórar brúður, 60-90 cm háar og mjög vandaðar. Nú er talið að þær séu flestar, ef ekki allar, glataðar. Zier lét af störfum við Handíða- og myndlistarskólann árið 1949 og gerðist rektor myndlistarskóla í Þýskalandi. Hann kom aftur hingað til lands 1961 og tók við skólastjórn í Myndlista- og handíðaskólanum. Hann lét af störfum árið 1967, en kom aftur árið 1968, ári áður en hann lést, og hélt námskeið í leikbrúðugerð sem varð hvatinn að stofnun Leikbrúðulands.Íslenska brúðuleikhúsið

Jón E. Guðmundsson var fyrstur til að stofna brúðuleikhús hérlendis og reka það. Það var í nóvember 1954 sem fyrstu sýningar Íslenska brúðuleikhússins fóru fram. Í Alþýðublaðinu 30. nóvember 1954 er sagt frá ?ví að íslenskt strengbrúðuleikhús byrji sýningar í desember: "[H]efur Jón E. Guðmundsson listmálari smíðað brúðurnar og málað leiktjöld, en hann er eigendi brúðuleikhússins. Það heitir [Í]slenska brúðuleikhúsið... Fyrstu verkefni brúðuleikhússins verða Hans og Gréta og Rauðhetta... Brúðuleikhúsið verður í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu... Jón byrjaði fyrir tveimur árum að undirbúa leikhússtofnunina. Hefur hann fengizt við brúðusmíði áður."Helstu æviatriði Jóns E. Guðmundssonar

Jón E. Guðmundsson fæddist á Patrekfirði þann 5. janúar árið 1915. Sautján ára að aldri kom hann til Reykjavíkur og fór að vinna verkamannavinnu, en hugði á listnám . Hann hafði þá þegar fengið nokkra tilsögn í útskurði vestur á Ísafirði hjá Guðmundi frá Mosdal, en ungur hafði Jón farið að fást við smíðar. Í Reykjavík stundaði Jón nám í teikningu hjá Marteini Guðmundssyni, myndskera, sem verið hafði nemandi Ríkarðs Jónssonar. Einnig lagði Jón stund á nám við myndlistarskóla sem Jóhann Briem og Finnur Jónsson ráku. Jón hlaut síðan námsstyrk frá Dansk Islandsk Forbund til framhaldsnáms í myndlist í Kaupmannahöfn. Þar nam hann myndlist í nokkru ár og þar komst hann í kynni við brúðuleikhús. Aðalstarf Jóns var kennsla meginhluta ævinnar, en leikbrúðugerð og sýningar voru ekki síður umfangsmikið ævistarf. Auk þess stundaði Jón aðrar greinar myndlistar; grafíklist, málun og útskurð.Tildrög leikbrúðugerðar Jóns E. Guðmundssonar

Um tildrög þess að hann fór út í leikbrúðugerð segir Jón E. Guðmundsson að hann hafi verið í listaskóla í Kaupmannahöfn eftir stríð og sér hafi þá verið boðið heim til listamanns, samnemanda síns í listaskólanum, sem var að föndra við brúður og var með handbrúðuleikhús. Það hafi verið nóg til að kveikja í sér áhuga á þessi listgrein. Jón hefur raunar einnig sagt að atvik í æsku hans á Patreksfirði hafi sumpart kveikt áhugann, en þá hafi drengur einn í búðinni á staðnum verið með leikbrúðu sem hann lék með og talaði fyrir: "Ég gerði mína fyrstu brúðu þegar ég var 11-12 ára. Það var alger tilviljun hvernig ég kynntist leikbrúðugerðinni. Ég ólst upp á Patreksfirði. Þar var drengur sem hét Eggert Proppé í verslun Ólafs Jóhannessonar. Hann stóð þar eitt sinn á tröppunum með handbrúðu sem hann lét segja: "Heilsaðu Jóni". Þetta kveikti í mér."Um strengjabrúður

Leikbrúðugerðin er sérstök listgrein. Fyrst er gjarnan unnið í leir og andlitsdrættir mótaðir og fleira. Þá tekur pappírinn við og gert mót úr pappamassa af leirnum. Jón hefur mest höggvið út í tré. Þegar farið er af stað með sköpun brúða fyrir sýningu þarf fyrst að ákveða hvað skuli sýna og því næst hvernig brúður skuli gerðar. Jón hefur sagt að hann hafi yfirleitt valið að gera strengbrúður, þær hafi meiri möguleika en handbrúður, Strengirnir séu stjórntæki þeirra og fjöldi þeirra, sem geti verið frá fjórum og uppí sextíu, segi til um hreyfigetuna. Þetta byggist á því hvað þær þurfa að gera. Ef það séu t.d. danshreyfingar þá þurfi mikil liðamót. Jón kveðst aldrei hafa verið hrifinn af handbrúðum - það sé ekki hægt að láta þær tjá eins mikið, eða sýna hreyfingar eins og píanóleik. Jón hefur sagt að minnsti fjöldi af strengjum í strengjabrúðu sé 12 til að hún geti hreyft sig eðlilega. Svo geti strengirnir orðið 60 eða 70 þar sem flóknari hreyfinga sé krafist. Í sirkushesti sem Jón gerði og hann fór með til Kaupmannahafnar segir hann að hafi verið 40 eða 50 strengir. Þar hafi knapinn getað farið af baki, gælt við hestinn og farið aftur á bak.Brúðuleikhús á Flyðrugranda

Jón keypti skúrbyggingu undir brúðuleikhús sitt á Flyðrugranda og setti þar upp leikhús með 30 sætum. Hann kveðst hafa fengið stóla gefins úr Austurbæjarskólanum þar sem hann kenndi lengi. Hann málaði stólana svarta, setti upp snyrtingu og það sem til þurfti. Hann setti upp fasta svið og leiktjöld sem hann málaði á bleiugas. Þá sást brúðuleikarinn ekki í gegn þó hann sæi sjálfur út. Pallur var undir sviðinu og var hann notaður sem sæti fyrir handbrúðustjórn, en annars var staðið á honum. Jón var með upp í 2-3 sýningar á dag fyrir börn. Einkum var pantað frá dagheimilum. Árið 1970, á nítjánda starfsári Íslenska brúðuleikhússins, voru leikbrúður Jóns að hans sögn orðnar 400 talsins. Sex til sjö manns unnu með honum við sýningarnar í Reykjavík þegar mest var. Færri voru svo í ferðum út á land og erlendis. Árið 1974 er tuttugu ár voru liðin frá stofnun Íslenska brúðuleikhússins, hafði Jón sýnt Eldfærin eftir H.C Andersen 140 sinnum og Kardimommubæinn eftir Thorbjörn Egner 100 sinnum.Leikbrúður í sjónvarpi

Jón gerði brúðuna Fúsa flakkara á upphafsárunum Sjónvarpsins fyrir Stundina okkar og vann við þættina árin 1968 til 1970. Fúsi var upphaflega handbrúða, en síðar strengjabrúða og varð mjög vinsæll. Talsvert var farið með hann um landið í upptökuferðir, m.a. á sveitabæi og var Jón ávallt með í för sem stjórnandi. Tage Ammendrup og Andrés Indriðason, upptökustjórar, unnu með Jóni í að semja handrit. Einnig var með í för Kristín Ólafsdóttir, umsjónarkona í Stundinni okkar. Erlingur Gíslason og Sigríður Hannesdóttir sáu um leiklestur. Sjónvarpið virðast hafa aukið vinsældir brúðuleikhúss hér á landi. Í viðtali árið 1970 sagði Jón aðspurður um hvort aðstaðan hér hefði ekki breyst fyrir brúðuleikhús: "Jú, það hefur hún gert, einkum með tilkomu sjónvarpsins og er mikill munur á viðhorfi almennings gagnvart Brúðuleikhúsinu [leikhúsi Jóns] nú frá því sem áður var."Unima, námskeið og kynning á leikbrúðugerð

Jón E. Guðmundsson lagði ávallt mikla áherslu á að miðla leikbrúðulistinni. Hann hélt nokkur námskeið í leikbrúðugerð, m.a. þriggja mánaða námskeið veturinn 1973-4. Einnig hélt hann námskeið fyrir fólk úti á landsbyggðinni og ferðaðist víða með brúðuleikhús sitt. Árið 1974 hafði Jón ferðast ellefu sinnum í kringum landið með brúðuleik og sýnt yfir 1000 sýningar af ýmsu tagi með leikbrúðum.Hann fór þó ekki aðeins í leikferðir hringinn í kringum landið, heldur einnig til annarra Norðurlanda; Færeyja, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Árið 1976 var stofnuð Íslandsdeild Alþjóðasamtaka brúðuleikhússfólks (Union International de la Marionette), eða Unima á Íslandi. Upphaflega voru samtökin evrópsk, stofnuð árið 1929, en eru löngu orðin alþjóðleg. Aðalhvatamaður að stofnun íslenska félagsins var þekktur sænskur brúðuleikhúsmaður, Michael Meshcke. Jón E. Guðmundsson var fyrsti formaður Unima á Íslandi og var það til margra ára. Íslensku samtökin hafa tvisvar staðið fyrir alþjóðlegum brúðuleikhúshátíðum og tvisvar haldið námskeið í brúðugerð. Félagið hefur líka verið tengiliður við erlent brúðuleikhúsfólk sem hefur haft áhuga á að sýna á Íslandi. Auk þess stóð Unima staðið að brúðuleikhússviku á Kjarvalsstöðum 1977 og 1978, en Leikbrúðuland hefur einnig staðið að brúðuleikhússvikum að Fríkirkjuvegi 11.

Um sýninguna

Jón E. Guðmundsson - Leikbrúðu- og leiktjaldasýning

Leiksýningar

Íslenska brúðuleikhúsið

Leikbrúður

Jón E. Guðmundsson - Leikbrúður