Saga Tjarnarbíós

Tjarnarbíó og Leikminjasafn Íslands hafa tekið höndum saman um að skrásetja sögu Tjarnarbíós og nú hefur fyrsti hluti sögusýningar um húsið litið dagsins ljós í gamla anddyrinu.

Tjarnarbíó á sér stórmerkilega sögu, það var byggt sem íshús 1913 en breytt í kvikmyndahús 1942. Það hefur verið vettvangur dans og leiksýninga, tónleika og allskonar uppákoma og Háskólinn notaði það sem fyrirlestrasal um tíma. Kvikmyndaklúbburinn Filmía var stofnaður í húsinu árið 1953 en hann var fyrsti kvíkmyndaklúbbur á Íslandi og seinna hafði Fjalakötturinn þar bækistöðvar sínar. Ýmsir leikhópar tengjast Tjarnarbíói t.d. Gríma, Íslenska brúðuleikhúsið, Light Nights, Svart og sykurlaust og Litla leikfélagið sem var stofnað sem vettvangur fyrir leiklistarnema Leikfélags Reykjavíkur og setti það m.a. upp poppleikinn Óla. Nú er Tjarnarbíó heimkynni Sjálfstæðu leikhúsanna og reksturinn í höndum Menningarfélags Tjarnarbíós.  

Á myndini eru þau Björn Georg Björnsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Martin L. Sörensen, Kolbrún Halldórsdóttir, Benóný Ægisson, Jón Viðar Jónsson og Jón Þórisson við afhjúpun fyrsta sýningarspjaldsins.