Þorvarður Þorvarðsson (1869-1936)

Þorvarður Þorvarðsson var prentari að mennt og einn af brautryðjendunum í kjara- og réttindabaráttu iðnaðar- og verkalýðsstéttarinnar. Hann var stórbóndasonur úr Hvalfirðinum og sat um hríð í Reykjavíkurskóla, en lauk ekki prófi þaðan, heldur lagði fyrir sig prentiðn sem hann nam m.a. í Kaupmannahöfn. Hann sat í stjórn Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur og var fyrsti forseti Hins íslenska prentarafélag sem var stofnað árið 1897. Í bæjarstjórn Reykjavíkur sat hann frá 1912 til 1924. Árið 1905 varð hann forstjóri Gutenbergs-prentsmiðju sem var eitt öflugasta prentfyrirtæki landsins um langan aldur. Þorvarður var mjög róttækur í skoðunum og einn af fyrstu málsvörum sósíalismans hér á landi.

Þorvarður Þorvarðsson Var Gutenbergsprentsmiðjan að vissu leyti stofnuð til höfuðs þeim prentsmiðjum sem fyrir voru, einkum Ísafoldarprentsmiðju, og var Þorvarður aðalforgöngumaður þess fyrirtækis. Þá fékkst hann um skeið við blaða- og tímaritaútgáfu og reyndi m.a. fyrstur manna að gefa út sérstakt bæjarblað í Reykjavík, byggt á auglýsingum.

Þorvarður tók snemma mikinn þátt í starfi Góðtemplarareglunnar í Reykjavík. Þar gekk hann leiklistinni fyrst á hönd. Þeir Borgþór Jósefsson, sem síðar kvæntist Stefaníu Guðmundsdóttur, voru góðir vinir, enda hafði Borgþór verið trúlofaður systur Þorvarðar sem fórst í sjóslysi. Þó að Þorvarður þætti aldrei mikill leikari var hann einn þátttakenda í hópnum, sem myndaðist í kringum Stefaníu í Gúttó. Eftir að Iðnaðarmannafélagið hafði reist samkomuhús með rúmgóðu sviði, Iðnó, árið 1896 beitti Þorvarður sér fyrir því að ná saman helstu leikurum bæjarins í leikfélagi. Það var Leikfélag Reykjavíkur sem var stofnað 11. janúar 1897. Vitaskuld höfðu ýmsir unnið að því að skapa þann jarðveg sem L.R. spratt upp úr, ekki síst Indriði Einarsson, en það var Þorvarður sem dró þyngsta hlassið þegar kom að því að búa til starfhæft leikfélag.

Þorvarður varð fyrsti formaður L.R. og gegndi því embætti til 1904. Hann varð í raun leikhússtjóri Leikfélagsins og þá fyrsti leikhússtjóri á Íslandi sem er vel hægt að nefna því nafni. Starf hans var ekki alltaf auðvelt og hann þurfti, ásamt félögum sínum, að sigla félaginu í gegnum ýmsa brotsjói. Opinberir styrkir til L.R. voru engir í upphafi og fjárhagsstaðan oftast mjög slæm. Samstaðan, sem var í upphafi, reyndist brothætt þegar fram í sótti; t.d. urðu snemma veruleg átök um launagreiðslur til leikenda sem hefðu getað riðið starfinu að fullu. Í upphafi var sem sé mörkuð sú stefna að allir skyldu fá sömu laun, sama hversu stór hlutverk þeirra væru, en þegar til lengdar lét reyndist hún ekki raunhæf. Það gat jafnvel gerst að óánægðir leikarar semdu við stjórn Iðnaðarmannafélagsins, sem átti leikhúsið, um að fá að sýna á eigin vegum. En Þorvarður tók á þessum málum öllum af lipurð og festu í senn, því að hann var laginn í samskiptum, og leitaðist jafnan við að ná sáttum. Hann trúði staðfastlega á málstað leikhússins og lét úrtölumenn ekki draga úr sér kjark. Þegar menn voru við að gefast upp eftir þriggja ára starf árið 1900 og háværar raddir uppi um að hætta við þetta allt saman, lét stjórn félagsins ekki deigan síga, heldur ákvað að þreyja þorrann og góuna.

Verkefnaskrá L.R. allra fyrstu árin einkenndist mjög af dönsku eða danskættuðu léttmeti, gamanleikjum með söngvum sem reykvískir áhorfendur kunnu vel. Vandlátir gagnrýnendur fundu mjög að þessu leikritavali, en leikhúsið gat ekki horfið frá því eins og ekkert væri; það þurfti auðvitað líka að hugsa um kassann. En forysta félagsins sýndi brátt að hún hefði fullan vilja til að gera betur og veita nýrri straumum framrás. Raunsæisleg melódrömu af því tagi, sem þá voru í tísku í evrópsku leikhúsi, voru tekin á verkefnaskrána og gáfu sum ungum og lítt reyndum leikurum L.R. góð tækifæri. Það átti ekki síst við um leiki Hermanns Sudermann, Heimkomuna (1900) og Heimilið. Þorvarður stóð ekki einn fyrir þessari stefnubreytingu; í raun og veru hélt hann sig alltaf dálítið til hlés, en hann kunni þá list að velja sér samstarfsmenn. Það voru engin smámenni sem lögðu félaginu lið á þeim tíma sem hann sat við stjórnvölinn; ýmsir af fremstu gáfumönnum þjóðarinnar á borð við Einar H. Kvaran, sem var leiðbeinandi (leikstjóri) hópsins frá 1898 til 1901, Jón Jónsson Aðils, sem þótti mjög glæsilegur leikari en ákvað brátt að fórna leiklistinni fyrir sagnfræðina, og Bjarni Jónsson frá Vogi sem var maðurinn á bak við sýninguna á Heimilinu, þar sem Stefanía Guðmundsdóttir kom fyrst fram í stóru dramatísku hlutverki. Þetta voru allt gagnmenntaðir bókmenntamenn sem vissu hvað mætti bjóða bæði leikurum og áhorfendum: verk með tiltölulega einfaldri persónusköpun, ljósri sögu og ádeilubroddi á lesti og samfélagsspillingu. Það var gæfa L.R. að njóta slíkra krafta og það hefði það ekki gert, hefði aðalforystumaður félagsins ekki þekkt sinn vitjunartíma.

Á aðalfundi L.R. árið 1904 var Þorvarður felldur í formannskjöri af Árna Eiríkssyni leikara sem gegndi eftir það formennsku í L.R. í mörg ár. Tildrögin eru ekki að öllu leyti ljós og má vera að þau hafi verið persónulegs eðlis; a.m.k. er ekki vitað til að Þorvarði hafi orðið á í embættisfærslu sinni eða ágreiningur hafi verið um framkvæmdir eða stefnu. Vel má vera að Árni og aðrir helstu leikarar félagsins hafi einfaldlega talið eigin hlut og leikhússins best borgið, ef þeir hefðu meiri hönd í bagga um val verkefna og um leið eigin hlutverka. Sjálfur var Þorvarður mjög ósáttur við þessar málalyktir, birti reiðilega dóma um næstu sýningar L.R. í blaði sínu Nýja Íslandi og starfaði aldrei síðan með L.R. Löngu síðar var hann þó gerður að heiðursfélaga þess og hafa fáir verið betur að þeirri viðurkenningu komnir.

Heim.: Jón Guðnason, Þorvarður Þorvarðsson (1869-1936) í Íslenskir athafnamenn (Reykjavík 1939)