Matthías Jochumsson (1835-1920)

Matthías Jochumsson var tuttugu og sjö ára gamall nemandi í Lærða skólanum í Reykjavík þegar hann samdi Útilegumennina. Þeir voru frumsýndir árið 1862 í Gildaskálanum eða Nýja klúbbi og gefnir út á bók tveimur árum síðar. Ekkert íslenskt leikrit hefur notið slíkra vinsælda sem þessi leikur hans um samskipti og átök byggðamanna við hóp útilegumanna undir forystu hins tröllaukna Skugga-Sveins. Matthías endurskoðaði leikinn nokkrum sinnum og kom endanleg gerð hans út árið 1898 undir heitinu Skugga-Sveinn.

Matthías Jochumsson Matthías hafði kynnst danskri leiklist þegar hann dvaldist veturinn 1856-57 við verslunarnám í Kaupmannahöfn. Hann varð fyrir miklum áhrifum frá skáldum á borð við Shakespeare og Schiller, auk þess sem bent hefur verið á sterk líkindi með Útilegumönnunum og norska söngvaleiknum Fjeldeventyret eftir H.A. Bjerregaard. Matthías hafði næma tilfinningu fyrir skapgerðareinkennum og málfari íslenskrar alþýðu sem glöggt má sjá í leikriti hans. Það munu þó ekki síst hafa verið kvæðin, sem eru fléttuð inn í leikinn og samin við lög úr danska leiknum Elverhöj eftir J.L. Heiberg, sem áttu þátt í vinsældum hans. Þau voru sungin í öllum húsum Reykjavíkur næstu ár á eftir frumsýningunni og með þeim varð Matthías fyrst þjóðfrægt skáld.

Matthías Jochumsson var mestan hluta starfsævi sinnar sóknarprestur, nema hvað hann var ritstjóri Þjóðólfs í nokkur ár á áttunda áratugnum. Á þeim tíma voru sýndir í Reykjavík þrír erlendir leikir í þýðingu hans eða endurgerð: Misskilningur, þýðing á enska gamanleiknum She stoops to conquer eftir Oliver Goldsmith (1878), Den tredje eftir J.C. Hostrup (1878) og Aprílsnarrarnir eftir J.L.Heiberg (1879). Árið 1875 sýndu skólapiltar einnig einþáttunginn Hinn sanna þjóðvilja sem forleik að Den politiske Kandestöber eftir Holberg. Segir þar frá ritstjóra sem fær heimsókn manna með ólíkustu skoðanir og er leikurinn gagnrýni á sundurþykki og einstrengingshátt í stjórnmálum, en sjálfum var Matthíasi legið á hálsi fyrir skort á stefnufestu. Kannski hafði hann of mikið af þeim hæfileika leikskáldsins að geta sett sig í spor ólíkra manna, lifað sig inn í ólík og andstæð sjónarmið. Árið 1886 lék Gleðileikjafélagið í Glasgow Vesturfarana, þriggja þátta leik saminn til að vara menn við vesturferðum. Í báðum þessum leikjum tekur skáldið til meðferðar samtíðarefni og vill að hlustað sé á sig.

Matthías fluttist til Akureyrar árið 1887 og bjó þar síðan til æviloka. Þau ár mátti hann heita ókrýndur konungur íslenskrar skáldlistar. Hús sitt nefndi hann Sigurhæðir og var nafnið að sjálfsögðu táknrænt; sjálfur orti hann um þá ógurlegu andans leið sem að lokum leiddi manninn upp á sigurhæðir tilverunnar. Þó að Matthías næði ekki upp á þær sigurhæðir dramatískrar listar, sem hann dreymdi um, sýndi hann enn sem fyrr hversu ríkar taugar hann hafði til leikhússins. Fyrsta leikverkið sem hann samdi á Akureyri var Helgi hinn magri, sögulegur sjónleikur um fyrsta landnámsmann Eyjafjarðar og var hann fluttur í minningu þúsund ára byggðarafmælis Eyjafjarðar árið 1890. Telst leikurinn fyrsti söguleikur íslenskra leikbókmennta, en leikir um söguleg efni voru ein vinsælasta grein evrópskra leikbókmennta á 19. öld. Fáein tækifærisverk önnur samdi Matthías á Akureyrarárunum: Aldamót, ljóðaþátt með söngvum og kórum í skrautsýningu í tilefni aldamótanna, og leikþáttinn Taldir af, sem var gerður handa Ekknasjóði Eyjafjarðar og Akureyrarbæjar árið 1901. Ekki má heldur gleyma leikritaþýðingum hans: á fjórum leikritum Shakespeares - Hamlet, Rómeó og Júlíu, Macbeth og Othello - Manfred eftir Lord Byron og Brandi Ibsens. Engin þeirra komst á svið um hans daga, en þýðingin á Manfred er ein af glæsilegustu þýðingum íslenskra bókmennta.

Metnaðarfyllsta leikrit Matthíasar var Jón Arason (1900), sögulegur harmleikur sem fjallar um aðdragandann að falli Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi. Hann hafði lengi haft hug á því að semja þetta verk, en ekkert varð af því fyrr en veturinn 1896-97. Samdi hann verkið bæði á íslensku og dönsku og reyndi talsvert til að koma því á framfæri erlendis; sendi t.d. danska bókmenntapáfanum Georg Brandes, sem hann var í kunningsskap við, það til yfirlestrar og reyndi að fá það þýtt á þýsku. Aldrei fékk Matthías þó að sjá þetta verk sitt á sviði; það var fyrst flutt í íslenska Ríkisútvarpinu árið 1943 og á sviði í Þjóðleikhúsinu árið 1974.

Það er auðvelt að benda á margvíslegar takmarkanir, galla og veilur, á leikritum Matthíasar. Hann hafði fremur lítið vald á dramatískri frásagnartækni og persónusköpunin var oft klisjukennd og melódramatísk. En það breytir ekki því að Matthías er eitt mesta skáld sem skrifað hefur leikrit á íslensku og að skáldandi hans blæs á köflum slíku lífi í persónulýsingarnar að við fátt verður jafnað. Honum tekst að gera illmennið Skugga-Svein mannlegan í einangrun sinni og yfirmannlegri þjáningu og lýsing hans á andlegum undirbúningi Jóns Arasonar undir aftökuna er borin uppi af djúpum skilningi á hugarfari þess manns sem af ást á Kristi reynist tilbúinn að fórna blóði sínu.

Íslenskt leikhús var í raun og veru aðeins draumur alla nítjándu öld. En fáir áttu meiri þátt í því að gera þann draum að veruleika en Matthías. Þjóðin tók Skugga-Svein að hjarta sínu og fékk sig aldrei fullsadda; sum byggðarlög áttu jafnvel sérstaka leikara sem áratugum saman þóttu sjálfkjörnir til að leika aðalhlutverkið. Leikurinn hafði einnig sterk áhrif á þau skáld sem komu í kjölfarið, s.s. Indriða Einarsson og Jóhann Sigurjónsson, sem báðir sáu hann ungir og urðu djúpt snortnir. Ef einhver einn maður á skilið að kallast faðir íslensks leikhúss, þá er Matthías Jochumsson sá maður.

Heim.: Matthías Jochumsson, Sögukaflar af sjálfum mér (Reykjavík 1922), Steingrímur J. Þorsteinsson, Um leikrit Matthíasar Jochumssonar í Matthías Jochumsson, Leikrit (Reykjavík 1961), Sveinn Einarsson, Íslensk leiklist I (Reykjavík 1991)