Helgi Tómasson

Helgi dansar í Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu

Helgi dansar í Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu

Sýning um feril dansarans og danshöfundarins

Helgi Tómasson fæddist 8. október 1942 í Reykjavík en ólst upp í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Tómas Snorrason bakarameistari og Dagmar Helgadóttir. Helgi hóf ungur nám við Listdansskóla Þjóðleikhússins hjá ballettmeisturunum Lísu og Erik Bidsted en fyrsta hlutverk Helga í Þjóðleikhúsinu var Svanurinn í Dimmalimm. Þegar Helgi var 15 ára gamall fór hann til frekara náms í Kaupmannahöfn auk þess sem hann dansaði í Pantomine leikhúsinu í Tivoli. Tveimur árum síðar sá danshöfundurinn Jerome Robbins Helga dansa og hreifst svo af að hann útvegaði homnum styrk svo hann gæti hafið nám í School of American Ballet í New York. Í New York hófst einnig ferill Helga sem atvinnudansara, fyrst hjá Joffrey Ballet, 1962-1964, en 1964 gekk hann til liðs við The Harkness Ballet og varð Helgi einn af aðaldönsurum flokksins á þeim sex árum sem hann starfaði með honum.

Helgi Tómasson keppti í Fyrstu alþjóðlegu balletkeppninni sem haldin var í Moskvu árið 1969 sem fulltrúi Bandaríkjanna og hlaut silfurverðlaunin en Mikhail Baryshnikov hlaut gullið. Fljótlega eftir þetta var Helgi ráðinn til New York City Ballet og dansaði þar við frábæran orðstír í hálfan annan áratug. Helgi dansaði þar aðalhlutverk í fjölmörgum eftirminnilegum sýningum og var einn helsti túlkandi danshöfundanna George Balanchine og Jerome Robbins og hafa þeir báðir skapað mörg hlutverk sérstaklega fyrir Helga.

Helgi Tómasson og Ásdís Magúsdóttir í Giselle

Helgi Tómasson og Ásdís Magúsdóttir í Giselle

Árið 1985 lagði Helgi ballettskóna á hilluna. Hann var þá farinn að starfa sem danshöfundur og stóðu til boða ýmsar stöður, meðal annars við Konunglega ballettinn í Kaupmannahöfn. Helgi kaus að ráða sig í stöðu listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins, elsta starfandi listdansflokks Bandaríkjanna þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Undir stjórn Helga hefur San Francisco-ballettinn náð þeim árangri að vera í hópi bestu dansflokka samtímans, eftirsóttur um allan heim. Sem helsti danshöfundur flokksins hefur Helgi samið fjölda balletta sem fluttir hafa verið á leiksviðum um víða veröld við fádæma góðar undirtektir.

Helgi Tómasson hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verið heiðraður víða um lönd fyrir störf sín í þágu listdansins og m.a. er hann heiðursdoktor við Juillard listháskóloann í New York. Árið 2007 veitti forseti Íslands Helga stórkross hinnar íslensku fálkaorðu en það er æðsta viðurkenning sem lýðveldið veitir einstaklingum. Árið 2009 fékk Helgi heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands "fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu danslistar í heiminum." Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Helga verðlaunin og í ávarpi sínu fór forsetinn stuttlega yfir glæsilegan feril Helga og líkti honum við sigra Halldórs Laxness í ritlist.

Helgi býr í San Francisco ásamt konu sinni, Marlene, sem var dansari í The Joffrey Ballet þegar þau kynntust. Þau eiga tvo syni, Erik og Kris.

Um sýninguna

Helgi Tómasson

Listrænn ferill

Helgi Tómasson - listrænn ferill Smellið á myndirnar til að fá upp sýningarspjald (Pdf-form)