Ársfundur NCTD 2015Ráðstefna og aðalfundur NCTD fór fram í Osló dagana 19.-20. maí og var fundarstaðurinn í Norska Ríkisleikhúsinu. NCTD (Nordisk Center for Teater Dokumentation) eru samtök safna og sviðslistasstofnana sem sérhæfa sig í varðveislu á leikminjum og skráningu á sögu sviðslista. Ráðstefnugestir voru 16 talsins frá fjórum Norðurlöndum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi.

Á ráðstefnunni kynntu Hege Rød Segerblad og Rikhard Larsson nýjan vef NCTD sem er ætlaður til skoðanaskipta og miðlunar á upplýsingum milli félaga og til almennings. Slóðin á nýja vefinn er www.nctd.eu.

Benedikte Berntzen frá norska Landsbókasafninu sagði frá því hvernig leikhúsefni er safnað með kerfisbundnum hætti í Noregi. Skylduskil eru á sex handritum, 4 leikskrám og 2 plakötum og dreifimiðum. Auk þess reynir safnið að halda saman hljóð og myndefni, safna teikningum og ljósmyndum og heldur utan um allt leikið efni frá norska Ríkisútvarpinu. Landsbókasafnið norska geymir nú efni frá 221 leikhúsi, leikminjasöfnum og einstaklingum og efnið er allt frá árinu 1780 til okkar daga. Ekki var laust við að öfundar gætti hjá íslenska fulltrúans undir þessum lestri og kemur hann hér með á framfæri hvatningu til íslenska Landsbókasafnsins að fylgja þessu fagra fordæmi.

Hinn fyrirlesarinn, Jon Refsdal MOe leikhússtjóri Black Box Teater, lagði upp með heimspekilegar vangaveltur um möguleika á því að varðveita þessa list augnabliksins sem sviðslistir eru og hvort það sé yfirleitt hægt og þá með hvaða aðferðum. Út frá ræðu Jóns spruttu fjörlegar umræður um efnið. Fyrri deginum lauk svo með heimsókn í Leikminjasafnið í Osló sem er til heimilis í Árbæjarsafni þeirra óslóbúa, Oslo Bymueseum.

Seinni daginn var aðalfundur NCTD. Þá sögðu þátttakendur frá því sem helst er að gerast í leikminjavörslu í hverju landi og hjá sínum stofnunum. Stofnuð var nefnd með einum fulltrúa frá hverju landi til að uppfæra upplýsingar um leikminjasöfn á Norðurlöndum og aðrar stofnanir sem skrásetja sviðslistasögu og Rikhard Larsson tók að sér að vera talsmaður NCTD fram að næsta fundi sem verður í Stokkhólmi 2017. Alette Scavenius hvatti alla til að láta sjá sig í Kaupmannahöfn 2016 á SIBMAS þingi en SIBMAS eru alþjóðleg samtök þeirra sem sjá um varðveislu og skráningu leikminja.

Deginum lauk svo með skoðunarferð um hina glæsilega óperu- og balletthöll í Osló og er meðfylgjandi mynd tekin af hluta hópsins í andyrinu