Ráðstefna og aðalfundur NCTD

Ráðstefna og aðalfundur NCTD fór fram í Stokkhólmi dagana 9.-10. maí og var fundarstaðurinn í Sviðslistasafninu (Scenkonstmuseet) sem er í gömlu virki við hliðina á Dramaten, sænska þjóðleikhúsinu. NCTD (Nordisk Center for Teater Dokumentation) eru samtök safna og sviðslistastofnana sem sérhæfa sig í varðveislu á leikminjum og skráningu á sögu sviðslista. Ráðstefnugestir voru 24 talsins frá fjórum Norðurlöndum og 12 stofnunum. Fulltrúar voru frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi, enginn fulltrúi kom frá Danmörku í þetta sinn en Finnar sendu fjóra fulltrúa en þeir hafa ekki tekið þátt í starfi samtakanna um nokkurt skeið. Fulltrúi Íslands var Benóný Ægisson.

Það má segja að Ibsen hafi leikið stórt hlutverk á ráðstefnunni sem fór fram fyrri daginn en tveir fyrirlestrar voru um verk hans. Dag Kronlund fjallaði um uppfærslur á Dramaten á verkinu John Gabriel Borkman í gegnum tíðina, hvernig leikmyndin með stórum þungum húsgögnum hefur vikið fyrir einfaldari og tæknilegri sviðslausnum þar sem lýsing er meira notuð til að skapa umhverfi en áþreifanleg leikmynd. Horfin er þrjátíu manna hljómsveitin sem flutti leikhústónlist eftir Grieg og öll er uppfærslan mannfærri en þegar verkið var frumsýnt um aldamótin 1900. Bent Kvalvik frá Landsbókasafninu í Osló bar saman kvikmyndaðar senur úr verkum Ibsen, annarsvegar frá 1937 en hinsvegar frá lokum 20. aldar og var gaman að sjá hvernig leikstíll hafði breyst en leikur í gömlu upptökunum bar skiljanlega mikinn svip af sviðsleik eins og hann var á fyrri hluta 20. aldar. Magnus Blomkvist flutti síðasta fyrirlesturinn en hann var um sögu dansins, hvernig mætti varðveita hann og skrásetja og hvernig mætti endurskapa gamla dansa eftir lýsingum og gömlum myndum.

Dagskránni fyrri daginn lauk með því að David Berner kynnti starfsemi Sviðslistasafnsins og sagði frá tildrögum þess að það var stofnað en síðan var farið í skoðunarferð um safnið. Scenkonstmuseet er helgað sögu sviðslista, leiklistar, tónlistar og dans. Þetta er nútímalegt safn með mikilli gagnvirkni og afskaplega barnvænt. Fyrir utan ýmsa muni, skjöl myndir, brúður og annað sem var á sýningu, gafst fólki kostur á að setja sig í spor leikara og dansara, skoða ýmsa dansstíla eftir dansskónum sem notaðir voru og klæða sig í leikbúninga svo nokkuð sé nefnt.

Seinni daginn var svo aðalfundur NCTD. Þá sögðu þátttakendur frá því sem helst er að gerast í leikminjavörslu í hverju landi og hjá sínum stofnunum. Flestar stofnanir vinna nú að því að koma sínum gögnum á tölvutækt form og gera gagnagrunna um leiklistarsögu sína. Rætt var um að koma Bláu bókinni svokölluðu á vef samtakanna en Bláa bókinn var listi yfir leikminjasöfn á Norðurlöndum og aðrar stofnanir sem skrásetja sviðslistasögu. Stofnuð var nefnd með einum fulltrúa frá hverju landi til að safna þeim upplýsingum saman. Rætt var um að efna til farandsýningar með leikminjum frá öllum löndunum sem gæti farið um Norðurlönd og væri þá hægt að bæta innlendum sýningargripum við hana á hverjum stað. Rikhard Larsson tók að sér að vera talsmaður NCTD og Hege Rød Segerblad heldur utan um fjármál samtakanna fram að næsta aðalfundi sem verður á Íslandi 2019.