Leikminjasafnið á Safnanótt 2018

Hlín Agnarsdóttir leiklistarfræðingur bauð til skapandi samtals um veruleikann handan við leikaraskap leikarans á Safnanótt 2018 í Iðnó. Hún kom m.a. við í fræðum á borð við málheimspeki, feminisma og sálgreiningu og talaði um samband "stórleikara" 20. aldarinnar við #metoo hreyfingu nútímans.
Handan við leikaraskapinn er MA-ritgerð Hlínar, þar sem fjallað er um sjálfsmynd leikhúsmannsins og þá ímynd sem hann hefur skapað sér í samfélaginu. Með orðinu leikhúsmaður er átt við alla skapandi og túlkandi listamenn leikhússins; leikskáldið, leikstjórann og leikarann. Leikritið Der Theatermacher eftir Thomas Bernhard er ákveðið viðmið í rannsókninni sem að baki liggur, en þar er brugðið upp kaldhæðinni mynd af "stórleikaranum" sem var burðarásinn í stofnanaleikhúsum Evrópu á 20. öld, en ímynd stórleikarans er nátengd hugmyndinni um stóra listamanninn sem oftast var karlkyns. Hlín skoðaði veruleikann sem er handan við leikaraskap leikarans og leit til leiklistarsögunnar, einkum til leikskálda sem hafa gert leikhúsveruleikann að yrkisefni.