Dagskrá um listdanssögu

Á síðasta fundi Leikminjasafns Íslands árið 2016 kom upp sú hugmynd að íslenskur listdans yrði heiðraður á Safnanótt 3. febrúar 2017. Árni Kristjánsson var fenginn til að halda utan um verkefnið og vera curator en honum til halds og traust voru aðrir meðlimir Leikminjasafnsins.
Viðburðurinn fékk nafnið Dagskrá um listdanssögu Íslands. Leiðandi þema í öllum viðburðum kvöldsins snérist um skrásetningu: Hvernig skrásetjum við danssöguna? Hvernig deilum við upplifun og minningum um hreyfingu?
Leikminjasafnið sýndi þessa dagskrá í Iðnó eins og dagskrá síðasta árs, 2016.

Í anddyri Iðnó var hnöttur þar sem dansfróðir gestir gátu merkt inn staði þar sem íslenskir dansarar hafa dansað. Hnötturinn var þakinn teiknibólum í lok kvöldins og var tilgangurinn að gefa tilfinningu fyrir því hversu alþjóðlegur nútímadansinn er.

Á efri hæð Iðnó voru reist skilti um Helga Tómasson, frá starfsafmæli hans, sem höfðu áður verið til sýnis í Borgarleikhúsinu. Þar áttu sér einnig stað hlýlegar umræður um dansheiminn og danssöguna. Fyrri umræðum stjórnaði Magnús Þór Þórbergsson og þátttakendur voru Guðmundur Helgason, Tinna Grétarsdóttir og Steinunn Ketilsdóttir. Seinni umræðum stjórnaði Sesselja G. Magnúsdóttir og þátttakendur voru Katrín Yngvadóttir, Auður Bjarnadóttir og Ragnheiður Bjarnason.

Í sal Iðnó voru myndskeið sýnd úr ýmsum danssýningum sem RÚV hafði tekið upp eða látið gera sérstaklega. Tvisvar um kvöldið var svo flutt sérsamin sögudagskrá Ingibjargar Björnsdóttur og Katrínar Gunnarsdóttur sem var um 40 mínútna löng og var Árni Kristjánsson kynnir að henni. Dagskrá Ingibjargar og Katrínar var veigamesti þáttur þessarar kvöldstundar og gekk ágætlega þrátt fyrir mjög slappa mætingu. Þátttakendur kvöldsins létu það ekki á sig fá og voru mjög ánægð með þetta framtak. Alls mættu milli 30-40 manns á alla viðburðina og var tómlegt í húsinu.

Viðburðurinn var ágætlega kynntur á netmiðlum en Safnanótt brást algjörlega í sínu starfi þar sem þau kynntu dagskránna aðallega fyrir erlendu ferðafólki, vegna þess að þau héldu að þetta væri danskvöld, staðsetning viðburðarins var vitlaust merkt í kynningarbæklingi þeirra og nærliggjandi söfn fengu fjölda fyrirspurna hvar Leikminjasafn Íslands væri staðsett og enginn gat svarað þeim. Fyrir næsta ár mæli ég eindregið með því að fylgst verði vel með vinnubrögðum Safnanætur og gengið úr skugga um að þau skilji út á hvað dagskrá Leikminjasafnsins gengur og ítreki hversu mikilvægt það er að kynna vel viðburði okkar þar sem ekki er um hefðbundið safn, né þekkta staðsetningu að ræða.

Árni Kristjánsson