Erlingur Gíslason látinn

Erlingur Gíslason leikari lést á heimili sínu þann 8. mars síðastliðinn. Erlingur var á 83. aldursári en hann fæddist í Reykjavík þann 13. mars 1933, sonur  hjónanna Gísla Ólafssonar bakarameistara og Kristínar Einarsdóttur húsmóður.

Erlingur lauk stúdentsprófi frá MR 1953, stundaði nám í íslensku við HÍ 1953-54 og lauk prófi í forspjallsvísindum frá HÍ 1954. Þá lauk hann prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1956, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1953-54, nam leikhúsfræði við Háskólann í Vínarborg og leiklist við Leiklistarskóla Helmut Kraus í Vín 1956-57. Auk alls þessa sótti hann leiklistarnámskeið í London og Berlín 1965-66 og námskeið í gerð kvikmyndahandrita hjá Dramatiska Instutetet í Svíþjóð.

Erlingur var leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu, leikhópnum Grímu og Leikfélagi Reykjavíkur og fór með fjölda hlutverka í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum. Erlingur var einn af stofnendum Leikklúbbsins Grímu 1961, var formaður Leikarafélags Þjóðleikhússins 1967-69 og Félags íslenskra leikstjóra 1975-77 og 1979-81.

Erlingur samdi, ásamt seinni eiginkonu sinni, Brynju Benediktsdóttur, leikstjóra, leikritið Flensað í Malakoff og leikritið Flugleik ásamt fleirum. Erlingur skrifaði handrit að stuttmyndinni Símon Pétur fullu nafni 1988, en fyrir handritið hlaut Erlingur verðlaun Listahátíðar í Reykjavík 1988.

Árið 2008 sæmdi forseti Íslands Erling riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar leiklistar.

Stjórn Leikminjasafns Íslands sendir fjölskyldu Erlings samúðarkveðjur.