Um Íslenska leikhúsmenn

Varðandi þá þætti íslenskra leikhúsmanna, sem hér eru birtir, skal þrennt tekið fram:

1) Þeir fjalla einkum um leikhússtarf einstaklinganna. Margir þeirra sinntu einnig ýmsum störfum, en á þau er oftast drepið mjög lauslega. Hér er því ekki um tæmandi ævilýsingar að ræða. Um skáldin og verk þeirra er t.d. ekki fjallað bókmenntalega, nema þá mjög takmarkað. Sum þeirra störfuðu lítið við leiksvið, önnur létu þar mjög að sér kveða og mörkuðu sín spor í leiklistarsöguna. Gott dæmi um hið síðarnefnda eru Indriði Einarsson og Einar H. Kvaran. Á hinn bóginn eru svo menn eins og Matthías Jochumsson og Jóhann Sigurjónsson sem voru umfram allt skrifborðshöfundar og komu lítt að almennri leikhúsvinnu. Báðir hafa þó haft svo djúpstæð áhrif á íslenskt leikhús með bestu leikritum sínum að það hefði verið fráleitt að sleppa þeim í yfirliti sem þessu.

2) Þættirnir eru fyrst og fremst ætlaðir til almennrar kynningar og því sleppt að vísa beint í heimildir. Aftan við þá er aðeins getið þeirra almennu ritsmíða, sem mest hefur verið sótt í, fyrir þá lesendur sem vildu afla sér ítarlegri fróðleiks. Í flestum tilvikum er mjög stuðst við leikdóma og önnur blaðaskrif sem höfundur hefur safnað um árabil, einkum auðvitað eftir að komið er fram á 20. öld. Þá er stuðst við almenn mannfræðirit s.s. Íslenskt skáldatal, Merka Íslendinga, Hver er maðurinn?, Íslenska samtíðarmenn o.fl. án þess þess sé getið sérstaklega.

3) Einstaklingarnir, sem um er fjallað, eru einkum valdir með tilliti til áhrifastöðu þeirra. Þetta eru því höfundar, leikstjórar eða fólk sem hefur lent í einhvers konar forystuhlutverki, formlegu eða óformlegu, og sem slíkt haft ótvíræð mótunaráhrif á þróun listgreinarinnar. Tímamörk eru dregin við 1920, þ.e. þá kynslóð leikhúsfólks sem tók fyrstu skrefin í átt til atvinnuleikhússins, en komst ekki á leiðarenda. Síðar verður bætt við þáttum af öllum helstu burðarleikurum íslensks leikhúss fram yfir miðja síðustu öld.

Sigurður Pétursson

Þó að Sigurður Pétursson sýslumaður yrði ekki fyrstur til að skrifa leikrit á íslensku, er hann jafnan talinn faðir íslenskrar leikritunar

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson er einn af mestu tímamótamönnum íslenskrar leiklistarsögu og innleiddi fagmennsku í leiktjalda og búningagerð

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson ritstjóri var einn helsti stuðningsmaður Sigurðar málara og stóð fyrir opinberum leiksýningum í Gildaskálanum

Matthías Jochumsson

Matthías Jochumsson var tuttugu og sjö ára gamall nemandi í Lærða skólanum í Reykjavík þegar hann samdi Útilegumennina

Valgarður Ó. Breiðfjörð

Valgarður Ó. Breiðfjörð má teljast til íslenskra leikhúsmanna fyrir þær sakir að hann lét reisa fyrsta leikhúsið í Reykjavík

Indriði Einarsson

Indriði var óvenju alhliða leikhúsmaður, skrifaði leikrit og setti á svið bæði eigin verk og annarra og getur því kallast fyrsti íslenski leikstjórinn

Þorvarður Þorvarðsson

Þorvarður var prentari og leikari, einn helsti hvatamaður að stofnun Leikfélags Reykjavíkur 1897 og fyrsti formaður LR

Einar H. Kvaran

Einar H Kvaran rithöfundur beitti sér fyrir því að Vestur-Íslendingar settu upp leiksýningar en á Íslandi starfaði hann sem leikstjóri og gagnrýnandi

Stefanía Guðmundsdóttir

Stefanía Guðmundsdóttir var í senn fremsta leikkona Íslands um sína daga og einn helsti burðarás Leikfélags Reykjavíkur

Jóhann Sigurjónsson

Jóhann Sigurjónsson samdi sex leikrit og tvö þeirra, Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur, teljast til klassískra íslenskra leikhúsverka

Guðmundur Kamban

Guðmundur Kamban er fyrsti Íslendingurinn sem stundar leikstjórn sem atvinnu en hans er helst minnst sem leikskálds sem haslaði sér völl erlendis