Sigurður Pétursson (1759-1827)

Þó að Sigurður Pétursson sýslumaður yrði ekki fyrstur til að skrifa leikrit á íslensku, er hann jafnan talinn faðir íslenskrar leikritunar. Hann samdi aðeins tvö leikrit: Slaður og trúgirni (Hrólfur), og Narfi eður sá narraktugi biðill. Þau voru fyrst sýnd af skólapiltum í Hólavallarskóla í Reykjavík á síðasta áratug 18. aldar. Þetta eru gamanleikir, ádeilur á aulahátt, lesti og skort Íslendinga á þjóðernislegri tilfinningu. Báðir eru samdir undir sterkum áhrifum frá verkum danska gamanleikskáldsins Ludvigs Holberg (1684-1754) sem Sigurður kynntist á námsárum sínum í Danmörku.

Sigurður Pétursson Sigurður var Fljótsdælingur, fæddur á Ketilsstöðum á Völlum þar sem faðir hans var sýslumaður. Hann fór ungur með föður sínum út til Danmerkur og stundaði þar nám í Hróarskelduskóla og síðar Hafnarháskóla. Þaðan lauk hann lögfræðiprófi um þrítugt og fékk þá veitingu sem sýslumaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann var ágætlega skáldmæltur og er obbinn af kveðskap hans af gamansömu tagi. Flest eru það lausavísur, en þó er þar einnig skopkvæðið Stellurímur. Sigurður gat verið mikill háðfugl og það svo að undan sveið.

Sigurður sagði af sér embætti árið 1803. Hann starfaði ekki neitt eftir það og var til heimilis hjá vini sínum, Geir biskupi Vídalín, til dauðadags árið 1827, síðustu árin á Nesi við Seltjörn. Hann kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Leikrit hans tvö voru aðeins einu sinni endursýnd um hans daga, svo vitað sé; á árunum 1813-1815 og var það danski málfræðingurinn og Íslandsvinurinn Rasmus Kristian Rask sem stóð að þeim sýningum. Þær fóru fram í landsyfirréttarhúsinu í Reykjavík (á horni Vallarstrætis og Hallærisplansins núverandi). Hermt er að Sigurður hafi lánað Rask leikbúning til að nota í sýningu á gamanleik Holbergs Jacob von Tyboe og eru það síðustu afskipti hans sem er vitað um af leiklistinni.

Leikrit Sigurðar og ljóðmæli voru ekki gefin út í heild fyrr en árið 1846. Þau voru leikin oft og víða um land á 19. öld og jafnvel fram eftir þeirri tuttugustu, einkum Narfi sem ber af öllu sem áður hafði verið skrifað af því tagi á íslensku. Til dæmis má nefna að það var fyrsta íslenska leikritið sem leikið var á Ísafirði árið 1857 og á Akureyri árið 1862.

Sem skáld var Sigurður barn upplýsingarstefnunnar. Hann vildi gera gagn með skáldskapnum, bæta heiminn með því að segja honum sannleikann um sjálfan sig. Kómíkin átti, samkvæmt forskrift hins klassíska gamanleiks, að bragðbæta mixtúruna, hjálpa mönnum til að kyngja hinum beisku sannindum. Þannig markaði Sigurður Pétursson íslenskri leikritun ákveðna stefnu. Það sem var skrifað leikritakyns á fyrri hluta 19. aldar var ekki mikið að vöxtum, en það var þó meira en margur kynni að halda og flest í anda Sigurðar og upplýsingarinnar. Það er ekki fyrr en Sigurður málari og Matthías Jochumsson koma til sögunnar að nýir straumar flæða inn á sviðið.

Heim.: Lárus Sigurbjörnsson, Upphaf leiklistar í Reykjavík í Þættir úr sögu Reykjavíkur (Reykjavík 1936), Steingrímur J. Þorsteinsson, Upphaf íslenskrar leikritunar (Reykjavík 1941), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)