Ljósaborð Þjóðleikhússins

Haustið 2005 barst Leikminjasafni Íslands í hendur stór og mikil gjöf frá Þjóðleikhúsnu: þrjú ljósaborð Þjóðleikhússins, ljósdeyfar og stýrikerfi. Gjöfinni fylgdu einnig nokkur sýnishorn af ljóskösturum hússins frá 1950. Þessir gripir eru meðal hinna merkari sem safnið hefur eignast. Sérstakur fengur er þó í elsta ljósaborðinu sem sett var upp í leikhúsinu við opnun þess árið 1950. Borðið, sem var framleitt af Strand Electric í Englandi, var eins og slík tæki gerðust best á sínum tíma og mun jafnvel hafa verið eitt af þremur sem framleidd voru í heiminum. Það olli að sjálfsögðu gjörbyltingu í íslenskri leiksviðslýsingu á sínum tíma. Borðið var í notkun til 1977 og hefur þess síðan verið gætt vandlega í leikhúsinu. Hin ljósaborðin ásamt meðfylgjandi búnaði eru frá 1977 og 1991. Á myndinni er ungur ljósamaður Kristinn Daníelsson, sem síðar var ljósameistari Þjóðleikhússins í áratugi, ásamt fulltrúa Strand Electric, Bill Bundy, við borðið árið 1950.