Brúðulistahátíð LeikminjasafnsinsSýning í Heilsuverndarstöðinni á Menningarnótt

Leikminjasafnið stóð fyrir „opnu húsi“ og brúðulistahátíð í gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg á menningarnótt og var hátíðin tileinkuð starfi Jóns E. Guðmundssonar. Var mjög mikil aðsókn allan daginn og komust færri að en vildu á brúðuleikhússsýningarnar sem boðið var upp á. Strengjaleikhúsið undir stjórn Messíönu Tómasdóttur flutti Bláa stúlkan tekur sporið; Brúðuleikhúsið Tíu fingur undir stjórn Helgu Arnalds flutti Mjallhvíti; Fígúra, brúðuleikhús Bernds Ogrodniks, flutti valda kafla úr Umbreytingu; Leikbrúðuland undir stjórn Helgu Steffensen flutti Selinn Snorra og Brúðubíllinn var með dagskrá utanhúss. Ágústa Skúladóttir sá um stjórn og skipulag dagskrárinnar. Auk ofantalinna voru Hallveig Thorlacius, Katrín Þorvaldsdóttir, Latibær og Hinrik Bjarnason fyrir Sjónvarpið þátttakendur í brúðusýningu Leikminjasafnsins. Meginefni sýningarinnar var þó brúður og önnur verk Jóns E. Guðmundssonar sem Leikminjasafnið eignaðist nýverið. Björn G. Björnsson hjá List og sögu ehf sá um hönnun sýningarinnar. Leikminjasafnið var aftur með dagskrá miðvikudaginn 12. september kl. 13-17 í gömlu Heilsverndarstöðinni og gafst þeim sem ekki náðu að koma á brúðulistahátíðina á menningarnótt þá annað tækifæri að sjá þetta lifandi safn.

Þáttttakendur í dagskrá og sögusýningu:

Strengjaleikhúsið (Messíana Tómasdóttir)
Brúðuleikhúsið Tíu fingur (Helga Arnalds)
Fígúra - Brúðuleikhús Bernds Ogrodniks
Leikbrúðuland (Helga Steffensen o.fl.)
Sögusvuntan (Hallveig Thorlacius)
Katrín Þorvaldsdóttir
Brúðubíllinn
Latibær
Sjónvarpið
Brúður Jóns lifna við: Leikbrúðulist Jóns E. Guðmundssonar kynntSjónvarpið

Fyrsta leikbrúða Sjónvarpsins var Krummi, en Hinrik Bjarnason, fyrsti umsjónarmaður Stundarinnar okkar, keypti brúðuna í Þýskalandi. Sigríður Hannesdóttir stjórnaði Krumma frá upphafi 1967 og Rannveig Jóhannsdóttir tók við af Hinriki sem umsjónarmaður. Jón E. Guðmundsson gerði svo Fúsa flakkara 1968 og var hann leikbrúða Stundarinnar okkar næstu tvö árin. Glámur og Skrámur urðu leikbrúður Stundarinnar okkar 1971. Gunnar Baldursson, sem var þá kominn til starfa í Sjónvarpinu og er þar nú forstöðumaður, gerði brúðurnar. Gunnar gerði einnig vinsæla brúðu, Pál Vilhjálmsson, sem Guðrún Helgadóttir skrifaði fyrir og gaf út bók um. Helga Steffensen sá um Stundina okkar um árabil og byggði mikið á brúðum á borð við apann Lilla, sem einnig hefur gert það gott með Brúðubílnum. Keli köttur kom svo til skjalanna 1997 og hundurinn Fjóla ári síðar. Hönnuður þeirra var Ólafur J. Engilbertsson, en Helga Arnalds tók Kela í andlitslyftingu árið 2000 og naut hann ekki síður hylli eftir það.Leikbrúðuland

Helga Steffensen, Bryndís Gunnarsdóttir, Erna Guðmarsdóttir og Hallveig Thorlacius stofnuðu Leikbrúðuland sem var fyrsta brúðuleikhúsið til að vera með fastar sýningar fyrir börn. Lengi hafði Leikbrúðuland aðsetur í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11 og setti þar upp margar vinsælar og nýstárlegar sýningar, m.a. Sálin hans Jóns míns 1980 (leikstjóri Bríet Héðinsdóttir); Tröllaleiki 1983 (leikstjóri Þórhallur Sigurðsson); Mjallhvíti 1988 (leikstjóri Petr Matazek) og Bannað að hlæja 1991 ( leikstjóri Þórhallur Sigurðsson). Leikbrúðuland tók þátt í Reykjavík menningarborg árið 2000 með uppfærstu á Prinsessunni í hörpunni eftir Böðvar Guðmundsson. Petr Matasek gerði brúðurnar og leikstjóri var Þórhallur Sigurðsson. Síðustu uppfærslur Leikbrúðulands eru: Selurinn Snorri 2005 og Vinátta 2007. Leikstjóri beggja sýninga var Örn Árnason. Leikbrúðuland hefur frá stofnun farið margar leikferðir bæði innanlands og utan og tvívegis unnið til verðlauna á Alþjóðlegum brúðuleikhúshátíðum erlendis. Einnig hefur leikhúsið tekið þátt í sýningum hjá Leikfélagi Reykjavíkur (Sögur af Sæmundi fróða) og hjá Þjóðleikhúsinu (Krukkuborg eftir Odd Björnsson og Litla prinsinum eftir Saint Exupéry). Helga Steffensen hlaut fálkaorðuna fyrr á þessu ári fyrir framlag sitt til leiklistar og barnamenningar.

Brúðubíllinn

Helga Steffensen hefur séð um Brúðubílinn frá 1980. Ýmsir brúðustjórnendur hafa starfað með henni. Lengst af Sigríður Hannesdóttir leikkona, Sigrún Erla Sigurðardóttir dagskrárgerðarkona, Vigdís Másdóttir leiklistarnemi o.fl. Síðustu tvö árin Aldís Davíðsdóttir. Brúðubíllinn sýnir á gæsluvöllum og öðrum útivistarsvæðum í Reykjavík í júní og júlí á sumri hverju og ferðast um landsbyggðina í ágúst og september.Sögusvuntan - Hallveig Thorlacius

Sögusvuntan er einsmanns ferðaleikhús Hallveigar Thorlacius sem var stofnað árið 1984. Hún hefur ferðast um allt landið og út fyrir landsteinana með Sögusvuntuna og sagt íslenskar sögur á ýmsum tungumálum. Sögusvuntan hefur verið í Bandaríkjunum, Kanada, á Bretlandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Grænlandi og Færeyjum. Árið 2000 kynnti Hallveig íslenska sagnahefð fyrir bandarískum og kanadískum fjölskyldum á vegum landafundanefndar með sýningunni Minnsta tröll í heimi Leikstjóri:Helga Arnalds sem var sýnd 130 sinnum í 21 borg. Sýningin fór líka til Kína og hefur verið pöntuð til Svíþjóðar og Finnlands. Aðrar sýningar Sögusvuntunnar eru m.a. Prinsessan í skýjaborgum (Leikstjóri: Helga Arnalds); Smjörbitasaga (Leikstjóri: Brynja Benediktsdóttir); Ert þú mamma mín? (Leikstjóri: Bernd Ogrodnik, leikmynd og brúður: Petr Matásek); Jólakötturinn (Leikstjóri: Guðrún Ásmundsdóttir); Loðinbarði (Leikstjórn og leikmynd: Helga Arnalds) og Egla í nýjum spegli (Leikstjórn Þórhallur Sigurðsson).Leikhúsið 10 fingur - Helga Arnalds

Helga Arnalds stofnaði Leikhúsið 10 fingur árið 1994. Þetta er einsmannsleikhús en Helga hefur í gegnum tíðina fengið til liðs við sig ýmsa listamenn til samstarfs við leikhúsið. Allar sýningar leikhússins eru mjög myndrænar og eru byggðar upp með brúðum, grímum og skuggaleikhúsi. En Helga hefur lagt áherslu á að blanda saman hinu hefðbundna leikara leikhúsi og aðferðum brúðuleikhússins. Helga hefur ferðast um allt land með sýningar sínar en auk þess hefur hún sýnt á öllum Norðurlöndunum, á Spáni, í Bandaríkjunum, Kanada, og Ástralíu.

Meðal sýninga leikhússins eru Leifur heppni, Ketilssaga flatnefs, Englaspil, Sólarsaga og Jólaleikur, og samstarfsverkefnið Rauðu skórnir. Helga hefur hannað leikmyndir, brúður og grímur fyrir hin ýmsu leikhús og sjónvarp. Meðal annarra verkefna hennar í leikhúsinu eru Bannað að hlæja eftir Hallveigu Thorlacius hjá Leikbrúðulandi, Ronja Ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren hjá L.R., Gulltáraþöll eftir Gunnar Gunnarsson hjá L.R., Ævintýri um Augastein eftir Felix Bergsson hjá leikhópnum Á senunni og Birtingur eftir Voltaire hjá Herranótt.

Helga hlaut viðurkenningu frá Íslandsdeild IBBY árið 1999 fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.Katrín Þorvaldsdóttir

Katrín Þorvaldsdóttir er brúðugerðarmeistari og hefur hannað fjölda leikmynda og búninga fyrir hinar ýmsu sýningar. Barnasýningar eru hennar sérgrein. Af hennar verkum fyrir leikhús má nefna Snuðru og Tuðru og Langafa prakkara í Möguleikhúsinu og Kardimommubæinn og Snædrottninguna í Þjóðleikhúsinu. Katrín hefur haldið einkasýningar á brúðum og grímum hér heima og erlendis. Hennar uppáhalds efniviður er íslenskur þari, en hún hefur rannsakað hann og sérhæft sig í að nýta hann til brúðu- og grímugerðar. Katrín vann jóladagatal Stöðvar 2 ásamt Bernd Ogrodnik árið 2005. Hún gerði búninga fyrir Eldhús eftir máli og var tilnefnd til Grímunnar - Íslensku leiklistarverðlaunanna árið 2006 fyrir þá vinnu. Katrín hannaði allt útlit annarrar sýningar sem var tilnefnd til Íslensku leiklistarverðlaunanna, Skoppu og Skrítlu, sem sýnd var 2006 í Þjóðleikhúsinu. Auk þess að hanna útlit fór Katrín með hlutverk í sýningunni.Fígúra - Brúðuleikhús Bernds Ogrodniks

Bernd Ogrodnik hefur getið sér gott orð fyrir listsköpun sína víða um lönd. Auk þess að semja og sýna brúðusýningar býr hann til brúður, gerir leikmynd og semur og flytur tónlist. Bernd hefur ferðast víða um heim með brúðusýningar sínar og haldið fyrirlestra á alþjóðlegum leiklistarhátíðum, ráðstefnum og í háskólum. Bernd er fæddur í Þýskalandi, en býr nú í Skíðadal í Eyjafirði þar sem hann hefur komið sér upp vinnuaðstöðu. Fyrsta verkefni hans á sviði brúðustjórnunar hér á landi var í kvikmyndinni Pappírs-Pésa 1987. Bernd var yfirbrúðumeistari dönsku kvikmyndarinnar Strings sem frumsýnd var 2003 og byggir alfarið á brúðuleik. Hann sá um brúðugerð og brúðustjórnun í Klaufum og kóngsdætrum í Þjóðleikhúsinu 2005. Sýning hans Umbreyting - ljóð á hreyfingu, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í maí 2006 og nýjasta verk hans, Pétur og úlfurinn, var sýnt þar vorið 2007 og fékk sýningin tilnefningu til Grímunnar sem besta barnaleiksýning ársins. Bernd gerði einnig brúður fyrir Ronju ræningjadóttur í Borgarleikhúsinu og Litlu hryllingsbúðina hjá Leikfélagi Akureyrar. Árið 2006 veitti Íslandsdeild IBBY Bernd viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi. Bernd vinnur nú að kvikmynd í fullri lengd, um tröllastrákinn Nóma, sem tekin er upp að nær öllu leyti í íslenskri náttúru.Strengjaleikhúsið - Messíana Tómasdóttir

Messíana Tómasdóttir kallar leikhús sitt Strengjaleikhúsið, en þar er vísað til strengja í brúðum og hljóðfærum. Hún hefur samið og frumflutt leikbrúðuverk þar sem hún og aðrir leikarar eru sýnilegir, en lítt áberandi og falla sem mest inn í bakgrunn. Þannig var t.d. sýning Messíönu á Bláu stúlkunni á Kjarvalsstöðum árið 1983, en Messíana var borgarlistamaður við gerð þeirrar sýningar. Í öðrum sýningum Messíönu hafa brúðustjórnendur haft skýr hlutverk í sýningunum auk þess að stjórna brúðunum. Messíana hefur gjarnan byggt verk sín á tónlist og samdi Karólína Eiríksdóttir tónlist við Bláu stúlkuna, sögu um klofning milli veruleika og drauma, ytra og innra lífs. Bláa stúlkan var einnig tekin upp og flutt í Sjónvarpinu hér heima og á Norðurlöndunum. Messíana samdi einnig brúðuleikinn Sjö spegilmyndir 1987 og ásamt Karólínu Eiríksdóttur og Árna Ibsen óperuleikinn Maður lifandi árið 1999, en þar voru notaðar fjölmargar grímur og brúður. Árið 2006 setti Strengjaleikhúsið upp óperuna Skuggaleik eftir Karólínu Eiríksdóttur og Sjón í Íslensku Óperunni og sá Messíana um leikstjórn. Þar voru notaðar brúður í mannsstærð. Það er sjötta íslenska óperan sem Strengjaleikhúsið hefur frumflutt.Latibær

Magnús Scheving er höfundur sjónvarpsþáttaraðarinnar um Latabæ. Magnús gaf út bókina Áfram Latibær árið 1995 og síðar tvær aðrar bækur um Latabæ. Leikgerð var sett á svið í Loftkastalanum og síðar í Þjóðleikhúsinu. Í Latabæ býr hinn fríski og fjörugi Íþróttaálfur sem fer í loftköstum um bæinn og hjálpar Sollu stirðu að velja alltaf þá kosti sem stuðla að heilbrigðu líferni, en láta óhollustuna eiga sig í baráttu við latasta ofurþrjót í heimi, sjálfan Glanna glæp. Í Latabæjarþáttunum er teflt saman tölvumyndum, brúðum og lifandi leikurum. Þættirnir hafa verið sýndir í Bandaríkjunum og víðar erlendis um nokkurt skeið og notið mikilla vinsælda. Sjónvarpsþáttaröðin Latibær fékk árið 2006 bresku BAFTA-verðlaunin í flokki barnaefnis en Latibær var útnefndur besta alþjóðlega barnasjónvarpsefnið. Guðmundur Þór Kárason er höfundur upphaflegu leikbrúðanna í Latabæ og Snorri Freyr Hilmarsson höfundur leikmyndar.

Um sýninguna

Brúðulistahátíð Leikminjasafnsins

Sýningarskrá

Brúðulistahátíð - Sýningarskrá (pdf-skjal - opnast í nýjum glugga)