Þráinn Karlsson látinn

Þráinn Karlsson, leikari
f. 24. maí 1939 – d. 22. maí 2016

Þráinn Karlsson fæddist á Akureyri 24. maí 1939. Foreldrar hans voru Karl Valdimar Sigfússon og Vigfúsa Vigfúsdóttir. Þráinn lauk námi í járnsmíði við Iðnskóla Akureyrar og hjá Vélsmiðjunni Atla árið 1959 og meistaranámi í sama fagi 1969. Þráinn kvæntist Ragnheiði Garðarsdóttur 25. maí 1968 og eignuðust þau tvær dætur, Rebekku, rússneskufræðing,háskólakennara við HÍ, f. 1. nóvember 1968 og Hildigunni, leikkonu og ritstjóra, f. 7. maí 1970. Stjúpdóttir Þráins er Kristín Konráðsdóttir, starfskona á Háskólabókasafni Akureyrar, f. 11. maí 1960. Þráinn stundaði framan af ýmis störf, var m.a. til sjós í nokkur ár en hóf svo störf hjá Slippfélagi Akureyrar þar sem hann starfaði þar til hann snéri sér alfarið að leiklist.

Þráinn lék sitt fyrsta hlutverk hjá Leikfélagi Akureyrar leikárið 1955-56 í leikritinu Úlfhildur eftir Pál H. Jónsson í leikstjórn Jóns Norðfjörð. Næstu ár leikur hann af og til allmörg hlutverk, stór og smá, hjá Leikfélagi Akureyrar. Það er svo árið 1969 þegar Sigmundur Örn Arngrímsson og Arnar Jónsson koma til starfa hjá leikfélaginu að straumhvörf verða í lífi Þráins. Hann leikur þrjú hlutverk leikárið 1969-70. Eftirminnileg er túlkun hans á Charlie Brown í „Þið munið hann Jörund” eftir Jónas Árnason í leikstjórn Magnúsar Jónssonar. Þráinn  ákvað svo að segja skilið við leiklistina, en þegar Magnús Jónsson mætti aftur til leiks hjá LA vorið 1971 , nú til að leikstýra Túskildingsóperunni eftir Berthold Brecht og Kurt Weill, stóðst hann ekki mátið og tók að sér hlutverk John Brown, lögrelusjóra. Það markaði upphaf samstarfs þeirra Arnars Jónssonar, sem átti eftir að verða langt og farsælt.

Nú var orðið ljóst að í Þráni var á ferðinni leikari sem ekki mátti hverfa af sviðinu og því hafði Magnús Jónsson, sem 1972 var ráðinn leikhússtjóri hjá LA, forgöngu um að fastráða hann hjá leikfélaginu. Að vísu ekki sem leikara í fullu starfi heldur sem leiksviðsstjóra og leiktjaldasmið. Auk þess lék hann í flestum sviðsetningum vetrarins. Þessi háttur var hafður á þar til það spor var stigið haustið 1973 að Leikfélag Akureyrar var gert að atvinnuleikhúsi  undir stjórn Magnúsar. Þráinn var í hópi fyrstu fastráðinna leikara Leikfélags Akureyrar. Jafnframt átti hann sæti í stjórn þess. Þráinn lék hvert hlutverkið á fætur öðru  leikárin 1973-75.

Alýðuleikhúsið var stofnað árið 1975 og var Þráinn einn af stofnendum þess og lék í báðum uppsetningum  norðandeildar, Krummagulli og Skollaleik, eftir Böðvar Guðmundsson, í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Alþýðuleikhúsið sýndi bæði verkin um allt land og fór með þau í langar leikferðir um Norðurlönd. Bæði voru tekin upp fyrir sjónvarp.

Haustið 1978 hvarf Þráinn aftur til starfa hjá Leikfélagi Akureyrar þar sem hann starfaði nær óslitið þar til að hann fór á eftirlaun, að undanskildu árinu 1980 þegar hann fór til Reykjavíkur og lék hjá Þjóðleikhúsi og Alþýðuleikhúsi – sunnandeild og 1995-96 þegar hann var útnefndur bæjarlistamaður Akureyrar. Þráinn lék nokkur hlutverk eftir að hann hætti sem fastráðinn leikari. Síðasta hlutverk Þráins hjá LA var í „Sek” eftir Hrafnhildi Hagalín. Á þeim rúmu þremur áratugum sem Þráinn starfaði hjá Leikfélagi Akureyrar var hann sannkallaður burðarstólpi þess og lék ótal hlutverk, stór og smá, auk þess að leikstýra og hanna leikmyndir. Á þessum árum leikstýrði hann  jafnframt mörgum sýningum hjá áhugafélögum í nágrannabyggðum Akureyrar  og hannaði leikmyndir, lék í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi.

Meðfram leiklistarstörfum lagði Þráinn stund á myndlist af ýmsu tagi. Hann var hagur á allt efni, járn og tré, skar út og teiknaði. Árið sem hann var bæjarlistamaður Akureyrar 1995-96 sinnti hann einungis myndlist og eftir hann liggja fjölmörg listaverk. Þráinn sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra leikara og sat lengi í stjórn Leikfélags Akureyrar. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar á ferlinum m.a. listamannalaun.

Helstu hlutverk Þráins Karlssonar:

1968-69 I.R.A. officer - Gísl. Leikfélag Akureyrar
1969-70 Charlie Brown -    Þið munið hann Jörund. Leikfélag Akureyrar
1970-71 Brown lögreglustjóri - Túskildingsóperan. Leikfélag Akureyrar
1972-73  Kári - Fjalla-Eyvindur. Leikfélag Akureyrar
1973-74  Scanarelle - Don Juan. Leikfélag Akureyrar
1974       Scanarelle í sjónvarpi - Don Juan. Ríkisútvarp/sjónvarp
1974-75  Skrifta-Hans - Ævintýri á gönguför. Leikfélag Akureyrar
1975-76  Maðurinn - Krummagull. Alþýðuleikhúsið
1976       Maðurinn í sjónvarpi - Krummagull. Dramatiska Institutet
1976-78  Mattheus Mattheusson/Runólfur biskup - Skollaleikur. Alþýðuleikhúsið
1978       Mattheus Mattheusson/Runólfur biskup sjónvarp - Skollaleikur. Ríkisútvarp/sjónvarp
1978-79  Grasa-Gudda - Skugga-Sveinn. Leikfélag Akureyrar
1978-79  Þórður - Stalín er ekki hér. Leikfélag Akureyrar
1978-79  Bjartur í Sumarhúsum - Sjálfstætt fólk. Leikfélag Akureyrar
1979-80  Matti vinnumaður - Puntila og Matti. Leikfélag Akureyrar
1981-82  Anton Antonovitsj - Eftirlitsmaðurinn. Leikfélag Akureyrar
1982-83  Bréfberinn Roulin - Bréfberinn frá Arles. Leikfélag Akureyrar
1983-84  Alfred Doolittle - My Fair Lady. Leikfélag Akureyrar
1985-86  Róri - Atómstöðin. Leikfélag Akureyrar
1986-87  Er það einleikið? - Varnarræða mannkynsfrelsara/30 ára leikafmæli. Gamli maðurinn og kvenmannsleysið –  
1986-87  Schultz    - Kabarett. Leikfélag Akureyrar
1987-88  Eddie Carbone - Horft af brúnni. Leikfélag Akureyrar
1988-89  Jón - Sólarferð. Leikfélag Akureyrar
1988-89  Ezra Pound - Skjaldbakan kemst þangað líka. Leikfélag Akureyrar
1991-92  Jón Hreggviðsson - Íslandsklukkan. Leikfélag Akureyrar
1992-93  Frosch - Leðurblakan. Leikfélag Akureyrar
1992-93  Brynjólfur Sveinsson - Hallgrímur. Leikfélag Akureyrar
1993-94  Jakob Engström - Afturgöngur. Leikfélag Akureyrar
1993-94  Öll karlhlutverk - Bar par. Leikfélag Akureyrar
1994-95  Arthur Birling - Óvænt heimsókn. Leikfélag Akureyrar
1994-95  Tommi - Þar sem Djöflaeyjan rís. Leikfélag Akureyrar
1996-97  Angel - Undir berum himni. Leikfélag Akureyrar
1999-00  Jeeter Lester - Tobacco Road. Leikfélag Akureyrar
2000-01  Will Breiðfjörð - Gleðigjafarnir. Leikfélag Akureyrar
2001-02  Ananías    - Gullbrúðkaup. Leikfélag Akureyrar
2002-03  Póloníus - Hamlet. Leikfélag Akureyrar
2005-06  Posi - Maríubjallan. Leikfélag Akureyrar
2008-09  Þrándur - Fló á skinni. Leikfélag Akureyrar

Helstu leikstjórnarverkefni Þráins Karlssonar:

1989-90    Fátækt Fólk. Leikfélag Akureyrar
1990-91    Ættarmótið. Leikfélag Akureyrar
1992-93    Lína langsokkur. Leikfélag Akureyrar
1994-95    Á svörtum fjöðrum. Leikfélag Akureyrar
1996-97    Sigrún Ástrós.     Leikfélag Akureyrar
2000-01    Tveir misjafnlega vitlausir. Leikfélag Akureyrar
2001-02    Blessað barnalán. Leikfélag Akureyrar

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri

Helstu heimildir:
Saga leiklistar á Akureyri, Haraldur Sigurðsson
Leikminjasafn Íslands