Jón Þórisson látinn

Jón Þórisson, leikmyndateiknari og hönnuður, lést á heimili sínu á nýársdag aðeins 67 ára að aldri.
Jón var einn af frumkvöðlum stofnunar Samtaka um Leikminjasafn, sem leiddi til þess að Leikminjasafni Íslands var komið á fót 2003.  Hann sat í stjórn safnsins um árabil og lagði því til starfskrafta sína í fjölda sýninga allt frá stofnun og fram til þessa dags. Við fráfall hans er hoggið skarð í mikilvægt bakland safnsins, sem seint verður fyllt svo vel fari. Við leiðarlok er því tilefni til að minnast Jóns með nokkrum fátæklegum orðum á þessum vettvangi.

Jón var traustur félagi og samstarfsmaður, prýddur góðum gáfum og hæfileikum til að takast á við fjölbreytt verkefni. Hann var sérstaklega fróður um sögu leiklistar á Íslandi og raunar um sögu almennt. Hann var gefinn fyrir grúsk og undravert hversu vel hann mundi það sem hann heyrði og las. Það var hægt að fletta upp í honum þegar á þurfti að halda, ekki síst öllu er laut að leiksýningum Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó því þar lágu rætur hans sem leikmynda- og búningahöfundar. Hann starfaði þar í þrjá áratugi, eða frá 16 ára aldri og fram til ársins 2002, með viðkomu í Sjónvarpinu á árunum 1970 - 1978. Hann hannaði sína fyrstu leikmynd og búninga fyrir LR 1967 í uppsetninguna á Leynimel 13. Af öðrum verkefnum hans hjá LR má nefna leikmyndir og búninga fyrir Leynimel 13, Pétur Pan, Hassið hennar mömmu, Saumastofuna og Glerhúsið. Þá starfaði hann einnig fyrir Íslensku Óperuna, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Alþýðuleikhúsið. Ein af eftirminnilegum sýningum sem Jón átti þátt í að skapa var Poppleikurinn Óli, sem settur var upp í Tjarnarbíói á vegum Grímu 1969, þar hannaði hann lýsingu og var hluti af sjálfum leikhópnum, því Jóni var fleira til lista lagt en að hanna leikmyndir og búninga.

Þegar á leið tók Jón að starfa við að setja upp og hanna hvers kyns sýningar, bæði fyrir fyrirtæki í almennu atvinnulífi en einkum þó fyrir söfn og menningarstofnanir. Hann hannaði t.d. Þórbergssetur á Hala í Suðursveit, ekki einasta sýninguna heldur er hann annar af tveimur hönnuðum hins sérstæða húss, sem hýsir starfsemi Þórbergsseturs, hinn var arkitektinn Sveinn Ívarsson. Þá hannaði Jón fjölda sýninga fyrir söfn og setur vítt og breitt um landið og auðgaði þannig lista- og menningarlíf landsbyggðarinnar auk þess sem hann bætti stöðugt í fróðleiksbrunn sinn og gagnabanka.

Jón var mikil félagsvera og gæddur ríkum persónutöfrum, enda var hann vinamargur og hafði einkar gaman af að rækja tengsl við fólk. Það var fátt skemmtilegra en að setjast niður með Jóni og hlýða á sögur ýmist úr leikhúsinu eða af öðrum þeim vettvangi sem hann hafði kannað. Þá skemmdi nú ekki fyrir hversu skemmtilega hann sagði frá, því hann var fádæma góður sögumaður og lék á alls oddi þegar færi gafst á að segja sögur af samferðamönnum sínum. Oftar en ekki voru sögurnar hans stútfullar af húmor, enda kímnigáfa Jóns einn af hans sterkustu eiginleikum.  

Við leiðarlok vill stjórn Leikminjasafns Íslands þakka samfylgd þessa hæfileikaríka vinar og samstarfsmanns, með þá von í brjósti að andi hans og kraftur fái áfram fylgt starfi safnsins og heitir því að varðveita um langa framtíð þátt Jóns Þórissonar í íslenskri leiklistarsögu.
Stjórn Leikminjasafns Íslands sendir fjölskyldu Jóns samúðarkveðjur.

Kolbrún Halldórsdóttir